04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

1. mál, fjárlög 1933

Ólafur Thors:

mér er ætlað að tala hér í hálfa klukkustund. Ef ég ætti að halda líkræðu yfir ríkisstjórninni og þyrfti eftir gamalli ísl. venju að tína til allt hugsanlegt lof um hana, satt og logið, væri ég því fegnastur, að mér yrði fremur skömmtuð hálf stund en heil. En að halda dómsdag yfir stj. og stefna henni til reikningsskila fyrir allt syndaregistrið. Það gerir enginn maður, hvorki á hálfri stund né á hálfum degi. Sumpart af þessu, en einkum þó vegna hins ískyggilega útlits, ætla ég að tala um stærstu málin: Fjármálin og atvinnumálin.

Þo get ég ekki stillt mig um að drepa á hvernig hæstv. dómsmrh. svarar fyrir sig. Hv. 2. þm. Skagf. gaf ýtarlega skýrslu um fjárhag ríkissjóðs og sýndi fram á, hversu hrapallega stj. hefir farið með fjármuni ríkisins. Til andsvara segir svo hæstv. dómsmrh.:

H/f Andvari er gjaldþrota, þar með er sannað, að fjárhagur ríkissjóðs er góður og stj. vitalaus. Eða: Andvari og Copland eru gjaldþrota, þar af leiðir, að eðlilegt er og sjálfsagt, að ríkissjóður sé líka gjaldþrota.

Ræða hæstv. dómsmrh. minnir á gamla sögu. Maður kom að heyrnarlausum manni, sem var að smiða axarsköft. Góðan daginn, sagði komumaður. Axarskaft, svaraði sá heyrnarlausi.

Annars gefur svar hæstv. dómsmrh. tilefni til að endurtaka það, sem hv. 1. landsk. nýlega sagði um hann, en það var á þá leið, að hæstv. dómsmrh. gerði þá siðferðiskröfu til sjálfs sín, að vera alltaf skor lægra en sá versti.

Hv. 2. þm. Skagf. hefir nú gert ýtarlega grein fyrir fjárhag ríkissjóðs. Ég læt því nægja að stikla á stóru í þeim efnum og minni aðeins á örfáar tölur.

Þegar hinni fyrri fjármálastj. Framsóknarfl. lauk í ársbyrjun 1924, voru skuldir ríkissjóðs orðnar 18,1 millj. kr. Í fjármálaráðherratíð Jóns Þorlákssonar minnkuðu þær um 6,7 millj. kr., eða ofan í 11,3 millj. Samtímis óx sjóðseign ríkissjóðs um 1,7 millj. Fjárhagur ríkissjóðs batnaði þannig á þessum árum um 8,4 millj. Þetta kom m. a. fram í því, að vextir af ríkisskuldunum, sem 1924 voru 1239 þús. kr., voru 1927 komnir ofan , í 701 þús. kr.

Þjóðin er nú orðin sammála um, að fjármálastjórn Jóns Þorlákssonar hafi verið með afbrigðum góð, en fyrir kosningarnar 1927, þær kosningar, sem lyftu núv. stj. í valdasess, kvað við annan tón. Þá sagði hæstv. forsrh., sem þá var ritstjóri Tímans, í blaði sínu:

„Svo djúpt hefir aldrei sokkið í skuldafenið. Annaðhvort er nú að játa staðar numið og hætta að safna skuldum, eða þá að vonlaust eða vonlítið má kalla að standa við að borga skuldirnar“.

Og þá sagði hæstv. dómsmrh. í sama blaði:

„Hve lengi á að taka lán á lán ofan? Og hvenær verður þjóðin búin að borga þessi lán? Og hvað verður um frelsi og fullveldi þeirrar þjóðar, sem erlendir lánardrottnar geta hneppt í varanlega fjárhagsfjötra“. (Tíminn, 17. febr. 1927). Og ennfremur:

„Mönnum finnst mikið, að með hinum gífurlegu sköttum er búið að endurborga liðugar 10 millj. kr. af skuldunum“.

Svona var dómur núv. stj. um fyrirrennara sína. Þeir skopuðust að því, að fjárhagur ríkissjóðs hafði batnað um 8,4 millj., sem þeir í einfeldni sinni töldu 10 millj. Og skuldirnar, 11 millj., blæddu þeim í augum. Sjálfir lofuðu þeir að stýra úr voðanum, eins og sjá má af þessum orðum hæstv. dómsmrh í 25. tbl. Tímans 1927:

„Hvenær sem á reynir, mun Framsókn grípa stór og lítil tækifæri til þess að gera íslenzku þjóðina óháða öllu erlendu valdi. Um stund varða mestu atókin í fjármálaefnum. Framsókn verst skuldum og veit, að skuldirnar við útlönd eru þrælsband á landið og þjóðina“.

