12.03.1932
Neðri deild: 27. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

114. mál, hvalveiðar

Flm. (Bergur Jónsson):

Eins og sest á grg. þessa frv., þá hefir íslenzku félagi verið veitt leyfi til hvalveiða hér við land 10 ár samkvæmt 1. frá 1928. Þessi atvinnurekstur heimtar mikið rekstrarfé, og því hefir félagið ekki ennþá getað byrjað þennan atvinnurekstur, sökum fjárskorts. Nú er útlit fyrir, að félagið geti komizt í samband við norskt hvalveiðafélag, svo að nú væri unnt að hefjast handa á næsta vori. En útlenda félagið hefir sett það skilyrði, að það fái að nota sín skip til veiðanna, en ef þetta fyrirtæki tekst sæmilega, ætlar félagið sér að kaupa skipin og flytja þau inn í landið.

Eins og sest á 1. gr. frv., er undanþágan mjög takmörkuð, nær aðeins til 3 skipa í 11/2 ár, svo að það er áhættulaust að veita þessa undanþágu, en aftur á móti væri það eftirsóknarvert, ef hægt væri að hefja þennan atvinnurekstur hér á landi, þegar atvinnuvegir landsmanna berjast í bökkum og atvinnuleysi þjáir verkalýðinn í landinu. Ég vona því, að frv. verði vel tekið og legg til, að því verði, að umr. lokinni, vísað til sjútvn.