14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

27. mál, forkaupréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Jón Ólafsson:

Það er eins og hv. 1. þm. S.-M. tók fram, að þetta frv. hefir verið borið fram á allmörgum undanförnum þingum. Frá upphafi mun það vera sprottið af skilningsleysi þeirra manna, sem borið hafa það fram og bera það fram enn, eða þá af megnasta viljaleysi á að skilja nokkurn skapaðan hlut, hvað hér er um að ræða. Það gengur nokkuð langt, þegar svo er komið, að menn vilja ekki skilja þær ástæður, sem mæla móti frv. og gera jafnvel hættulegt að samþ. það. En það mun óhætt að segja um tvo af hv. meðnm. mínum í allshn., hv. þm. Barð. og hv. 2. þm. Rang., sem leggja til, að frv. verði samþ., að það lítur út fyrir, að þeir beri ekki minnsta skyn á þetta mál, en af því frv. virðist vera í þjóðnýtingaráttina, í áttina til þess skipulags, sem barizt er fyrir í þeim herbúðum, sem þessir hv. þm. átti áður heima í, þá finnst þeim sjálfsagt að mæla með því.

Hv. 1. þm. S.-M. hefir tekið af mér ómakið að lýsa því, hvað af því mundi leiða að samþ. þetta frv., hvers vegna sá réttur, sem með því á að veita hreppsfélögum og bæjarfélögum, mundi ekki verða þeim til neinna nytja.

það er vitanlegt, og kemur heim við mína margra ára reynslu hér í bæ, að þegar um slík forréttindi er að ræða eins og forkaupsrétt, þá kemst spákaupmennskan þar að, og viðkomandi eign fer að ganga kaupum og sölum fyrir hækkað verð, þegar álitið er, að hún verði á sínum tíma tekin fyrir „fullar bætur“ eða „sannvirði“ því fullar bætur er ekki hægt að miða við annað en hvað boðið er fyrir eignina af öðrum. Með þessu er því lagður grundvöllur að því, að einföld bæjarstjórnarsamþykkt geti gert það að verkum, að eigendum eignanna, sem taka á, eða þeir, sem með spákaupmennsku ætla sér að græða á þeim, geti fengið meira fyrir þær en ef þær væru teknar eignarnámi með sérstakri heimild þingsins eftir mati. Ég tala nú ekki um, þar sem ákveða á það fimm árum fyrirfram, hvaða eignir á að taka; þá þarf ekki að segja neinum, sem nokkuð þekkir inn í viðskipti, að spákaupmennskan komist ekki undir eins að, þegar ákveðið hefir verið að nota forkaupsréttinn að 5 árum liðnum. Þetta hljóta allir að sjá, sem vilja sjá. En fyrir mér er þetta orðin reynsla. Er ég ekki hissa á því, að menn, sem ekki hafa verið viðriðnir stjórn bæjarmála, þekki þetta ekki út í æsar, en ætla mætti, að þeir leituðu sér upplýsinga, sem myndu sannfæra þá um, að það gæti verið háskalegt, ef einfaldur meiri hl. bæjarstj. ætti að geta samþ. slíka hluti án þess að nauðsyn beri til þess, að bæjarstj. skipti sér af því. Það er nú búið að ræða málið mikið hér í d., og hefir engin breyt. á því orðið síðan á síðasta þingi, er frv. var fellt. Má ætla, að hv. þdm. séu það skynugir, að þeir ljái ekki fylgi sitt til þess að þetta komist í gegn. sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum hér um að þessu sinni, því að ég álít, að hv. þdm. þurfi ekki frekari skýringar á málinu en þeir hafa fengið á undanförnum þingum.