Þjóðin festi trúnað á hinn þunga áfellisdóm um fyrrv. stj. og hin gullnu loforð andstæðinganna, og Tímáliðið settist í öndvegi eftir kosningarnar 1927. mennirnir, sem skopuðust að því, að fjárhagur ríkisins batnaði um 8,4 millj. þau 31/2 árin, sem Jón Þorláksson fór með fjármálin, hafa sýnilega ætlað sér að gera betur og verða stórvirkari í skuldagreiðslunum. A. m. k. brugðust þeir því loforði, sem þeir þó gáfu í kosningunum, að létta af sköttum, og lögðu í þess stað nýja skatta á þjóðina, sem reynzt hafa milli Í og 2 millj. kr. á ári eftir árferðinu.

það liggja nú fyrir opinberar skýrslur um fjármálaefndir ríkisstj. Á fjórum árum, árunum 1928–'31, að báðum meðtöldum, urðu tekjur ríkissjóðs um 621/2 millj. kr., eða milli 16 og 17 millj. umfram áætlun. Fjögra ára ríkistekjur í tíð fyrrv. stj. urðu 53,4 millj. Af þeirri upphæð varði sú stj. 8,4 millj. kr. til þess að greiða skuldir og auka sjóðseign ríkissjóðs. 1927 þótti núv. stj. Það illa og slælega að verið. Hvað hefir hún þá sjálf gert?

Fjögra ára tekjurnar hafa orðið tæpl. 9 millj. kr. meiri en í tíð fyrrv. stj. Fyrrv. stj. gat greitt 8,4 millj. kr. af skuldunum. Með samskonar verklegum framkvæmdum og voru hér á landi 1924–1927 hefði því ríkisstj. átt að geta greitt skuldir og aukið sjóðseign ríkissjóðs um nær 21 millj. kr., og er þá tekið tillit til minnkandi vaxtabyrði ríkissjóðs. Með þessu hefði stj. Þó ekki komizt lengra en að jafnast á við þann, sem hún skoþaðist mest að 1927 fyrir að hafa ekki greitt meira en 8,4 millj. kr.

Nú en hvað hefir nú stj. gert?

Hún hefir ekki greitt 21 millj. kr. Hún hefir enga millj. greitt. Hún hefir enga krónu greitt. Hún hefir ekki staðið í stað. Hún hefir safnað skuldum, háum skuldum, milljónum, tug miljóna, já, og hálfum betur.

Í stað þess að bæta fjárhag ríkissjóðs um 21 millj. kr., en það hefði verið samsvarandi fjármálastjórn Jóns Þorlákssonar, hefir Framsóknarstj. aukið skuldirnar um nær 14 milljónir. Mismunurinn er 35 millj. kr. Með þeirri fjárfúlgu gæti forsætisráðh. gullhúðað brynju á hvern einasta bónda í liði sínu.

Ég leiði hjá mér að tala um, hvernig þessu fé hefir verið varið. Það hefir hv. 2. þm. Skagf. gert. Mörgu hefir verið illa varið, og fjármálastjórnin hefir verið í mesta máta óviturleg og gálausleg.

Framsókn sá rétt 1927, að „skuldirnar við útlönd eru þrælsband á landið og þjóðina“. Góðærið gaf stj. allra ákjósanlegustu aðstöðu til þess að stýra hjá þessari hættu. En svo gersamlega hefir stj. haft að engu hinn réttmæta kvíðboga fyrir erl. skuldum, að satt að segja er svo komið, að menn veigra sér við að horfast í augu við staðreyndir og gera sér ljóst, hverjar afleiðingar þessi ráðsmennska getur haft.

1924 lagði þáv. stj. nýjar, hungar skattabyrðar á þjóðina. Þessir nýju skattar og góðærið 1924 og 1925 fleytti fenu í stríðum straumum í ríkissjóðinn, langt umfram vonir bjartsýnustu stjórnmálamanna. En ríkisstj. stóðst freistinguna, stillti eyðslunni í hóf og varði hinum nýju skatttekjum og hinum óvæntu umframtekjum að langmestu leyti til þess að grynna á skuldum ríkisins og auka sjóðseign ríkissjóðs. Og þegar í stað, er fært þótti, var svo þessum nýju sköttum létt af þjóðinni með afnámi tollalaganna á Alþingi 1926.

