04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (11506)

Stjórnarskipti

Jónas Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ég hefði eftir lausum orðrómi stöðvað kæru út af einhverju tilfelli, sem hann tiltók ekki nánar. Vissi ég ekki, við hvað hann átti, og spurði hann því um þetta, af því að svo vel vill nú til, að hann situr hérna við hliðina á mér, en hann gat ekkert svar gefið. Virðist hv. þm. hafa dreymt þetta. Atvik það, sem hann vitnar til og mun hafa gefið honum þessa skökku skoðun, er það, að í sumar varð hér úlfaþytur mikill út af siðferðismáli einu, af því að maður einn af svokölluðu betra fólki hafði orðið sannur að sök um vítaverða breytni í siðferðislegu tilliti.

Voru gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að eyða málinu, en ég sá ekki ástæðu til annars en að láta rannsaka málið, enda þótt þessi maður ætti einhverja kunningja. Lýsi ég því hv. 1. þm. Reykv. fullkominn, ósannindamann að dylgjum sínum um, að ég hafi nokkurntíma stöðvað rannsókn í sviksamlegum málum.

Ég ætla ekki að svara gremjuorðum hv. þm. G.-K. Skil ég, að honum sé viðkvæmt, að upp komst um sviknu síldarmálin, 30 að tölu. Er eins og hann áliti þetta sök sjómannanna, sem kærðu svikin, eða mannsins, sem mældi kerin, eða mína. En sökin er hjá honum sjálfum viðvíkjandi þessum mælikerum, sem hann hafði komið fyrir uppi á dimmu lofti, þar sem vart var hægt að finna þau. Er það staðreynd, að kerin voru röng honum í hag. Hefði hann átt að hafa smekk til þess að skipta sér ekki af, þegar kæra kom fram hér í þingi frá þm. héraðs, sem orðið hafði fyrir skaða af þessum sviknu mælikerum. En hv. þm. G.-K. hefir beitt áhrifum og kunningsskaparsamböndum til þess að hindra, að málið kæmi fram. Þessi framkoma hans, eftir að sekt hans er sönnuð og almenningi kunn, sýnir. hvernig þroska hans er háttað.

Þegar hv. þm. talar um það, að ég hafi látið falla niður meiðyrðasektir, þá er það skáldskapur um mig. Blað það, sem ég skrifa stundum í, varð fyrir slíkum sektum. Ég tók það fram í till. minni um þetta mál, sem ég býst við, að séu góð rök, að nú er svo komið á Íslandi, að einungis einn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, skoðar meiðyrðamálshöfðun sem lið í hinni pólitísku baráttu. Hefði ég getað látið sekta sumpart hv. þm. og sumpart flokksbræður hans einu sinni á dag fyrir meiðyrði meðan ég var í stj., en ég hefi fyrirlitið þá bardagaaðferð. En þegar svo er komið, að aðeins einn flokkur landsins notar þessa bardagaaðferð, jafnframt því, að hann beitir sjálfur mestum meiðyrðum í skrifum sínum, og þar sem meiðyrðasektir hafa ekki verið innheimtar síðan fyrir aldamót, þá hikaði ég ekki við þetta. Þegar Jón Magnússon var hér ráðh., lét hann aldrei innheimta meiðyrðasektir. Er réttarmeðvitund almennings orðin á þá lund, að þetta er orðin úrelt bardagaaðferð óþroskaðra manna, eins og hv. þm. G.-K., sem reyna að breiða yfir sár sín með slíku. Er ég þess því fullviss, að framtíðin muni réttlæta þá skoðun mína, að annaðhvort verði allir flokkar að taka upp þessa hernaðaraðferð, eða þá að hinir flokkarnir, sem ekki liggja í meiðyrðamálum, komi fram þeim vilja sínum, að eitt gangi yfir alla í þessu efni. Hefir enginn ríkari rétt til þess en ég að leggja til, að felldar verði niður þessar meiðyrðasektir, því að enginn hefði getað fengið blaðamenn dæmda í jafnháar sektir eins og ég. En ég hefi náðað óvini mína í þessum efnum. Það fór því vel á, að líka fellu niður sektir samherja minna.