08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

55. mál, ríkisskattanefnd

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég er þakklátur hv. meiri hl. fjhn. fyrir till. hans og afgreiðslu á frv. Þó að ég teldi ekki nauðsynlegt að ákveða í fjárl. upphæð til kostnaðar vegna ríkisskattan., þá hefi ég ekkert á móti því, ef hv. þdm. þykir það betur við eiga.

Ég get fallizt á skilning hv. 2. þm. Skagf., að ef engin fjárveiting er ætluð í fjárl. til. kostnaðar við störf ríkisskattan., þá er ekki hægt að láta lögin koma til framkvæmda. En hinsvegar tek ég það fram, að ef Alþingi telur þetta frv. þess vert að afgreiða það sem lög, þá hlýtur það einnig að áætla fjárveitingu til þess í fjárl., að þau verði framkvæmd. Ég vil biðja hv. þdm. að gæta þess lög gleyma því ekki), að hér er ekki um að ræða frv. til útgjalda fyrir ríkissjóð, heldur til tekjuöflunar, en sem auðvitað fylgir nokkur kostnaður. Frv. miðar sérstaklega að því að samræma tekju og eignarskattinn alstaðar á landinu, og það leiðir áreiðanlega til tekjuauka fyrir ríkissjóð. Engin útgjöld hafa borgað sig betur fyrir ríkissjóð en þær 10–12 þús. kr., sem varið er til starfrækslu skattstofunnar í Reykjavík. Hér er einnig mikill tekjuauki í vændum fyrir ríkið, og vona ég fastlega, að áætlað verði í næsta árs fjárl. fyrir kostnaði við störf ríkisskattanefndar.