1928 lagði Framsóknarstj. af nýju þungar klyfjar á skattpegnana, með því að lögfesta nær alla sömu tekjustofna, sem gilt höfðu 1924 og 1925. Síðan hefir verið að því leyti samfellt óslitið góðæri fyrir ríkissjóðinn, að aldrei fyrr hafa tekjur hans orðið svipað eins miklar. En nú hafa skuldirnar ekki verið minnkaðar og sköttunum hefir ekki verið létt af þjóðinni, þvert á móti. Skuldirnar hafa verið auknar svo mikið, að þess eru áður engin dæmi. Engum skatti hefir verið af létt, og það sem verra er, — í stað þess að létta drápsklyfjarnar á sliguðum atvinnurekstri landsmanna krefst nú ríkisstj. nýrra skatta, a. m. k. 1–11/2 millj. á ári, úr tómum fjárhirzlum þrautpíndra skattborgara.

Þetta er bjargráðið, sem stj. sér við kreppunni, — þetta er það einasta lið, sem hátekjuríkisstjórnin getur lagt atvinnulífi landsmanna í þessum eindaema þrengingum.

Það er hæstv. fjármálaráðh., sem ber fram þessa kröfu. Mér þykir sanngjarnt að taka það fram, að fyrir hann er úr vöndu að ráða. Hann ber að vísu ábyrgð á gerðum fyrirrennara sinna með því að hafa stutt Framsóknarstj. frá öndverðu, en mér vitanlega heldur ekki þar fram yfir. Hann hefir setzt í gjaldþrota bú. þurfandi ríkissjóður kallar til hans. En fjármuni ríkissjóðs, kornhlöður góðæranna, finnur hann eigi. Það er heldur ekki von, því að allt er sokkið og er á kafi í skuldafeninu.

Hæstv. fjmrh. hefir sýnt viðleitni í rétta átt með því að gera tillögur um lækkun útgjalda. En að minni hyggju hefir hann gengið of skammt — allt of skammt. Ég veit vel, að róttækur niðurskurður er ekki vandkvæða- né sársaukalaus. En hitt veit ég líka jafnvel, að jöfnuður á fjárlögum verður fyrst og fremst að nást með niðurfærslu á útgjöldum ríkisins, blátt áfram af yi, að þjóðin er svo illa fær um að taka á sig nýjar skattabyrðar. Og það er á vitund allra hv. deildarmanna, að atvinnulíf landsmanna er orðið svo lamað, að það verður engin frambærileg ástæða færð til afsökunar því, að Alþingi létti ekki sköttum af þjóðinni, önnur en sú, að ríkissjóður er sjálfur, eftir 4 ára samfelldar hátekjur, orðinn aumastur af öllum aumum, svo vesall, að í stað þess að létta undir með atvinnurekstrinum, meðan kreppan er sem hörðust, verður hann að lifa á því að mergsjúga landsmenn, meðan ennþá er einhversstaðar itthvað að hafa.

Ég ætla þá að víkja að því, sem mestu máli skiptir: Atvinnulífi þjóðarinnar. Og kem ég þá fyrst að sjávarútveginum.

Meðan Íslendingar höfðu eigi kynnzt annari fullkomnari framleiðsluaðferð en handfæraveiðum á þilskipum, voru aðdrættirnir að þjóðarbúinu smáir. Á þeim árum hafði þjóðin ekki úr miklu að moða, enda var allt hér smávaxið. Eftir síðustu aldamót byrja Íslendingar að taka vélaflið í þjónustu framleiðslunnar. Þá komu vélbátarnir og togararnir til sögunnar. Með því, og þó einkum og sérstaklega með komu fyrsta íslenzka togarans, gerbreytist allt íslenzkt atvinnulif. — Þessi nýi sjávarútvegur tekur fljótum og öruggum þroska og skapar jafnframt út frá sér gróður og vöxt á öllum sviðum í þjóðfélaginu. Breytingarnar eru svo snöggar, að engu er líkara en að þjóðin hafi verið snortin einhverjum töfrasprota. Höfuðstaður landsins, sem verið hafði smákauptún, verður að stórum bæ. Ágæt höfn, vatnsveita, rafmagn, gas, þéttriðið gatnanet — allt gerist í senn, og samtímis þenja nýjar húsabreiður sig yfir stóra landfláka. Allt er þetta gert fyrir þá fjármuni, sem togararnir sóttu í regindjúp Ægis. — Frá höfuðstaðnum breiðist gróðurinn til annara kaupstaða og út um allar byggðir landsins, svo að hroun atvinnulífsins er svo ör, að síðustu 25 árin byggja menn og rækta meira en fyrri kynslóðir höfðu gert í meira en 10 aldir. Á þessum árum margfaldast þjóðarauðurinn og eins og venja er til, fylgir tilsvarandi vöxtur í andlegu lifi og menningu þjóðarinnar.

