18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. fyrri kafla (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

mér virðist ekki ástæðulaust að rifja nokkuð upp nú þegar, hvernig útlit er um fjárhagsafkomu þjóðarinnar, bæði fyrir yfirstandandi ár og svo fyrir næsta ár.

Eins og hv. þdm. er kunnugt út af ræðu hæstv. fjmrh., þegar hann lagði fjárlagafrv. fyrir d., þá hefir afkoma síðasta árs orðið sú, að það vantar um 21/2 millj. á greiðslujöfnuð þess árs, sem hefir þær afleiðingar, að sjóðeign ríkisins hefir lækkað um sömu upphæð, svo að eftir er í sjóði aðeins rúm 1/2 milljón kr. Yfirstandandi ár byrjar svo þannig, að fyrirsjáanlegt er, að tekjur verða stórkostlega minni en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Það minnsta, sem hægt er að hugsa sér, að þessi lækkun nemi, er a. m. k. 21/4 millj. kr. Auk þess er í fjárl. þessa árs greiðslujöfnuðurinn óhagstæður, svo að nemur 30 þús. kr. Það er því talsvert mikið, sem á vantar, þegar þess er líka gætt, að ekki eru ýmsar stórar upphæðir, sem greiðsluheimild hefir verið veitt fyrir, t. d. 150 þús. kr. framlag til Eimskipafélagsins, sem áreiðanlega verður að greiða, og sömuleiðis atvinnubótastyrkur, sem talsvert mikið hefir verið greitt af, eða um 300 þús. kr. Þá verður einnig að lita á það, að ekkert er áætlað fyrir ýmsum greiðslum samkv. l., sem sett voru á síðasta þingi og eins greiðslum samkv. eldri 1. T. d. má taka verkamannabústaðina. Með þeim breyt., sem gerðar voru á þeirri löggjöf á síðasta þingi, hefir þar orðið að greiða 33 þús. kr. á þeim eina lið.

Þá má búast við minnkun tekna vegna lækkunar á útflutningsgjaldi af síld. Það var ekki tekið með, þegar tekjulækkunin var áætluð, en telja má líklegt, að sú tekjurýrnun nemi 50–100 þús. kr. Það er því áreiðanlegt, að mikill halli verður á niðurstöðu þessa árs, og má telja víst, að á þessu ári getur ekki farið betur en svo, að það vanti um 3 millj. kr. til þess að tekjur og gjöld standist á. Það verður því ekki hægt að komast af þetta ar nema með því að taka 21/2 millj. kr. skyndilán, og mun þó varla duga til, því að sjálfsagt þarf ríkissjóður að fá um 3 millj. til þess að standast útgjöld, vegna þess að tekjur koma svo miklu seinna inn í ríkissjóðinn en gjöld falla á. Af þessu öllu er það sjáanlegt, að það eru ekki glæsilegar horfur með fjármálin á næsta ári, og því verður Alþingi að fara eins gætilega og unnt er.

Af þessu hafa svo störf fjvn. mótazt. Hún hefir reynt að færa gjöldin niður eins og hún frekast sá sér fært. Og þar sem um lögboðin útgjöld var að ræða og n. fannst tiltækilegt að spara, þá hefir hún flutt frv. um bráðabirgðafrestun á framkvæmd þessara laga. Á þennan hátt hefir n. nokkurnveginn tekizt að fá jöfnuð á fjárlagafrv. En nú við 3. umr. fjárl. liggja fyrir brtt. frá ýmsum hv. þdm., og nema þær rúmlega 11/2 millj. kr. hækkun. Þar má að vísu draga frá nokkuð á 2. hundrað þús. kr., svo að hækkunin verður þá samkv. brtt. tæp 11/2 millj. kr. Þar við bætist svo það, að við samningu fjárlagafrv. hefir verið byggt á þeim tekjustofnum, sem gilda fyrir yfirstandandi ár, svo sem áður hefir verið tekið fram, en eins og allir vita, falla sumir þeirra niður við næstu áramot. Við samningu fjárlagafrv. var gert ráð fyrir, að þessi tekjulög yrðu framlengd, en sú framlenging skiptir mjög miklu máli fyrir ríkissjóð, því að þar er um á 2. millj. kr. að ræða. En jafnvel þótt sú framlenging næði fram að ganga, eða þá einhverjir aðrir tekjustofnar kæmu í staðinn, sem gæfu jafnmikið fé, þá mundi þó algerlega vanta fé í ríkissjóðinn til þess að standa undir heim gjöldum, sem leiða mundi af samþ. þessara brtt. þetta verða hv. þdm. að gera sér ljóst áður en til atkv. verður gengið.

