08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

55. mál, ríkisskattanefnd

Magnús Guðmundsson:

Mér þótti vænt um að heyra, að hæstv. fjmrh. hefir sama skilning og ég á því, að lög þessi komi því aðeins til framkvæmda, að fjárveiting verði ákveðin til þess í fjárl. — Ég veit, að hæstv. ráðh. getur ráðið því, hvort slík fjárveiting verður sett í fjárl. eða ekki.

Í 24. gr. fjárl.frv. stendur, að ef lög þau, sem afgr. hafa verið frá Alþingi 1932 og hafa í för með sér tekjur eða gjöld fyrir ríkissjóð, verða staðfest, breytist fjárhæðirnar tekju- og gjaldamegin samkv. þeim lögum. Ég álít mjög óheppilegt að láta ríkisskattanefnd hefja störf á þessum erfiðu tímum og setja fjárveitingu í fjárl. í þeim tilgangi, meðan ekki er útséð um, hvort ríkissjóður getur staðið í skilum. Hæstv. fjmrh. vill telja þetta tekjufrv., en ég lít svo á, að það sé fyrst og fremst gjaldafrv. fyrir ríkissjóð, og það álit mitt byggi ég á því, að í núv. árferði þarf ekki að vænta tekjuskatts úr sveitunum. Þetta frv. virðist framkomið vegna þess og miðað við það, að skattanefndir í sveitum landsins ræki illa störf sín. En ég verð að segja, að ég er ekki þeirrar skoðunar, og ég er sannfærður um, að það þarf ekki að búast við auknum tekjuskatti úr sveitunum, þó að þetta frv. verði að lögum.