29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (11481)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

11481Vilmundur Jónsson:

Ég vil gera þá aths. við ræðu hv. 4. þm. Reykv., að ég kannast alls ekki við þær miklu tekjur rannsóknarstofunnar, sem hann telur hana hafa. Vandræði þau, sem hún er i, stafa eingöngu af fjárþröng. Enda er hún ákaflega tekjulítil stofnun, sem eðlilegt er, þar sem hún vinnur endurgjaldslaust fyrir lækna, og verður að gera það. Læknarnir verða að fá gerðar nauðsynlegar rannsóknir sér til hjálpar við sjúkdómsgreiningu viðstöðulaust og fyrir ekki neitt. Þeim gengur illa að innheimta slíkt hjá sjúklingunum og mega ekki leiðast í þá freistingu að reyna að spara þennan rannsóknarkostnað. Það gæti orðið almenningi hættulegt.

Deilan er risin af fjárskorti. Hefði háskólinn brugðist vel við og veitt styrk sinn áfram, hefði aldrei komið til þess, að stofunni hefði orðið að loka.