Það eru sannmæli um sjávarútveginn, að frá honum hefir hinn frjóvgandi máttur runnið, en hitt er líka satt, að fyrir sívaxandi kröfur, skilningsskort og úlfúð er þessi stórvirkasti atvinnurekstur landsmanna nú mergsoginn og máttvana. Ríkið, sveitarsjóðir og verkalýðurinn — allir þessir aðiljar hafa spennt bogann of hátt.

Ríkið tekur toll af öllum notaþörfum útgerðarinnar, smáum sem stórum, og sjálf framleiðsluvaran er skattlögð með útflutningstolli, sem nemur frá 15/8–5%, að ógleymdri síldinni, sem ríkið hefir stundum tekið allt að því eins mikið í toll af og framleiðandinn hefir fengið í sinn hlut. Engir keppinautar okkar hafa svipað því eins erfiða aðstöðu, og sumir þeirra njóta tollfrelsis á notaþörfunum og hárra verðlauna á framleiðsluvörunni, allt að 50 kr. á skpd.

Sveitarsjóðirnir hafa ekki látið sitt eftir liggja. Hér í Rvík hefir sá andi aðallega lýst sér í niðurjöfnun útsvara á síðari árum. Hefir þar um ráðið fremur illgirni en skilningsskortur. Sem dæmi skal ég nefna, að útgerðarfélag eitt hér í bæ, sem síðustu 2 árin hefir taþað milli 6 og 7 hundr. þús. kr., að meðtöldum fyrningum, hefir þessi ár greitt í útsvar 217 þús. kr., þar af milli 170–180 þús. kr. í Reykjavík. Félag þetta kærði fyrir niðurjöfnunarnefnd, yfirskattanefnd og atvinnumálaráðherra, og bar sig saman við Tóbaksverzlun Íslands, er grætt hafði annað árið um 60 þús. kr., en ekki goldið í útsvar nema um 30 þús. kr. Krafðist félagið þeirri spurningu svarað, hvort fyrr bæri að láta til opinberra þarfa gróða þess verzlunarfyrirtækis, sem eingöngu verzlaði með munaðarvörur, eða eignir þess framleiðslufyrirtækis, sem þegar hefði beðið stórfellt tjón af atvinnarekstri sínum.

Félagið fékk enga leiðréttingu mála sinna, og ekki þótti heldur ástæða til að hækka útsvar Tóbaksverzlunarinnar. –Forstjóri hennar var einn þeirra þriggja niðurjöfnunarnefndarmanna, sem útsvörunum réði. Þetta er eitt af mörgum dæmum það, hversu níðzt er á útveginum.

Þá er það og orðið lýðum ljóst, að útgerðinni hefir, því miður, reynzt um megn að rísa undir hinu háa kaupgjaldi, sem sí og æ hefir farið stórhækkandi í hlutfalli við verðlag framleiðsluvörunnar. Fáar tölur skýra þessa staðreynd betur en mörg orð.

1914 var hægt með andvirði eins skpd. fiskjar að greiða verkamanni kaupgjald fyrir 266 stunda vinnu og hásetanum fastakaup í nær 39 daga. Nú hrekkur andvirði skpd. ekki lengur til að greiða 266 stunda vinnu, heldur aðeins 44 stunda, og ekki til að greiða 39 daga fastakaup, heldur aðeins 8 daga kaup.

Það skal að vísu játað, að með vaxandi þekkingu og auknum dugnaði sjómannastéttarinnar hafa afköstin stórvaxið frá því 1914, en þó hvergi nærri til jafnvægis við hlutfallsröskun milli kaupgjalds og andvirðis afrakstrar.

Það er þá líka orðið flestum ljóst, að slíkt áframhald stefnir til glötunar. Nær helmingur togaraflotans er þegar orðinn gjaldþrota, en flestir hinir standa höllum fæti. Og bátaútvegurinn er lítið betur kominn. Ég fer ekki með öfgar, þegar ég segi, að verði atvinnuárferðið svipað í ár og í fyrra, veit ég fáa atvinnurekendur til sjávar, sem munu eiga fyrir skuldunum um næstu áramót. þessi þjóðarvoði er að því leyti sjálfskaparvíti, að þjóðin hefir ekki fengið sig til að laga sig eftir kringumstæðunum. En vitaskuld getur slíkt athæfi eigi farið fram nema um stundarsakir, meðan verið er að jeta upp eignir og janstraust. Eftir það mun neyðin leggja ráðin á fyrir okkur.

