03.03.1932
Neðri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

55. mál, ríkisskattanefnd

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég ætla fyrst að svara hv. 2. þm. Skagf. út af 6. gr. frv. Ég get ekki sé, að hér sé gengið lengra en í gildandi lögum, en gæti þó fallizt á, að ekki sé vert að beita ákvæðinu þannig ár eftir ár, að bankar og sparisjóðir sendu skýrslu um hvern einstakling. En frá hinu er ekki hægt að falla, að skatta og yfirskattanefndum sé í einstaka tilfellum heimilt að rannsaka bækur banka og sparisjóða eins og hvers annars gjaldþegns. Hér er ekki verið að fara fram á annað. Ég veit, að bönkum hefir verið illa við að gefa upplýsingar um alla viðskiptamenn sína, en ekki við það, þótt þeir hafi orðið að gera það í einstökum tilfellum. Enda er þetta varúðarakvæði til eftirlits í gildi í öllum löndum.

Þessi nefnd á að vera nokkurskonar hæstiréttur í þeim skattamálum, sem ekki eru svo vaxin að öðru leyti, að þau falli undir dómstólana. Dómstólseðli hennar krefst þess, að hún hafi aðgang að öllum gögnum.

Um kostnað við n. get ég ekki sagt með fullri vissu. Aukakostnaður við skattstofuna yrði ekki teljandi. Um aukakostnað við ferðalög færi eftir því, hve staðaeftirlit yrði mikið. Mætti og bæta því inn í lögin, að þessi kostnaður sé greiddur eftir því sem á hverjum tíma er ákveðið í fjárlögum. Um laun hvers nm. færi eftir því, hvort einn væri formaður eða allir jafnir. En ekki álít ég, að launin þyrftu að fara fram úr 3000 kr. á ári, eða 1000 kr. á mann. Ef ég get fengið nýjar upplýsingar um þetta atriði, mun ég geta þeirra við næstu umr. Einkum getur verið óviss kostnaður við ferðalög nefndarmanna.

Hitt álít ég fjarri sanni, að árferðið gefi tilefni til að spara í þessu efni. Ég tel þvert á móti, að við megum ekki láta undir höfuð leggjast að setja slík lög sem þessi í svona árferði. Við erum alls ekki svo efnum búnir, að við megum við því að kasta frá okkur þeirri tekjuvon, sem af frv. þessu er, því að ég er ekki í minnsta vafa um, að af því verður meiri hagnaður en kostnaður. Annars get ég nefnt mörg dæmi þessu til sönnunar, m. a. útlendan verzlunarrekstur hér, sem slapp við svo ríflegan tekjuskatt, að hann myndi hafa nægt til þess að greiða kostnaðinn af þessari nefnd um langt skeið. Ég hefi ennfremur rekið mig á annað dæmi, þar sem um var að ræða tvö erlend fyrirtæki með líkri aðstöðu. Annað starfaði hér og það varð að greiða skatt, en hitt starfaði úti á landi, en það slapp við skatt. Slík tilfelli sem þetta eru ekkert undarleg, ævi að þess er beinlínis ekki að vænta, að skattarnefndir í smáhéruðum hafi eins mikið bein í nefi til þess að standa á móti ofríki erlendra umboðsmanna eins og t. d. skattstofan hér.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það væri varhugavert að láta skipun þessarar nefndar í hendur núv. stj. Það væri sök sér, ef hans flokkur ætti að ráða henni. Að n. þessi eigi að vera pólitísk, mótmæli ég algerlega, og ef ég, ætti að skipa í hana, myndi ég skipa í hana líkt og ég væri að skipa í hæstarétt, því að ég tel nauðsynlegt, að sem flestir væru ánægðir með hana. Ég get vel gengið inn á, að tekjuskatturinn verði minni í ár en hann hefir verið að undanförnu, en ég tel engar líkur til þess, að hann ásamt eignarskattinum fari, eftir þeim lögum, sem nú gilda, niður úr 900 þús. kr. Er það vissulega hlutur, sem ekki er ástæðulaust að athuga, gagnvart gjaldþegnunum engu síður en ríkissjóði.

Eins og ég tók fram áðan, geri ég fastlega ráð fyrir, að meiri tekjur verði af frv. þessu en kostnaður, því að það er vist, að framtal til tekju- og eignarskatts er hvergi meira en vera ber; sú hliðin þarf því ekki verndar við. Það mun því sérstaklega verða starf n. þessarar að athuga þá hlið þessa máls, sem að ríkissjóði snýr. Þó geri ég alls ekki ráð fyrir neinum stórum herleiðingum gegn skattræningjum, eins og hv. þm. Borgf. var að tala um. (PO: Frv. gerir ráð fyrir því). Já, hv. þm. les frv. þetta með svo undarlegum gleraugum, að í augum hans verður það allt öðruvísi en það á að vera, og allt öðruvísi en aðrir skilja það. Þannig sér þessi hv. þm. t. d. alstaðar hættur af því, sem enginn annar sér.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að bóndi, sem flytti hingað til Reykjavíkur, hefði engu meiri skilyrði til þess að dæma um afkomu þeirra, sem halda áfram búskapnum, heldur en áður. Þetta má vel vera rétt hvað búskap áhrærir, en er alls ekki rétt eða sambærilegi um skattaálögur og skattakærur. Því verður ekki í móti mælt, að sá, sem setur sig inn í þessi mál, hlýtur að verða færari um að dæma um þau en sá, sem lítið eða ekkert kynnir sér þau.

Að vera að tala um embætti í þessu sambandi, eins og hv. þm. Borgf. gerði, er alls ekki rétt. Slíkt er aðeins til þess að vekja óhug og andúð gegn málinu. Hér er einungis um að ræða lítið starf fyrir 3 menn, sem í hæsta lagi getur svarað til hálfs embættis eins manns. Það er því ekki kostnaðarhliðin, sem getur fælt menn frá að fylgja máli þessu, og það er heldur ekki hægt að færa fram sem ástæðu gegn því, að slík lög sem þessi eigi ekki að setja á vondum og erfiðum tímum jafnt sem góðum, þar sem hér er áreiðanlega um sparnað að ræða fyrir ríkissjóð, en ekki eyðslu. Ég vænti því, að hv. þm. Borgf. sýni nú hinn mikla sparnaðarhug sinn, sem hann er alltaf að tala um, og fylgi frv. á þeim grundvelli, sem það liggur fyrir.