07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

55. mál, ríkisskattanefnd

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl]:

Ég þarf að svara hæstv. fjmrh. nokkrum orðum og hefði því gjarnan óskað, að hann gæti verið viðstaddur nokkur augnablik. (JBald: Þórólfur for að sækja hann). Það þýðir þó vonandi ekki það, að hæstv. fjmrh. sé kominn til annars og betra heims. — ég heyrði það á ræðu hæstv. fjmrh., að þessi nýja n., sem hann vill lögleiða, er honum kært barn. Ég skal ekki mikið við hann deila um ágæti hennar. Ég get viðurkennt, að nokkrar ástæður mæli með því, að hún verði til, en ég hefði þó talið rétt að hlífzt væri við skipun slíkrar n. nú, vegna kostnaðar, sem af henni hlýtur að leiða. Og það er einkennilegt að vilja stefna til aukinna útgjalda, þegar hagur ríkissjóðs er kominn á það hástig eymdarinnar, sem fjármálastjórn hv. 2. þm. Eyf. skildi við hann í. En ég skal þó ekki fast mjög um það, ef hæstv. fjmrh. stendur við það að leggja fram og fá úrskurðað á þinglegan hátt, hversu miklu fé megi verja til framkvæmdar laganna, og gerir það áður en frv. fær fullnaðarafgreiðslu í þinginu. Þegar menn sjá framan í hann kostnað, sem af þessu má leiða, þá geta menn metið það, hvort rétt sé kostnaðarins vegna að samþ. frv.

Ég held því fram, að ekki skorti vald til þess að úrskurða um þessi mál í fjmrn. Það er miklu fremur starfskraftaatriði þar. En um það hefir ráðh. óskorað vald.

Hæstv. fjmrh. fór að gera hæfileika skattstjórans að umtalsefni, án þess að tilefni væri gefið. Það er að vísu ekki nema gott, að hæstv. fjmrh. beri lof á sína embættismenn, en það getur líka orðið oflof, og þá einnig á skattstjórann. Ég er nú ekki nema einn af ákaflega mörgum gjaldendum þessa bæjar. En vegna orða hæstv. ráðh. finn ég mig knúðan til að segja frá því, að honum hefir ekki tekizt ennþá að reikna rétt út mínu tekju- og eignarskatt. Ég hefi næga þekkingu á tekju- og eignarskattslögunum til þess að sjá, þegar ranglega er á mig lagt. En ég get sagt það, að hann hefir verið lipur við að eiga og tekið til greina umkvartanir mínar, að einu smáatriði undanteknu, sem ég varð að leita til skattanefndar um og fékk líka leiðréttingu á því þar. Ég sé því ekki, að hann beri neitt af öðrum embættismönnum, Þótt hann kunni að vera góður. Ég held því, að hæstv. ráðh. hafi hlaðið á hann oflofi. Ég veit líka af fleirum tilfellum, sem líkt er ástatt um, þar sem orðið hefir að leiðrétta tekju- og eignarskattinn hjá þeim skattgjaldendum, sem færir hafa verið um að reikna út skattinn sjálfir. En það er vitanlegt, að allur þorri skattgjaldenda hefir ekki þá þekkingu á þessari löggjöf, að hann sé fær um að gera aths. og geta borið sig upp við skattstofuna, þótt ekki sé rétt upphæð sett á skrá. Ummælum hæstv. ráðh. um, að staðið verði gegn þessu frv. af því það sé tekjuaukafrv. þarf ég ekki að svara. Það hefir engum komið til hugar að standa gegn frv. af þeirri ástæðu.

Hv. frsm. meiri hl. var eitthvað órótt út af þessu. Þótt hann sé ekki vanur því að koma fram með ádeilur, sem er líka rétt fyrir hann, því hann er enginn maður til að standa í slíku, þá sagði hann samt nú, að mér væri sama, hvaða trassaskapur ætti sér stað um framkvæmd tekju- og eignarskattslaganna. Þessi lög hafa nú staðið síðan þau voru gefin, sem var á þingi 1921. Báðir höfum við verið ráðh. síðan og átt báðir að gæta þessara laga sérstaklega. Og báðir höfum við komizt af án nokkurrar ríkisskattanefndar.

Hann sagði, að framkvæmd skattalaganna úti um land væri verri en hér í Reykjavík. Ég ber ekki á móti því, að nokkuð sé hæft í þessu. En ég held því fram, að okkur beri nú að hlífast við þessum aukna kostnaði, sem af frv. mundi leiða, og framkvæma þetta á einfaldari og ódýrari hátt.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. nokkuð út af aðfinnslum mínum um ákvæði frv. um valdsvið n. En heldur var lítið á þeim ummælum að byggja. Hann vísaði til þess, að ríkisskattan. væri ekki ætlað meira vald en skattanefndum nú er ætlað, þegar gjaldþegn telur ekki fram. Þetta kann að vera rétt, en sá er þó alltaf munurinn, að ríkisskattanefnd er ætlað þetta vald, hvort sem gjaldþegn telur fram eða ekki telur fram, og að úrskurður hennar er fullnaðarúrskurður. Annars þarf ekki svo mjög um þetta að deila eftir að hæstv. fjmrh. hefir fallizt á, að rétt sé að setja nákvæmari ákvæði um starfssvið n. og vald en nú er í frv.

Þá sagði hv. þm., að sé hefði fundizt ég óvenjulega hátíðlegur, þegar ég minntist á það, að þingsköpum væri fylgt. Ég get vel skilið það, að þessum hv. þm., með fjármálaráðherrafortíð sína að baki, finnist það vera óþarflegur hátíðleiki hjá óbreyttum þingmönnum, að minna hv. þdm. á að hafa gat á, hvernig farið er með fé það, sem þinginu er trúað fyrir að ráðstafa. Hans fjármálaráðherramennska er sannarlega rödd hrópandans á eyðimörku um það, að eitt sinn var svo komið, að Alþingi réð engu um meðferð ríkisfjár, vegna þess að í ráðuneytinu sat fjmrh., er setti nafn sitt undir þær ávísanir, sem að honum voru réttar, án þess að gefa því nokkurn gaum, hvort heimilt væri að greiða þær eða ekki. Ég get því vel skilið það, að honum þyki það tilgerð, er þm. gerast til þess að minna á þá skyldu Alþingis að hafa gat á þessu efni. Honum þótti það broslegt, ef þessi deild óskaði að vísa fjárhagsatriði frv. til fjvn., og það þrátt fyrir það, þótt þetta frv. standi þó mörgum öðrum framar að því leyti, að í því er gert ráð fyrir, að kostnaður af því komi í fjárlög. Mér finnst þetta ekki broslegt, en hitt finnst mér sorglegt, að hér er nú búið að stýra svo fjármálum ríkisins í eindæma góðæri með óvenjulegum tekjum, að liggur við gjaldþroti, eingöngu fyrir það, að Alþingi hefir ekki nógu röggsamlega haldið í hemilinn á stjórn, sem óvenjulegar tilhneigingar hafði í þá átt að gæta þess að engu, hvort heimild væri til fjárgreiðslna eða ekki.