04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (11515)

Stjórnarskipti

Jón Jónsson:

Þó að þessar umr. séu nú þegar orðnar alllangar, vil ég samt ekki láta hjá líða að láta í ljós ánægju mína yfir því, að tveir stærstu , flokkar þingsins hafa nú orðið ásáttir um að leggja deilumálin til hlíðar og beina saman bókum til sameiginlegra átaka á þessum erfiðu tímum. Það voru þó aðallega ummæli hv. þm. G.-K., sem komu mér til að kveðja mér hljóðs, en hann gat ekki stillt sig um það nú fremur en endranær að hnýta í hv. 5. landsk. og lét þau orð falla, að Framsóknarflokkurinn hefði viljað gefa fyrrv. dómsmrh. ráðningu með því að taka hv. 2. þm. Skagf. í sæti hans. Vil ég taka það fram, að því fór mjög fjarri, að Framsóknarflokkurinn vildi með þessu lýsa vantrausti á hendur fyrrv. dómsmrh. Fyrrv. ráðuneyti fann upp á því sjálft að biðjast lausnar, án þess að Framsóknarflokkurinn ætti þar nokkurn hátt í, og það varð að samkomulagi með flokkunum, að Framsóknarflokkurinn veldi tvo menn í stj. og Sjálfstæðisflokkurinn einn mann, og átti Framsóknarflokkurinn engan hlut þar að, hver kæmi í stj. af hálfu sjálfstæðismanna, heldur var það algerlega á valdi þeirra sjálfra. Og að því er snertir þá menn, sem Framsóknarflokkurinn hefir valið í stj., þykist ég mega gera mér vonir um, að þeir reynist flokknum vel og drengilega í ráðherrasætunum.