17.02.1932
Efri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (11557)

Starfsmenn þingsins

Jón Baldvinsson:

Ég veit ekki, hvað hv. 1. landsk. á við með þessari áskorun sinni til hæstv. forseta. Það hefði þó verið gott að fá nánari skýringu á því, svo hægt hefði verið að átta sig á málinu. Hinsvegar tel ég það rangt, að fullveðja menn, enda þótt starfsmenn séu í þinginu, megi ekki láta skoðanir sínar í ljós opinberlega. Þó mætti vera, að það, sem hv. 1. landsk. á við, sé svo fyrir neðan allar hellur hvað velsæmi snertir, að það gæti réttlætt kröfu hans. En um þetta ætti hv. þm. að gefa nánari upplýsingar. Ég get þó skilið það, að ef þetta snertir einstakan mann, þá vilji hv. þm. síður ræða það á opinberum fundi. Væri því æskilegt, að hæstv. forseti hlutaðist til um, að um þetta yrði haldinn aukafundur.