07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

55. mál, ríkisskattanefnd

Jón Baldvinsson:

Það eru nú 10 ár liðin síðan skattalögin voru sett, og frá upphafi hefir verið gert ráð fyrir ríkisskattanefnd. Sannast að segja hefir það dregizt nokkuð lengi að setja slíka nefnd.

Það hefir verið talið réttilega, að tekjuauki mundi verða að þessu frv., en auk þess mundi skatturinn koma réttlátar niður. Það er alkunnugt, að framtöl manna í Reykjavík eru vandaðri en annarsstaðar af landinu. Ég á með þessu ekki sérstaklega við bændur, því að það er alkunnugt, að þar er ekki af miklu að taka En það er margvíslegur annar atvinnurekstur utan Reykjavíkur, sem sorglega lítið eftirlit hefir verið haft með að því er til tekjuframtals tekur.

Ég álít, að slík n. verði þörf stofnun. Mér skilst, að það sé ekki mikill ágreiningur um það. Því er játað af hv. frsm. minni hl., að fjmrn. hafi nú vald til að framkvæma það, sem þetta frv. ætlar n. Ég held nú, að ráðuneytið hafi a. m. k. ekki eins ákveðið vald og frv. ætlar n., og einkum hygg ég þó, að eftirlitið yrði slælegar framkvæmt, ef það yrði falið einhverjum starfsmanni ráðuneytisins, sem rækti það sem aukastarf. Auk þess finnst mér það rétt hjá stj. að fara ekki að fjölga hjá sér starfsmönnum vegna þessa, heldur leita lagaheimildar.

Ég mun því greiða frv. þessu atkv. Ég álít það muni verða til bóta og til þess að skattalögin veði jafnar og réttlátar framkvæmd. Mér þykir það hafa dregizt fulllengi að koma þessu í framkvæmd. Þar sem saman fer réttlætismál og tekjuauki fyrir ríkissjóð, þá er ekki áhorfsmál að láta það ganga fram.