17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

59. mál, eignarnám á landspildu á Bolungavíkurmölum

Frsm. (Jón Ólafsson):

Eins og nál. ber með sér, mælir n. eindregið með því, að frv. þetta verði samþ. N. lítur svo á, að Bolungavík sé nauðsynlegt að fá þetta uppsátur, sem frv. fer fram á. Hinsvegar leggur n. til, að 2. málsgr. 1. gr. falli niður. Þar er farið fram á, að mat á þessari landspildu skuli byggjast á því verðlagi, sem var á landinu, áður en öldubrjótsbyggingin hækkaði það í verði. Það er ekkert fordæmi fyrir því að fara svo langt aftur í tímann um grundvöll undir mat á landi og vafasamt, hvort þetta sé ekki beint brot á stjórnarskránni. N. leggur því til, að þetta sé heimilað á venjulegan hátt.