Þar sem n. lítur svo á, að ekki megi hækka útgjöld frá því, sem nú er í fjárlagafrv., þá gefur það að skilja, að hún mælir ekki með þeim brtt., sem hér liggja fyrir, og þarf ég því ekki að hafa mörg orð um hverja einstaka brtt. Ég verð þó að fara nokkrum orðum um nokkrar af þessum brtt., sérstaklega þar sem um tilfærslu er að ræða.

Er þar fyrst að minnast á brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. um sendiherraembættið í Kaupmannahöfn og fulltrúa í Englandi. það er alveg rétt hjá hv. þm., að þetta embætti í Kaupmannahöfn hefir orðið dýrt, talsvert dýrara en ræða hans gaf tilefni til að ætla, því að yfirleitt tók hann aðeins þær upphæðir, sem áætlaðar eru í stjfrv., en eins og landsreikningarnir sýna, þá hafa greiðslurnar orðið talsvert hærri, og ennfremur hafa þær orðið því hærri, sem nemur gengismuninum, sem hvergi kemur fram nema sem falin upphæð á gengisreikningi eða óvissum útgjöldum. Svo er það, að þessi kostnaður við utanríkismálin hefir orðið meiri en það, sem heimfært er á þessum liðum, því að ýmsar sendinefndir og sendimenn, sem hafa farið utan til þess að vinna eitthvað að þessum málum, hafa orðið talsvert kostnaðarsöm fyrir ríkið. M. a. var kostnaður við sendimann, sem var um tíma í London, 36600 kr. það var árið 1920. Kostnaðurinn varð nú samt nokkru meiri en þetta, því að seinna, árið 1923, var greiddur vegna starfs þessa manns símakostnaður og fleira, 1700 kr. ha,ð hefir varla komið fyrir á nokkru þessara ára, að þessi kostnaður hafi orðið undir 70–80 hús. kr., þegar allt er talið, sem fallið hefir til útborgunar til þessarar starfsemi.

Þetta sendiherraembætti, sem hv. þm. minntist á, hefir orðið þannig, að það hefir ekki blásið byrlega fyrir þeirri stefnu, sem hann talaði fyrir. Að vísu leit helzt út fyrir það á þingi 1924, að það hefði nokkurn árangur, og var þá flutt frv. um það í Ed. Ég er persónulega þeirrar skoðunar í þessu máli, að við eigum að vinna að því sem allra bráðast að ala upp menn, sem verði vel færir um að taka við þessum störfum, þegar við verðum sjálfir að sjá fyrir okkar utanríkismálum, og þarf það helzt að vera á þann hátt, að starfið verði praktískt, en ekki með neinu tildri.

Ég álít erfitt að breyta um starfsemi þessa sendiherra okkar í danska ríkinu, nema þá með því að breyta lögunum um sendiherrann. Að því leyti hygg ég, að sú stefna, sem tekin var upp árið 1924, sé rétt. Það virðist líka eðlilegt og sjálfsagt, að þetta mál væri rækilega undirbúið af utanríkismálanefndinni, sem hv. þm. á sæti í. Þetta ætti að vera eitt af hennar sjálfsögðustu störfum, þó að hún hafi ekki unnið að því ennþá.

Ég hygg, að kostnaður af þessari breyttu tilhögun verði miklu meiri en hv. hm. samkv. þessum brtt. virðist gera sér grein fyrir. Hann ætlar aðeins 24 þús. kr. til þessa sendimanns í Englandi, en eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefir um það, hvað störf þessara manna kosta, jafnvel þó að það hafi ekki verið opinberir sendimenn, þá hygg ég, að það sé allt of lítið. Það verður að athugast vel og vandlega, hvað hægt er að komast af með minnst í þessu skyni. Þá yrði að taka mjög tillit til þess, hvaða tildurskostnað væri hægt að komast hjá að greiða og hvernig ætti að koma embættinu þannig fyrir, að það yrði þjóðinni að sem mestu gagni. Um það hljóta allir að vera sammála, að þótt mikil prakt sé og dýrð um þetta embætti, þá er það ekki til neinna hagsbóta fyrir þjóðina. Þegar að því kemur, að við tökum utanríkismálin í okkar hendur, verðum við að hafa erindreka á tiltölulega mörgum stöðum, svo að útlit er fyrir, að það verði nokkuð dýrt fyrir svo litla þjóð. Þess vegna verður að stefna að því, að það kæmi að sem allra mestum notum, sem á hverjum stað er varið til þessa starfa. En allt þetta sýnist mér eftir till. hv. þm. vera á huldu, bæði það, hvernig embættið eigi að reka, og líka hitt, sem líka verður að gera sér ljóst, hve mikill kostnaður mundi verða af þessu embætti. Þessi embættismaður verður að hafa skrifstofu, sjálfsagt 2–4 herbergi. Hann verður að hafa skrifstofufólk, ég veit ekki hvað margt, svo að hann geti sýnt allt í röð og reglu. Þetta þarf allt að rannsaka vel og nákvæmlega áður en ráðist er í framkvæmdir. Mér þykir mjög líklegt, að þessi mikli kostnaður vegna sendiherrans í Danmörku hafi dregið úr því, að slík embætti væru stofnuð annarsstaðar, jafnvel þótt þörfin hafi engu siður verið þar heldur en í Danmörku. Þar hefir kostnaðurinn verið 80 þús., og er því ólíklegt, að hægt sé að komast af með 24 þús. í Englandi.

