14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

27. mál, forkaupréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Jón Ólafsson:

Mér þótti óþarfi af hv. samþm. mínum að vera að rifja þetta upp, því að þegar við áttum tal um það á kosningafundi fyrir austan og hann atti að svara fyrir það, hvort hann ætti ekki sitt andlega óðal þar, sem kommúnisminn væri, þá andmælti hann aldrei einu orði og kom upp hlátur mikill. þykir mér líklegt, ef hv. þm. er fæddur með því hugarfari, að þá muni lengi loða við hann það uppeldi, sem hann hefir fengið í þessu á unga aldri. Vil ég ekki hallmæla honum fyrir uppeldi það, sem hann hefir fengið, en að skammast sín fyrir uppeldi sitt ætti enginn að gera, og hann ekki heldur.

Hv. þm. misskildi það, sem við hv. 1. þm. S.-M. sögðum. Það er fullt samræmi í því, að verðlag hækki og að kommúnistiskur hugsunarháttur sé raðandi. Hafi hann veitt kenningunni athygli, þá mun hann hafa seð, að það er stefnuskrá hennar að komast yfir eignir með einhverjum hætti. Hefir borið minna á því, að reynt væri að fá hlutina fyrir hið lægsta verð, sem hægt var að komast að, heldur hefir verið reynt að leggja það á hið breiða bak hins opinbera. Þetta fer alstaðar saman. Er ekkert hugsað um það, á hvern hátt skuli eignast hlutina, heldur að eignast þá fyrir hvaða verð sem er, því að hið opinbera ber kostnaðinn.

Sé ég svo ekki ástæðu til að tala meira um þetta hér í deild, nema hv. þm. meiri hl. vilji ekki taka það til íhugunar, þvílíka ógæfu þeir eru að leiða yfir þau bæjarfélög, sem eru svo óhamingjusöm, að meiri hl. þar hafi þá skoðun, sem svo áþreifanlega er inngróin í huga meiri hl. í allshn.