04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (11502)

Stjórnarskipti

Jónas Jónsson:

Ég þarf ekki að gera nema stutta aths. út af ræðu hæstv. dómsmrh. Málið lá ljóst fyrir eftir þeirri reglu, sem ég hefi fylgt í stjórnarráðinu, sem sé að láta lögin ganga jafnt yfir alla. Vænti ég þess, að hann muni og fylgja þeirri reglu, enda þótt honum yrði ráðfátt í Krossanesi út af síldarmálunum forðum.

En ég gat ekki fylgt honum þar. Sá ég ekki ástæðu til annars en að láta rannsókn fara fram, þegar sannazt hafði, að notuð voru svikin mæliker á Hesteyri. Vona ég, að eftirmaður minn hafi lært svo mikið, að honum þyki nú ekki ástæða til annars en að láta málið ganga áfram. Vona ég líka, að hann taki meira tillit til góðrar greindar og réttlætistilfinningar borgaranna en eitt stuðningsblað hans, sem hélt því fram, að dæmalaust væri að höfða mál gegn manni, sem er hátt settur í stjórnmalaflokki hans. Leit helzt út fyrir, að það væri alveg sama, hvað slíkir menn aðhefðust. Orðlengi ég svo ekki þetta, en lýsi aðeins yfir því, að ég óska og vona, að dómsmrh. sá, sem nú verður um óákveðinn tíma, fylgi ekki síður en ég þeirri reglu að láta lögin ná jafnt til allra, og mun þá vaxa vegur hans frá því, sem áður var.