15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

169. mál, verksmiðja til bræðslu síldar

Pétur Ottesen:

Ég hreyfði því við 1. umr. þessa máls, að á fiskiþinginu í vetur hefðu komið fram tilmæli um, að fiskifélagsstj. fengi rétt til þess að skipa einn mann í stj. síldarbræðsluverksmiðjunnar. Ég skaut því þá til hv. sjútvn., að hún athugaði þetta og tæki þá til greina tilmæli fiskiþingsins að því leyti, sem hún sæi sér það fært. Nú þætti mér vænt um, ef þetta hefir verið rætt í hv. sjútvn., að heyra ástæður n. fyrir því, að hún hefir ekki viljað verða við þessum tilmælum. Þessi tilmæli eða áskorun fiskiþingsins er að finna í erindum þeim, sem það hefir sent Alþingi, og geri ég ráð fyrir, að hv. sjútvn. hafi kynnt sér þau. Fiskifélag Íslands ber að sjálfsögðu að skoða sem fulltrúa sjávarútvegsins, og því sanngjarnt og réttmætt, að það fái þennan rétt.