05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

1. mál, fjárlög 1933

Guðmundur Ólafsson:

það er óneitanlega dálítill bati hjá hv. frsm. þó virðist mér hann ekki úr allri hættu enn með skilningsleysið. Hann spurðist fyrir um það, hvenær styrkur þessi hefði fyrst verið greiddur til fiskiræktarfél. Blöndu og hve miklu hann hefði numið. Ég tók það fram í dag, að félagið hefði fengið í allt 1200 kr. í 2 5r. Fyrra árið 500 kr. og síðara árið 700 kr., og að lagðir hefðu verið á móti 2/3 hlutar eins og tilskilið er. Af þessu getur hv. þm. seð, hvað kostnaðurinn hafi verið mikill alls. Jafnframt tók ég fram, að byrjað hefði verið að flytja seiðin norður fyrir 3 árum, og að styrkurinn hefði alltaf verið greiddur eftir á. Er því búið að greiða hann tvisvar sinnum og þetta er í þriðja sinn, sem farið er fram á, að styrkur verði greiddur. Þá vissi hann heldur ekki, hvenær í ósköpunum þetta myndi taka enda, og vildi fá það upplýst. Það er von, að bóndi furði sig á þeirri ógnar upphæð, þessum kr. 500 á ári, sem búið er að snara í þessa menn norður frá. Þetta tók ég greinilega fram í dag. Ég sagðist vona, að það myndi nægja að veita styrkinn í 4–5 ár. Annars veit ég ekki, hvar í ósköpunum hv. frsm. hefir verið í dag, þegar ég talaði. Hann man tæplega nokkurn hlut af því, sem ég sagði, og rangfærir það litla, sem hann man. Þakka ég honum svo fyrir, að hann ætlar að vera með till., ef með þarf.