Ég hefi orðið var við, að greindir menn í þýðingarmiklum stöðum í þjóðfélaginu liggja togaraútgerðarmönnum á hálsi fyrir að hafa hafið vertíðarveiðar án kaupgjaldsbreytingar, og telja þetta nokkurn vott þess, að útgerðin standi betur en af er látið. Í öllu venjulegu árferði eru veiðar arðbærari á tímabilinu frá 20. marz til 30. apríl en um annan tíma árs. Í ár er að vísu vonlítið um afkomu af rekstrinum þennan bezta tíma ársins. Útgerðarmenn reyndu því að ná samningum um kaupniðurfærslu. Það tókst ekki. Þá var óreynd sú leiðin að hefja baráttu um kaupgjaldið. Útgerðarmenn voru sammála um, að sú barátta leiddi að markinu: niðurfærslu kaupgjaldsins.

Það var þess vegna alveg vandalaust fyrir þá að ákvarða sig í þessu máli, ef þeir hefðu eingöngu haft sína eigin hagsmuni fyrir augum. Þeir hefðu þá lagt skipunum í naust og beðið rólegir kauplækkunarinnar. Sá bardagi var útgerðarmönnum með öllu útgjaldalaus, því þeir gerðu sér enga arðsvon af rekstrinum. En baráttan hefði fært hungur og hörmungar yfir verkalýðinn, og því verði vildu útgerðarmenn ekki kaupa sigurinn. Í slíku atvinnuleysi er von, að fámennur hópur útgerðarmanna veigri sér við að taka ákvörðun um atvinnustöðvun, sem sviptir verkalýðinn til lands og sjávar a. m. k. 4–5 millj. kr. atvinnu, og það jafnvel þótt útgerðarmenn þykist sja fram á, að þessi viðleitni séu síðustu fjörbrot togaraútvegsins. Hitt er svo óumflýjanleg afleiðing af kauphæðinni, að atvinna verður miklu minni en orðið hefði, ef samizt hefði um sanngjarna niðurfærslu á kaupgjaldinu. Hið hlutfallslega háa kaupgjald gerir nefnilega hvorttveggja í senn að sliga atvinnurekendur og rýra afkomu verkalýðsins vegna aukins atvinnuleysis.

Ég hefi álitið rétt að gefa þessar upplýsingar mönnum til leiðbeiningar.

Ég vil svo ekki skiljast við sjávarútveginn án þess ég minni á, að frá því hann náði hamarki á árunum 1920–1925, hefir honum farið stdrhnignandi. Vaxandi kröfur ríkis, bæjar og einstaklinga valda því, að nú um hríð hefir enginn maður fengizt til að leggja fé í þann atvinnurekstur, og hin eldri útgerð hefir í góðu árferði orðið að skila ríkis- og sveitarsjóðum öllum eða nær öllum ágóðanum, en gjalda tekjuhalla tapæris úr varasjóði sínum eða hlutafé, og þegar af þeirri ástæðu ekki öðlazt nauðsynlega aðstöðu til að endurnýja skipastólinn. Ég hygg, að þessi hnignun útvegsins komi hvergi skýrara í ljós en í togaraútgerðinni.

Í stað eðlilegrar þróunar lýsir hnignunin sér í því, að togurunum er þegar farið að fækka hér. Voru 41; eru nú 38. Hitt er þó enn verra, að skipin eru nær öll orðin gömul. Meðalaldur þeirra er 111/2 ár. Hér áður fyrr, meðan útgerðin var nokkurs megnug, vildi enginn íslenzkur útgerðarmaður eiga svo gamalt skip, vegna þess hve viðhaldið væri dýrt. Nú verður það hlutskipti okkar að tjalda, því, sem til er, enn um nokkur ár. En það er kvíðvænleg tilhugsun, að innan fárra ára er íslenzki togaraflotinn nær eintómir ósjófærir ryðhólkar, án þess nokkrar líkur bendi til, að nokkuð komi í staðinn, nema því aðeins, að algerð stefnubreyting verði á og allir sameinist um að hlynna að þessum atvinnurekstri, í stað þess að níða hann á alla vegu. Ef svo yrði, er líklegt, að enn mætti fá sparifjáreigendur til að leggja fé sitt í ný skip. Ella fellur niður sá atvinnurekstur, sem brauðfætt hefir a. m. k. tvo tugi þúsunda af landsmönnum og framleitt 1/3–2/5 af íslenzkri útflutningsvöru.

