11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

114. mál, hvalveiðar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta fer fram á að veita h/f „Drekanum“, sem fengið hefir sérleyfi til hvalveiða hér við land samkvæmt 1. um hvalveiðar frá 1928, undanþágu frá ákvæðum þeirra laga, þannig, að félaginu sé heimilt á árunum 1932 og 1933 að nota 3 erlend skip til veiðanna.

Það er nú svo með þetta félag, að það hefir ekki enn getað byrjað starfsemi sína, og eins og nú lítur út, er því það ekki kleift, nema því aðeins, að það fái heimild til að nota erlend skip til þessara veiða, og þá aðallega norsk, eins og þetta frv. fer fram á. Í hv. Nd. var frv. samþ. mótatkvæðalaust.

Sjútvn. sér ekki ástæðu til að leggja á móti því, að þessi undanþága verði veitt, og telur, eins og nú er ástatt um atvinnu í landinu, æskilegt, að félagið geti hafið starfsemi sína, og leggur því til, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir.