03.03.1932
Neðri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

55. mál, ríkisskattanefnd

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég þakka hv. meiri hl. n. fyrir það, að hafa tekið þetta frv. að sér til flutnings. Ég þakka líka hv. minni hl. n. fyrir það, að hafa ekki sterkari ástæður á móti frv. en hér hafa verið fram bornar.

Hv. minni hl. hefir greint frá því, að frv. þetta myndi orka því, að skattar til ríkissjóðsins yrðu drýgri en ella. Það hefir oft verið lögð áherzla á það. Sérstaklega af fulltrúum Reykv., að niðurjöfnun þessara skatta væri ekki í fullu samræmi um land allt, heldur yrði Rvík. þar harðast úti. Ég tel víst, af þeim kunnugleikum og þeirri afspurn, sem ég hefi af skattanefndum, og þá sérstaklega frá skattstofunni hér í Reykjavík, að það myndi muna þó nokkru frá því, sem nú er, ef slík n. yrði sett á stofn. Þó yrði n. þessi ekki einungis sett vegna ríkissjóðs, heldur engu síður vegna jafnréttis þegnanna í þessum greinum. Og sú ráðstöfun, sem tryggir slíkt jafnrétti, hefði gjarnan mátt koma fyrr. Ég hygg einnig, að enginn flokkur, ekki heldur stj.flokkur, myndi æskja þess, að úrskurðarvaldið í þeim málum verði lengur í höndum ráðuneytisins. Það er óeðlilegt og aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Ég hafði hugsað mér, að andstöðuflokkar stj. myndu e. t. v. enn frekar en stj.flokkurinn æskja eftir slíkri n., sem yrði nokkurskonar dómstóll í málum þessum í stað ráðuneytisins. Af rökum þeim, sem fram hafa komið í ræðu hv. frsm., og þá sérstaklega því, að mþn. í skattamálum hefir mælt með frv. því, sem hér er lagt fram, þykist ég sjá, að frv. muni fá góða afgreiðslu í þinginu.