Þilskipaútgerðin, sem um nokkurt árabil var blómlegasti atvinnurekstur Íslendinga, sligaðist upp úr síðustu aldamótum undan kröfunum, sem til hennar voru gerðar, og reis ekki upp aftur. Þjóðin varð þess ótrúlega lítið vör, af því að einmitt um sama leyti tók hún í sína þjónustu önnur og fullkomnari framleiðslutæki.

Togarútgerðin og vélskipaútgerðin eru nú á sömu leið. En nú verður ekki gripið til annara fullkomnari tækja. Þau eru hvergi til. Sjávarútvegurinn hefir á síðustu 2 árum framleitt yfir 90% af útflutningsvöru Íslendinga. sé sú lýsing, er ég hefi gefið af horfunum, óveféngjanleg — og það er hún — þá er þetta mál svo alvarlegt, að hver einasti alþingismaður er skyldugur til að kynna sér það. Og það vil ég biðja menn að athuga, að það er alls ekki eingöngu núverandi kreppa, sem veldur. Aðdragandinn er miklu lengri og á rætur sínar í því tvennu, að kaupgjald hefir í mörg ár ýmist haldizt óbreytt eða hækkað, þrátt fyrir stórfallandi verðlag afurðanna, og ríkið og sveitarsjóðir hafa ekkert tillit tekið til þverrandi gjaldgetu útvegsins. Kreppan hefir svo náttúrlega gert sitt. Útvegnum stafar svipuð hætta af henni eins og berklasjúkling af lungnabólgu.

Fari svo, að togaraútgerðin lognist út af á fáum næstu árum, eftir því sem skipin eldast, þá þarf sá 1/5 hluti þjóðarinnar, sem við það missir framfærsluskilyrðin, ekki að ganga þess dulinn, hverjir valda. — Þeir valda að vísu miklu, sem spennt hafa bogann of hátt í kaupkröfum. En sumum þeirra verður þó það til lofs sagt, að barátta þeirra hefir ekki fyrst og fremst verið gegn útveginum, heldur fyrir bættum kjörum verkalýðsins, þó þeir hafi villzt frá réttu hófi og með því fært yfirvofandi atvinnuleysishættu yfir þá, sem þeir vildu vernda.

Hinna sök er miklu þyngri, sem látið hafa öfundina yfir ímynduðum gróða einstakra manna á þessum atvinnurekstri skyggja á þá staðreynd, að útvegurinn var vel á veg kominn að lyfta þjóðinni úr örbirgð til bjargálna.

Barátta þessara manna hefir verið ákaflega illkvittnisleg og eingöngu neikvæð. Þeir hafa slegið á lægstu hvatir mannlegrar sálar. Þeir hafa valið útvegsmönnum hverskonar hæði- og fúkyrði, í því skyni að kveikja öfund og illvilja í þeirra garð. Og þeim hefir orðið vel ágengt, ótrúlega vel. Í okkar litla þjóðfélagi stendur nú stétt gegn stétt, og ótrúlega margir þeirra, sem eiga fullkomna samleið, keppast hver í sína áttina almenningi til ómetanlegs tjóns. Mér verður tæplega láð, þó að ég hendi á lofti ein meðal óteljandi ummæla í þjónustu þessarar göfugu iðu.

„Hvað leiðir gott af byltingaseggjum þeim, sem standa að stórútgerðinni. Fyrir sveitirnar hafa þessir byltingaseggir verið meiri plága en eldgos og hallæri“.

Sá maður, sem enn er talinn dómsmálaráðherra landsins, skrifaði þessi orð í blað sitt, Tímann, 1925.

Ef til vill nálgast nú uppskerutímar þessarar iðju. Fari svo, gefist útgerðin upp, er hætt við, að þessum ráðherra reynist torvelt að bæta vandræði, að seðja hungur þess fimmta hluta þjóðarinnar, sem missir framfærsluskilyrði sín með eldgosi og hallæri. Og engu síður óttast ég, að þeir, sem á sínar herðar verða að taka skattþungann, er hvílt hefir á útveginum, og fá í kaupbætur eldgos og hallæri, þyki sitt hlutskipti ekki batna. En þegar menn í æðstu stöðum þjóðfélagsins tala þannig um annan aðalatvinnuveg landsmanna, þá er ekki von, að vel fari. Slíkir menn eru óþarfir og skaðvænlegri en þeir kunna skil á sjálfir.

