05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, fjárlög 1933

Pétur Magnússon:

ég vona, að ekki verði hægt að segja um mig með réttu, að ég hafi með till. mínum í þessu máli stofnað ríkissjóði í stórhættu. Ég flyt að vísu eina brtt., en þar er aðeins farið fram á að auka útgjöld ríkissjóðs um 250 kr. Ég hefi leyft mér að leggja til, að Guðjóni Kjartanssyni pósti verði veitt þessi upphæð sem ellistyrkur.

Þessi maður hefir verið póstur í meira en 20 ár. Ég ætla, að hann hafi fyrstu árin annazt póstflutninga milli Borgarness og Stykkishólms. Síðar var hann aukapóstur úr Borgarnesi um Reykholtsdal, Hálsasveit og Hvítársíðu. Þetta er mjög erfið leið og löng. Mun hún vera milli 60 og 70 km. aðra leiðina, svo að í hverri ferð hefir þessi póstur farið um 130 km.

Það atvikaðist svo rétt áður en Guðjón ætlaði að láta af póstferðum, að hestur datt með hann í póstferð, og við þá byltu slasaðist Guðjón svo, að hann hefir orðið að liggja rúmfastur síðan. Nú er hann kominn undir sjötugt og er bláfátækur. mér virðist því, að eftir þeim reglum, sem fylgt hefir verið um styrk handa heim mönnum, sem þennan starfa hafa haft, sé ósanngjarnt að setja þennan mann hjá, ekki sízt vegna þess slyss, sem hann varð fyrir beinlínis vegna starfs síns.

Ég hefi ekki þorað að nefna hærri upphæð en 250 kr. Það mun hafa verið venja að láta þá menn sem farið hafa aðalpóstferðir, fá 300 kr. styrk. Þetta, sem hér er farið fram á, er ekki stór upphæð, en hún ætti samt að geta orðið til þess, að Guðjón gæti bjargazt á eigin spýtur. Vona ég því, að hv. þdm. líti með velþóknun á þessa litlu fjárveitingu.