Um þennan ríkisráðskostnað vil ég segja það, að mér er ekki vel kunnugt, hvernig hann er til kominn. Hann kemur fyrst til útborgunar árið 1922 og var þá talsvert lægri en nú. 1923 hækkar hann svo nærri því upp í 6 þús., 1924 er hann 6 þús. Á því þingi var borið fram frv. af stj., að þessi kostnaður yrði 8 þús. kr., en Alþingi lækkaði það niður í 6 þús. Ástæðan fyrir þessari hækkun á ríkisráðskostnaðinum var talin sú, að Jón Sveinbjörnsson konungsritari hefði orðið að vinna svo mikið í orðunefndinni, að orðið hefði að greiða honum sérstaklega fyrir það. Það er að vísu tekið fram, að nefndarmenn skuli vinna kauplaust, en það er dálítið hæpið að segja einhverjum mönnum að vinna ákveðin störf í n. og ekkert fá fyrir það starf. Annars virðist mér um þennan kostnað, að það megi margt á milli vera, hvort þessi kostnaður er 4–6 þús. eða 1 þús., eins og hv. 2. þm. Reykv. vill vera láta. Ég veit ekkert um það, hvort Jón Sveinbjörnsson hefir fengið laun fyrir þetta starf síðan 1926, en væri svo, þá er ekki nema eðlilegt nú á þessum tímum, að þessi þóknun til hans lækkaði nokkuð.

Hv. þm. hefir fellt niður gengismun á gjöldum vegna utanríkismála, og má vel vera, að rétt sé að gera það, en óviðkunnanlegt væri að gera það, þar sem það hefir aldrei verið gert, síðan þetta var sett í lög.

Þá skal ég minna á brtt. frá hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. Þeir bera fram till. um það, að færa niður fjárveitingu til toll- og löggæzlu úr 70 þús. niður í 30 þús. Það er þýðingarlaust að vera að færa þessa áætlun niður, ef gert er ráð fyrir svipuðu mannahaldi á þessu sviði og verið hefir. En ef frv. það, sem flutt hefir verið um niðurfærslu á þessu sviði, verður samþ., þá kemur þetta af sjálfu sér og þá verður minna útborgað á þessum lið heldur en áætlunin gerir ráð fyrir.

Þá vil ég fara örfáum orðum um þær brtt., þar sem farið er fram á fjárveitingar til vega. Það er þá fyrst Holtavörðuheiðarvegurinn, sem svo mjög óx mönnum í augum við 2. umr. Nú eru komnar till. um að lækka framlag til hans úr 50 þús. niður í 20 þús., og svo að hækka þessar 20 þús. upp í 30 þús. kr. Fjvn. hefir tekið þá afstöðu til þessara brtt. að standa á móti þeim, en fylgja sínum till. Ég skal þó geta þess um brtt., sem fer fram á að hækka framlagið úr 20 þús. upp í 30 þús., að það framlag er nær sanni en þessar 20 þús. Fyrir 30 þús. mætti gera svo mikið, að það kæmi að notum, en ef það er aðeins 20 þús., ha verða engin not af því, sem gert er.

Um alla hina vegina er hægt að segja það sama, — þeir eru allir meira og minna nauðsynlegir, eins og yfirleitt er um vegi hvar sem er. En nauðsyn á þessum vegum er þó ekkert meiri en annarsstaðar. Þess má geta um Fjallabaksveginn, sem er einn af þeim hæstu, — það er ætlazt til, að til hans séu lagðar 10 þús. kr. —, að vegamálastjóri hefir upplýst, að hægt muni að verja svo miklu fé til hans á næsta ári af því fé, sem ætlað er til viðhalds vega, að það ætti að geta komið að fullum notum. Það virðist því vera ráðið, að þessi vegur verði lagður fyrir viðhaldsfé, og er því ástæðulaust fyrir þessa hv. þm. að flytja brtt. um sérstaka fjárveitingu til þessa vegar.

