04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (11517)

Stjórnarskipti

Haraldur Guðmundsson:

Þessar umr. hafa farið mjög á víð og dreif, en ég vildi þó, áður en þeim lýkur, benda hv. þingheimi á það, að hvað sem annars segja má um hæfileika hinnar nýju stj., þá er þó eitt víst, það er að stj. hefir a. m. k. einn hæfileika til að bera í ríkum mæli, hún er loðmæltari og óákveðnari í svörum en nokkur stj. önnur, sem ég man eftir. Er það til marks um þetta, að af hálfu okkar jafnaðarmanna hafa hér verið bornar upp fjórar fyrirspurnir, og hefir hæstv. stj. aðeins svarað einni þeirra svo, að við verður unað, en hinum þremur hefir stj. ýmist ekki svarað eða þá svarað þeim út af.

Svo var talið af öllum, þegar þetta þing kom saman í febr. í vetur, að höfuðmál þessa þings væru tvö. Annað þeirra er kjördæmamálið eða stjórnarskrármálið. Það er og vitanlegt, að þessi hin nýja stj. er fyrst og fremst mynduð vegna þess, að fyrrv. stj. gafst upp við að leysa þetta aðalmál þingsins og treysti sér hinsvegar ekki til að halda áfram störfum, nema fjárl. væru samþ. og nauðsynleg fjáröflunarl. til handa ríkissjóði, en þetta var bundið því skilyrði af hálfu andstöðuflokka fráfarandi stj., að kjördæmamálið væri leyst á þessu þingi. Nú hefir Sjálfstæðsflokkurinn gengið á bak orða sinna og tekið höndum saman við Framsóknarflokkinn um myndun þessarar nýju stj., og skyldi maður því ætla, vegna hinnar fyrri afstöðu Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálinu, að einhver trygging væri fengin fyrir lausn þess máls, en svo kynlega bregður við, að þegar stj. er spurð um þetta, svarar hæstv. forsrh. því einu til, að hann eygi einhverja lausn á málinu á næsta þingi. Það er því fjarri því, að um nokkra tryggingu sé að ræða með þessari stjórnarmyndun fyrir því, að stjórnarskrármálið verði leyst, nema ef væri sú trygging, sem felst í hinu ærlega og fallega andliti hæstv. forsrh., og verð ég að segja það, án þess að ég þó vilji á nokkurn hátt lasta andlitið, að ég tel þessa tryggingu nauðalitla.

Annað höfuðverkefni þessa þings hefir með réttu verið talið að gera einhverjar ráðstafanir til að draga úr þeim örðugleikum vegna kreppu og atvinnuleysis, sem landsfólkið nú stynur undir. Það virðist því, sem eðlilegast hefði verið, að þessi hin nýja stj. hefði skýrt frá fyrirætlunum sínum í þessu efni, en svo undarlega bregður við, þegar stj. er spurð að því, hvað hún ætli að gera, að hæstv. forsrh. lætur sér nægja að lýsa yfir því, að hann sjái ekki ástæðu til að tala um þetta mál að sinni. Vænti ég, að enginn lái mér það, þótt mér þyki slík svör helzt til snubbótt.

