03.03.1932
Neðri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

55. mál, ríkisskattanefnd

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi áður látið í ljós, að ég teldi nauðsynlegt að hafa landsyfirskattanefnd, og sú skoðun mín er óbreytt. En ég tel þann tíma, sem nú stendur yfir, mjög óheppilegan til að setja hana á stofn. En þar sem ég sé enga kostnaðaráætlun, vildi ég þó spyrja hæstv. fjmrh., hvað hann áætli, að frv. hafi minnstan kostnað í för með sér. Í 4. gr. frv. er n. gefinn allt of laus taumur um ferðalog nefndarmanna, og er ófyrirsjáanlegt, hvílíkan kostnað getur af því leitt. Í 4. gr. segir: „Skulu nefndarmenn eða þeir, er nefndin kveður til þess, ferðast um á milli skattanefnda og yfirskattanefnda í þessu skyni, þegar ástæða þykir til“. Skilst mér, að átt sé við, þegar nm. sjálfum þykir ástæða til. Þetta er allt of rúmt og getur orðið ríkissjóði þung byrði áður en lýkur. Ég vildi einnig mælast til, að hæstv. fjmrh. upplýsti, hvað hann teldi hæfilega borgun fyrir störf nm. auk ferðakostnaðar Það er ekki af tortryggni við hæstv. fjmrh., að ég spyr að þessu, heldur af því, að ég hefi séð þess dæmi í tíð nú. stj., að mynduð hafa verið mörg hálaunað embætti út af heimildum Alþingis, þar sem enginn kostnaður var áætlaður. Má t. d. benda á bifreiðaeftirlitið. Nú hafa þrír fastir menn það með höndum, en það var áreiðanlega ekki tilætlun Alþingis. Sama má segja um vélaeftirlitið. Því er full ástæða til að vera varfærinn um slíkar heimildir.

Ég vil benda á, að í 6. gr. stendur: „og ennfremur hefir nefndin ætíð aðgang að bókum banka og sparisjóða og annara peningastofnana“. Hér er gengið feti framar en í gildandi lögum, þar sem hægt er að heimta af bönkum og sparisjóðum, að þeir gefi upp innieignir manna. Ég býst við, að hæstv. fjmrh. hafi tekið eftir því, hve bönkum og sparisjóðum er illa við þetta ákvæði, og nær það þó allmiklu skemmra en ákvæðið í frv. þessu.

Að mínu áliti er langbezta aðferðin sú, að bankar og sparisjóðir taki sjálfir þennan skatt af innieign manna og greiði í ríkissjóð.

Eins og ég hefi þegar sagt, væri mér kært að heyra, hve háan hæstv. ráðh. áætlar kostnaðinn. Ég býst við, að hann sé mér sammála um, að forðast beri hvers eyris kostnað í slíku árferði sem nú er.