Ég er ekki jafnkunnugur afkomu landbúnaðarins sem útvegsins, en þykist þó mega staðhæfa, að bændur eigi engu síður við örðugleika að etja. Jafnaðarlega hefi ég fregnir af afkomu þeirra hvaðanæfa af landinu. Þær eru að því leyti allar eins, að hið háa kaupgjald og lága afurðaverð keyrir bændur æ dýpra á kaf í skuldafenið. Og þeir eru um það verr settir en útvegsmenn, að mikið af útfluttri röru þeirra er enn óselt og verðfallið á henni er hlutfallslega enn meira en verðfall sjávarafurða.

Meðalverð á útfluttu dilkakjöti af framleiðslu ársins 1930 mun hafa verið um 108 norskar kr. tunnan cif. Noreg. Verð á síðasta árs framleiðslu er enn ekki hægt að segja um með vissu, því mikið af kjötinu er óselt, en líklegt má telja, að það verði ekki yfir 60–70 krónur tunnan. Sem stendur er kjötið nær óseljanlegt og verðið ekki nema um 40 norskar krónur cif. Noreg, ef um sölu er að ræða.

Sala á frysta kjötinu hefir einnig gengið mjög illa og verðlagið verið lagt. Ull, sem 1930 var 1.80 fyrsta flokks, 1,40 2. fl., var 1931 aðeins 1,30–0,90 kílóið fob., og gærur, sem 1930 voru 80- 90 aura kg. fob., voru 1931 aðeins 45–52 aura.

Mörgum finnst nú ef til vill, að ég hafi brugðið upp of svartri mynd af veruleikanum. Þessir menn sjá að vísu örðugleikana, en þeir hafa aldrei horfzt í augu við þá. Þeir hafa vikið þeim beizka kaleik frá sér, yppt öxlum og sagt: „Það slarkar einhvern veginn eftirleiðis eins og hingað til“.

En við þessa menn er bezt að lofa tölunum að tala. Í ársbyrjun 1929 var inneign á rekstrarreikningi bankanna erlendis tæpar 12 millj. kr. Síðan hefir hagur þeirra út árið farið smáversnandi og við síðustu áramót skulduðu þeir 9 millj. kr. í lausum og ósamningsbundnum rekstrarlánum. Munurinn þessi 3 ár er 21 millj. kr. Þar við ber að bæta því lánsfé, sem þessi árin hefir verið fengið til landsins og greitt inn á reikning bankanna erlendis, en það nemur sem næst 20 millj. kr. Greiðslujöfnuður bankanna út á við hefir þannig versnað um 41 millj. króna síðustu þrjú árin.

Og hvernig stendur á þessu? Að nokkru leyti stafar þetta af því, að við höfum orðið að taka lán til að greiða þær framkvæmdir, sem að eðlilegum hætti ættu að greiðast af tekjuafgangi af atvinnurekstri landsmanna, en að langmestu leyti af hinu, að á þessum árum hefir tapið á atvinnurekstri landsmanna verið svo mikið, að við höfum orðið að ganga svona eftirminnilega á eignir og lánstraust, blátt áfram til lífsviðurværis.

Það er því alveg víst, að við getum ekki haldið áfram á þessari braut. Við verðum að gera róttækar ráðstafanir til þess að koma á jöfnuði á milli tilkostnaðar og afrakstrar bæði til sjávar og sveita. Allir, sem aðhyllast og vilja halda í einstaklings eignarréttinn, verða að láta sér skiljast, að það gildir jafnt um báðar höfuðframleiðslugreinar landsmanna, að það er eingöngu herzlumunur, hvort heildin af eigendum framleiðslutækjanna til lands og sjávar gefst upp og afhendir þau bönkum og oðrum lánardrottnum. En slíkt gerist ekki umbrótalaust, og út yfir afleiðingar þess sér enginn.

Við Íslendingar verðum yfirleitt að gera okkur meira far um að átta okkur á fjárhags- og atvinnulífinu í stórum dráttum. Ég fyrir mitt leyti er t. d. sannfærður um, að þær samgöngubætur í umheiminum, sem segja má, að fært hafi hin frjósömu kjötframleiðslulönd, þar sem peningur gengur sjálfala allt árið, nær Evrópumarkaðinum, knýja okkur til að beina landbúnaðarpólitík okkar inn á nýjar brautir, og ég er viss um, að það er farsælast að gera það sem fyrst. Ég er líka sannfærður um, að atvinnulífi Reykvíkinga hefir í mörg ár verið haldið uppi með falskri kaupgetu, þ. e. a. s., að það er langt síðan arðvænlegur atvinnurekstur, framleiðslan og verzlunin, hætti að standa undir nægjanlega stórum hluta af lífsþörfum höfuðstaðarbúa. En Reykvíkingar hafa skapað sér mikla atvinnu með húsabyggingum, sem frá þjóðhagslegu sjónarmiði að mestu eru óarðbærar eignir og eingöngu til aukinna lífsþæginda. Þetta er að mestu byggt fyrir uppsafnað sparifé þeirra ára, þegar framleiðslan var rekin með eðlilegum ágóða, og með erlendum lántökum. Að öðru leyti er þetta of flókið mál til að verða rakið hér, en það er fullkomið íhugunarefni.

Ég hefi nú leitt athygli að þeim vandræðum atvinnulífsins, sem að svo miklu leyti stafa innan að, að við eigum kannske mest undir sjálfum okkur um, hver voði oss stafar af þeim, enda þótt líklegt sé, að varnarráðstafanirnar verði ekki harmkvælalausar.

En gegn öðrum voða er að verjast, sem við ráðum minna við. Á ég þar við þá tollmúra, sem viðskiptaþjóðirnar eru að reisa sér. Við Íslendingar höfum þegar orðið áhrifanna varir. Norðmenn hafa sagt upp kjöttollssamningnum og hækkað kjöttollinn. Bretar lagt 10% toll á innfluttan fisk. Ítalir hafa sömuleiðis lagt háan toll á fiskinn. Portúgalar margfalda tolla á blautum fiski og pressufiski og Spánverjar hafa ákveðið að losa sig við alla beztu-kjara samninga.

Fari sú tollastefna sigurför yfir heiminn, á að spyrja fyrst og fremst: Hvað gerir þú fyrir mig? Þá erum við Íslendingar nauðulega staddir, því við kaupum minnst af þeim, sem mest kaupa af okkur. En mikið má þó sjálfsagt draga úr hættunni, ef vel og viturlega er haldið á málefnum okkar.

Mér vinnst ekki tími til að ræða um erlendar skuldir þjóðarinnar. Ég hefi fengið skýrslu um þær frá hagstofunni, miðað við árslok 1930. Sjálfur áætla ég viðbót ársins 1931, eftir ræðu fjármálaráðherra, reikningi bankanna o. fl. Hygg ég, að Íslendingar skuldi nú erlendis 80 milljónir, hið minnsta. Jafngildir það verði alls lands og allra húsa á öllu landinu, utan Reykjavíkur, samkvæmt fasteignamatinu 1916–1918 og viðaukamati 1929.

Mér finnst þetta ískyggilegt. Af þessu hygg ég, að allt að 25 millj. króna séu lausaskuldir, uppsegjanlegar með litlum fyrirvara. Það finnst mér beinlínis voveiflegt.

Þetta er þá viðhorfið í atvinnulífi og fjármálalífi þjóðarinnar: Galtómur ríkissjóður, hyldjúpt skuldafen, getulitlir bankar, getulausir gjaldþegnar, lamaðir bændur, lémagna útvegsmenn og lítt treystandi erlendir lánardrottnar. Og er þó sú hættan kannske verst, sem við ráðum minnst við, sem sé tollapólitík viðskiptaþjóðanna.

Sú stjórn, sem í einstökustu hátekjuarum hefir ekki borgað skuldir, heldur safnað skuldum, ekki myndað sjóði, heldur etið upp sjóði, hún getur nú með engu móti komið til þrautpíndra skattþegna og krafizt nýrra skatta, m. a. af því, að þeirra sjóði er hún líka búin að þurrausa. Og þessari stjórn, sem í góðærinu hefir komið ríkissjóðnum á barm gjaldþrots og jafnframt sligað atvinnulíf landsmanna, er hvorki treystandi til að bæta fyrir þau glöp ne afstýra aðvífandi voða.

Að endingu vil ég segja þetta: Þegar örðugleikarir steðja að, dugir ekki að missa kjarkinn og trúna. En það er engu að síður nauðsynlegt að gera sér fulla grein fyrir ástandinu. Með því eina móti er hægt að spyrna við og forðast, að sjálfskaparvitin verði þjóðinni að grandi. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að allt hljóti að falla í rústir. En ég er öldungis sannfærður um, að sá verði endirinn, ef við játum undir höfuð leggjast að beita sérhverri þeirri varnaðarráðstöfun, sem í okkar valdi stendur.