Þá gerðum við jafnaðarmenn fyrirspurn til hæstv. stj. út af sakamálsrannsóknum þeim, sem fráfarandi dómsmrh. fyrirskipaði fyrir nokkrum dögum. Hefir hæstv. núv. dómsmrh. svarað fyrirspurninni að því leyti, sem hún tók til hans persónulega, og var svar hans á þá leið, að hann mundi láta það mál ganga áfram til dómstólanna. Er þar svarað eins og við atti, hvort sem hæstv. ráðh. hefir svarað svo af því, að hann álítur, að fyrirskipun sakamálsrannsóknarinnar hafi verið studd rökum, eða þessi ákvörðun hans er af persónulegum ástæðum sprottin. Að því er snertir sakamálsrannsóknina á hendur forstjórum Kveldúlfs, þá hefir einn af forstjórum félagsins, sem á sæti hér á Alþ., hv. þm. G.- K., lyst yfir því, að hann muni gera þá kröfu til stj., að það mál gangi einnig áfram til dómstólanna, og fyndist mér illa gert af núv. hæstv. dómsmrh., ef hann getur ekki orðið við bón vinar síns og flokksbróður um að láta málið ganga áfram, úr því að málshöfðunin var fyrirskipuð á annað borð. Um þriðju sakamálshöfðunina, sakamálshöfðunina á hendur Íslandsbankastjórunum, hefir það hinsvegar heyrzt, að hún hefði verið tekin aftur, og er þó þetta mál miklu alvarlegra og þýðingarmeira en bæði hin málin, og teldi ég því mjög illa farið, ef þessi orðrómur er sannur. Ég lít svo á, að úr því að þessum málum hefir verið hrundið af stað á annað borð, sem ég hygg, að fullt tilefni hafi verið til, megi þeir, sem undir þessum kærum liggja, telja það réttlætiskröfu, að málin séu látin ganga áfram til dóms, svo að í ljós komi sekt þeirra eða sýkna í þessum málum, og ég óska eftir því að málin verði öll látin ganga áfram til dómstólanna, eins og til var stofnað, svo að dómur megi í þeim falla, ef málshöfðunin eigi hefir verið afturkölluð. Og hvað sem segja má um hæstaréttardómarana að öðru leyti, þá er það a. m. k. víst, að ekki þarf að óttast, að hinn hæstv. hæstiréttur verði á neinn hátt illviljaður þeim mönnum, sem hér er um að ræða.

Svo loðmælt sem hæstv. ríkisstj. hefir verið í öllum sínum svörum, skal ég játa það, að ýmsir stuðningsmenn hennar hafa verið opinskárri og bersöglari. hér hafa nú talað fjórir af stuðningsmönnum stj. og kastað kærleikskveðjum hver á annan, hv. þm. G.-K., hv. þm. Dal., hv. 1. og 3. landsk. sé ég, að það er sannkallað kærleiksheimili, sem að stj. stendur, og óska ég hæstv. stj. til hamingju með samkomulagið milli stuðningsmanna hennar. Yfirlýsingar þessara stuðningsmanna stj. stungu að vísu allmjög í stúf hver við aðra. Þannig sagði hv. þm. Dal., að stj. væri aðeins einskonar nefnd og hvor flokkurinn bæri aðeins ábyrgð á sínum mönnum í stj., en hv. 1. landsk. þm. segir þetta með ollu rangt, og sé hér vitaskuld ekki um þingn. að ræða, heldur ríkisstj., sem mynduð sé á þinglegan hátt með stuðningi meiri hl. þings, og er ég sammala hv. 1. landsk. um það, að svo á þetta að vera, og vona ég, að það eigi eftir að koma greinilega í ljós, hvort þetta er svo eða ekki, því að ég geri ráð fyrir, að vantrauststill, okkar jafnaðarmanna komi til atkv. hér í sameinuðu þingi þegar í dag, eins og hæstv. forseti hefir lýst yfir, að muni verða.

Að lokum vil ég vekja frekari athygli

á eftirtektarverðri setningu, sem hv. 3. landsk. lét hér falla í upphafi sinnar ræðu áðan. Hann lét svo um mælt, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu nú snúið saman bökum, til þess sameiginlega að mæta hinu alvarlega ástandi, sem nú ríkir í landinu. Geri ég ráð fyrir, að hv. 3. landsk. hafi meint þetta. En ég vil leyfa mér að spyrja hann að því,, hvað komið hafi frá hinni nýju stj., sem bendi í þessa átt. Ekki er það lausn kjördæmamálsins, því að svör stj. þar voru þau ein, að hæstv. forsrh. taldi sig eygja einhverja lausn á því máli einhverntíma í framtíðinni. Og ekki eru það kreppuráðstafanir eða atvinnubætur, því að hæstv. forsrh. taldi sig ekki hafa neina ástæðu til að ræða þau mál að sinni. Get ég ekki neitað því, að svarafæð hæstv. stj. er mér enn óskiljanlegri, eftir að þessi höfuðsmiður stj. hefir lýst yfir því, að þessi væru höfuðverkefni þessarar nýju stj. Hinn nýi kennslumálaráðh. hefir að vísu ekki sagt eitt orð enn, og mun víst ekki sjá ástæðu til að láta neitt uppi um sínar fyrirætlanir í þessum efnum, og hina tvo ráðh. þekkjum við frá fornu fari og þau bjargráð, sem helzt er að vænta frá þeirra hendi, enda skal ég ekki leyna því, að ég vænti ekki mikils af þessari nýju og loðmæltu stj.