05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

1. mál, fjárlög 1933

Guðmundur Ólafsson:

Það er hvorttveggja, að ég tala ekki oft í deildinni nú orðið, enda er það víst bezt, eftir því sem hv. frsm. segist frá. Annars veit ég ekki til, að ég hafi nokkru sinni leikið deildarmenn jafn grátt og hann, ef taka á alvarlega ummæli hans um mig. Hann sagði, hv. frsm., að ég hefði kvartað um það í dag, að mér leiddist að tala fyrir till. þessari árlega og hann hélt, að það væri af því, að ég hefði aldrei fengið styrkinn. Þetta er alls ekki rétt hjá hv. frsm. Þegar ég talaði fyrst fyrir till. um þennan styrk, tók ég það fram, að hlutaðeigendur þyrftu að fá hann í 4–5 ár, og nú hafa þeir fengið hann í tvö ár.

Þá fór ekki betur fyrir hv. frsm., þegar hann fór að tala um laxinn og loðdýrin. Hann fullyrti, að hægara væri að flytja lifandi loðdýr frá Grænlandi heldur en lifandi laxaseiði af Suðurlandi norður í Húnavatnssýslu. Jafnframt tók hann fram, að ég vissi hreint ekki, hvort þessi tilraun með seiðaflutninginn gengi vel eða illa, m. a. s. vissi ég ekki með vissu, að hann sagði, hvort nokkuð af seiðum heim, sem norður hafa verið flutt, væru lifandi eða ekki. En ég benti hv. þd. einmitt á, að fyrir þessu klakmáli væri mikill áhugi norður frá, og hv. frsm. hlýtur að geta skilið það, að svo myndi ekki vera, ef seiðin dræpust alltaf jafnóðum og þau væru flutt norður, enda er mönnum kunnugt um, að margt af laxseiðunum lifir þar enn. Ég vona nú, að hv. frsm. skilji þetta nú og átti sig á því.