03.03.1932
Neðri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

55. mál, ríkisskattanefnd

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Frv. það, sem hér er á dagskrá, er flutt eftir beiðni hæstv. fjmrh. af meiri hl. fjhn. Það voru að vísu ekki allir nm. á fundi, þegar málið var afgr., en ekki kom upp neinn ágreiningur um það, hvort flytja ætti frv.

Að hugsun og efni til er frv. þetta gamalkunnugt mál hér á Alþingi. Oft hefir verið um það rætt, að nauðsyn bæri til þess að setja allsherjareftirlit með skattaframtali landsmanna. Frv. er að efni til að mestu leyti sniðið eftir till. mþn. í skattamálum í frv. heim, sem afgr. voru um tekjuskatt og eignarskatt frá báðum nefndarhlutunum. Í n. var enginn ágreiningur um það, að setja bæri á stofn þetta yfireftirlit, og má því vænta þess, að ekki þurfi að verða verulegur ágreiningur manna á milli um málið og að menn falist yfirleitt á það að nauðsyn sé á þessu eftirliti með skattaframtali og skattakvörðun landsmanna.

Með frv. fylgdi ýtarleg grg. frá fjmrh. Ég geri ráð fyrir, að menn muni hafa kynnt sér hana og sé því frekari framsaga í málinu óþörf.