Um hinar stóru brtt. jafnaðarmanna um framlög til vega þarf ekki að segja annað en það, að þar er farið fram á svo stóra aukningu á framlögum til verklegra framkvæmda, að það getur ekki komið til mála að sinna því, að ríkið hafi þær tekjur, sem geta staðizt þessi útgjöld. það þarf a. m. k., áður en talað er um svo mikla aukningu til framkvæmda, að hafa tryggingu fyrir því, að nægilegt fé sé til að inna af hendi þær framkvæmdir, sem nú þegar er gert ráð fyrir í frv. Hv. hm. Seyðf. segir, að ef stj. vilji fallast á þessar till. þeirra, þá séu þeir reiðubúnir til að sjá henni fyrir nægum tekjum til þessara framkvæmda. Það hefir nú samt ekki bolað ennþá á neinu, sem bendir í rá átt, að þeir geti staðið við það loforð sitt, og meðan svo er, þá álítur n. ekki viðlit að taka svo stóra gjaldaliði upp í frv.

Sama er að segja um fjallvegaféð. það er dálítil mótsögn við það, sem haldið hefir verið fram við þessa umr., að það ætti sízt að leggja fé í vegagerðir á fjöllum uppi, ef nú á að fara að bæta við fjallvegaféð frá því, sem í frv. stendur. N. hefir ekki borið fram neinar brtt. við þessa liði, en virðist, að vel megi una við það, sem í frv. stendur, ekki sízt þegar uppi eru svo háværar raddir um það, að ekki megi leggja mikið fé til vega á heiðum uppi. Hv. þm. Barð, hefir flutt brtt. við þennan lið, að verja skuli 5 þús. kr. af fjallvegafé til vegar frá Hvalskeri við Patreksfjörð yfir Skersheiði að Saurum á Rauðasandi. N. vill ekki, að þessu fé verði ráðstafað öðruvísi en í samráði við vegamálastjóra.

Þá er ein brtt. frá hv. 1. þm. Árn. og hv. þingmönnum Rang., 1. á þskj. 418, um vöruflutningastyrk til hafnleysisheraðanna á Suðurlandi. Styrkurinn greiðist því aðeins, ef frv. það, sem nú liggur fyrir þinginu um skatt af bifreiðum o. fl., verður að lögum. Ég er yfirleitt mótfallinn slíkri endurgreiðslu á skatti. Bifreiða- og benzínskatturinn á að greiða fyrir umferð og flutningum um landið, þegar honum er varið til þess að bæta vegina, því að þá verður flutningskostnaðurinn um leið minni. Það virðist liggja miklu nær að auka og bæta vegakerfið austur um láglendið með heim benzínskatti, sem til fellst á því svæði, heldur en að veita þangað styrk til vöru- og mannflutninga. Það væri mjög eðlilegt, að þm. þessara heraða gerðu riflegar kröfur um viðhaldsfé, sem varið yrði til vegakerfisins í þessum héruðum; það væru vel forsvaranlegar kröfur, og virðist sjálfsagt, að þingið tæki tillit til þeirra. Á þann hátt er heppilegast að gera vöruflutningana ódýrari.

Það hefir verið fært sem ástæða fyrir þessari kröfu um flutningastyrk, að menn í þessum héruðum væru verr settir en aðrir vegna vegalengdar frá hafnarstað; en ég vil benda á, að það er ekki sama, hvort bændur eru með vegasambandi tengdir við höfuðstað landsins eða útkjálkakauptún. Þeir hafa miklu betri aðstöðu til að koma búsafurðum sínum í gott verð í höfuðstaðnum, í stað þess, að hinir verða að sætta sig við miklu verri markaðskjör í smáþorpunum, og þessi mismunur kemur mjög greinilega í ljós á þessum verðfalls- og krepputímum. Verðfallið á afurðum sauðfjárins er líka miklu meira en á mjólkurafurðum kúabúa. Og sauðfjárræktin er líka tiltölulega miklu meiri í þeim héruðum, sem ekki geta notað Reykjavíkurmarkaðinn. Af þessum ástæðum er það eðlilegt, að þó að flutningskostnaðurinn sé nokkru meiri í héruðunum austur frá Reykjavík, þar sem meira er um kúabúin, þá þoli bændur hann betur þar heldur en í afskekktum héruðum.

Þá kem ég að XI. brtt. á þskj. 418, frá hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. Fjvn. hefir óbundin atkv. um þessa till. Þessi brtt. fer fram á lækkun á kostnaði og framlagi til strandferðaskipa ríkisins, en mér þykir ekki líklegt, að raunveruleikinn verði sá, sem flm. gera ráð fyrir. Að vísu hafa nú þegar verið gerðar tilraunir til að draga mikið úr strandferðakostnaðinum, en ekki eru líkur til, að unnt verði að ganga svo langt sem brtt. gerir ráð fyrir.

Hv. þm. V.Sk. flytur XII. brtt. á þskj. 418, um hækkun á styrk til „Skaftfellings“, að fyrir 20 þús. komi 24 þús. kr. Í frv. var ætlazt til, að þessi liður lækkaði, eins og til flóabata. En ég verð að játa, að hér stendur nokkuð öðruvísi á en um flótabáta. „Skaftfellingur“ er öllu fremur strandferðaskip og ætti því að heyra undir strandferðastyrk. Ég var í samgmn., þegar hann var skilinn frá flóabátunum og færður undir annan lið, strandferðirnar. En þegar ástæður ríkissjóðs eru svo sem nú er kunnugt, þá þarf alstaðar að klípa af útgjaldaliðum, og þess vegna getur n. ekki mælt með því, að þessi till. verði samþ.

Ég ætla ekki að tala um brtt. frá jafnaðarm., XIII. á þskj. 418. um 50 þús. kr. hækkun á styrk til bryggjugerða og lendingarbóta, af því ég lít svo á, að hún sé flutt aðeins til málamynda; hv. flm. vita fyrirfram, að hún verður ekki samþ., vegna þess að peninga vantar til þeirra framkvæmda, og sama má segja um aðrar brtt. þeirra um hækkun á fjárframlögum til ýmissa verklegra framkvæmda. Að því er snertir styrkinn til bryggjugerða og lendingarbóta, vil ég benda á, að gegn þessu framlagi úr ríkissjóði verður að koma tvöfalt fjárframlag frá hlutaðeigandi héruðum. Nú er það kunnugt, að á 2–3 stöðum hefir staðið til, að unnið yrði að lendingarbótum, en það hefir ekki verið hægt, af þeirri ástæðu, að héruðin hefir skort fé til framlags á móti ríkissjóði. Og sýnilegt er, að í þessu árferði verður ekki hægt að hugsa til þess nema á einum stað. Það eru því augljós látalæti að áætla fé í fjárl. til þessara framkvæmda, þegar héruðin geta ekki svarað út sínum hluta af framlögunum, þó að ríkissjóður gæti lagt fram sinn hluta.

Ég get svo einnig vitnað til þessara ummæla minna að því er snertir aðra brtt. frá jafnaðarm. á þskj. 430, um fjárframlög til nýrra símalína, sem þeir ætlast til að verði hækkuð um 40 þús. kr. Á sama þskj. er líka brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. um að hækka framlög til nýrra símalina um 40 þús. kr., og varatill. um 12500 kr. hækkun á þeim lið. Fjvn. hefir tekið ákveðna afstöðu um það, það mikið fé hún ætlast til, að lagt verði til nýrra símalina, og sér ekki ástæðu til að hvika frá því, ekki sízt vegna þess, að mikið af því fé, sem varið er til símalína, fer út úr landinu fyrir efni. Fjvn. getur gjarnan fallizt á, að þörf sé fyrir þessa símalinu frá Sandeyri til Hesteyrar, en þar sem nú verður að slá á frest mörgum framkvæmdum, sem þegar eru lögbundnar, og búið er að ákveða, hvaða símalínur skuli lagðar fyrir það fé, sem n. hefir lagt til að veitt yrði, þá sér n. ekki fært að bæta þessari fjárveitingu þar við. Ég skal svo láta útrætt um þessar brtt. og get visað til þess, sem ég sagði í upphafi máls míns, að fjvn. treystir sér ekki til að mæla með útgjaldatill. fram yfir það, sem hún þegar hefir tekið til greina, vegna þess að tekjurnar hrökkva ekki einu sinni fyrir þeim útgjöldum, sem þegar eru komin inn í frv. Það eru því miður engar ástæður til þess, að búast megi við betra arferði, og þess vegna er ekki hægt að byggja á því, að tekjurnar verði eins miklar og þær eru áætlaðar í frv. Engar leiðir virðast færar á þessu þingi til þess að afla ríkissjóði nýrra tekna, og má því búast við, eftir þeim horfum, sem nú eru, að rýrni í ríkissjóðnum meira en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.