07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

55. mál, ríkisskattanefnd

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Það, sem ég þykktist við, voru ekki hin ómerkilegu og lítilsvirðandi ummæli hv. frsm. meiri. hl. viðvíkjandi sjálfsagði framkvæmd Alþingis á skyldugu eftirliti með útgjöldum ríkisins, né heldur hin meinlausu ummæli hæstv. fjmrh. um skattstjórann. En það voru þau ummæli hv. frsm. meiri hl., að mér stæði á sama, hvaða trassaskapur ríkti á þessu sviði. Ég verð að segja það í fullri hreinskilni, að ég þori að leggja undir dóm allra óhlutdrægra manna afrek okkar beggja á sviði fjármálastjórnarinnar, og það mun enginn geta talið hann hafa rétt á að bera á mig trassaskap. Það mun hann skilja einhverntíma, þegar hann fær séð það, að hann hefir verið verkfæri í höndum sér verri manna til að gereyðileggja það starf, sem ég taldi aðalárangur fjármálastjórnar minnar, nefnilega viðreisn fjárhagsins. Mér getur runnið í skap við að hugsa um það út af fyrir sig, þótt það sé ekki æst upp með órökstuddum svigurmælum í minn garð.

Ég veit ekki, hvað hv. þm. átti við, þegar hann gat um, að ég hefði gleymt að ávísa einhverjum upphæðum úr ríkissjóði og hann svo orðið að gera það. Þetta gæti verið skiljanlegt, ef hann hefði tekið við ráðherraembætti eftir mig, en svo var nú ekki. Annar maður, sem nú er latinn, gegndi því embætti þar á milli, og hefði mér þótt líklegt, að það hefði orðið hans hlutskipti að bæta úr þeirri gleymsku, en ekki þessa hv. þm., er tók við embættinu löngu síðar. — Ef síðustu orð hv. þm. hafa átt að skiljast svo, að ég hafi vanrækt embætti mitt vegna skemmtibókalestrar, þá verð ég að segja það, að slík ummæli eru honum illa sæmandi. Sjálfur hefir hann átt aðgang til að bera saman mín handaverk þar við starf fyrirrennara minna og eftirmanns, og hefði því getað fundið, að ekki lá þar minna starf eftir mig en nokkurn þeirra.