14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

27. mál, forkaupréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Sveinn Ólafsson:

Ég hygg, að þessi uppvakningur sé hér í fimmta eða sjötta sinn á ferðinni, og hefir ætíð farið um hann á einn veg. Mig furðar mjög á því, ef frv. á nú að ganga gegnum deildina umræðulaust, eftir þeirri meðferð, sem það hefir áður sætt. Mér þykir það furðulegt, ef þeir, sem einkanlega hafa á móti frv. staðið á undanförnum þingum, og þá sérstaklega þeir tveir menn í allshn., sem ekki hafa undirskrifað nál. á þskj. 211, koma nú ekki fram með nein mótmæli gegn því. Ég fyrir mitt leyti verð að ganga á móti þessu máli, eins og ég hefi áður gert. Ég tel það hreint og beint vansæmd fyrir Alþingi, ef frv. er samþ. Ef svo væri ástatt sem hv. 2. þm. Rang. hélt fram, að hér væri um mikla nauðsyn að ræða fyrir kaupstaðina og hreppsfélög að ná umráðum yfir löndum, 16ðum, hafnarmannvirkjum og þessháttar, þá er vissulega til opin leið að því, sem alþekkt er og oft hefir verið farin áður, og það er að fá eignarnámsheimild hjá Alþingi í hvert skipti. Ég held ég muni það rétt, að nú liggi fyrir þinginu tvo frv. um slíka heimild fyrir sveitarfélög vestur á landi. Þetta er sú leið, sem þráfaldlega hefir verið farin, og hana tel ég þá einu eðlilegu og réttu aðferð, þegar þörf er á slíkum aðgerðum. Vilji menn hinsvegar vinna að því að koma á „kommúnistisku“ ástandi í bæjunum við sjóinn, þá vil ég þvo hendur mínar af því verki og mun aldrei leggja því lið. En það er áreiðanlega spor í þá att að samþ. þetta frv. og gefa þannig sveitarfélögum og bæjarfélögum færi á að sölsa undir sig mannvirki, lóðir og lendur í nágrenni sínu.

Þar fyrir utan verð ég að segja það, að mér virðist þetta vera tvísýn gróðaaðferð fyrir bæina. Það má ganga hér um bil að því vísu, að „spekúlantar“, sem þetta vilja nota sér, mundu reyna að hækka sem mest verð eignanna með tylliboðum, þegar þeir vissu, að hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfélög væru búin að samþ. að nota forkaupsréttinn. Bæjar-og hreppsfélögin þyrftu því sennilega að kaupa eignirnar fyrir miklu hærra verð heldur en þau hefðu getað fengið þær fyrir á frjálsum markaði. Hefðu þau þá ekki annað upp úr þessari lagasetningu en óeðlilega verðhækkun á þeim eignum, sem þau kynnu að hafa þörf á að ná umráðum yfir.