04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (11509)

Stjórnarskipti

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. 5. landsk. svaraði aths. mínum aðan og þóttist skilja þær svo, að ég hefði sagt, að hann hefði kæft mál eitt, er hann fyrirskipaði sjálfur, að rannsaka skyldi. Það mál beindist gegn mönnum, sem líkt er ástatt um og þá, sem nú er fyrirskipuð málshöfðun á, að þeir eru ekki vinir hv. þm. En það var allt annað mál, sem ég átti við. — Um hitt málið sagði ég, að ég myndi ekki eftir því. Skal ég ekki bera brigður á það, þar sem hv. 5. landsk. segir það hafa verið sína reglu sem dómsmrh. að láta lögin ganga jafnt yfir alla, að það hafi mest verið fyrir minnisleysi, þegar hann sem ráðh. lét kærur falla niður, er vinir hans og flokksbræður áttu í hlut. (JónasJ: Ég vil skora á hv. þm. að skrifa um þetta í blað sitt og gera þar frekari grein fyrir því, sem hann á við, og skal þá ekki standa á mér að hrekja þessi ósannindi hv. þm.). Það er svo sem hægt að gera það, en ég geri þó ekki ráð fyrir, að það hafi mikla þýðingu, því að ég hreyfði þessu lauslega á sumarþinginu 1931 og vitnaði einmitt til þess í minni fyrri ræðu, og hv. 5. landsk. þm. sagði þá, að hann síðar skyldi sanna, að ég færi með rangt mál um þetta, en hv. þm. hefir ekki sýnt hinn minnsta lit á því að standa við þetta, og stendur enn allt óhrakið, sem ég þá sagði í þessu efni. Ég get líka minnt hv. 5. landsk. á annað mál, út af skattsvikum, þar sem hann gekk svo fast fram gegn kærunni, að hann rak manninn út, sem með kæruna kom. (JónasJ: Þetta eru tóm ósannindi). Nei, þetta er sannanlegur sannleiki. sem hv. 5. landsk. þýðir því ekki að vera að mótmæla. (JónasJ: Ég skal sanna það siðar). Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að láta sem hann ætli að sanna þetta síðar, því að reynslan hefir sýnt, að hann hvorki getur það né gerir.