27.04.1932
Efri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

34. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. (Pétur Magnússon):

Þetta frv., í líkri mynd og nú, hefir legið fyrir hv. d. tvisvar áður. Frv. er upphaflega samið af Hannesi Guðmundssyni, sérfræðingi í kynsjúkdómum, og flutt á þingi af okkur hv. þm. Snæf. Frv. fékk góðar undirtektir hér, en var þó á síðasta þingi vísað til stj. til frekari undirbúnings, því að það þótti ekki tryggt, að þau sjúkrarúm væru til, sem frv. gerir ráð fyrir. Frv. í sinni núv. mynd er samið af landlækni og flutt af honum inn á þing. Aðalbreyt. frá núv. löggjöf eru tvær. Fyrst sú, að tryggð sé sjúkrahúsvist sjúklingum með kynsjúkdóma og að ríkið greiði sjúkrahúsvist þeirra, sem geta ekki staðið straum af henni sjálfir, og svo hin, að ekki er lengur krafizt af sjúklingnum, að hann gefi drengskaparvottorð um það, að hann geti ekki borgað, heldur er það lagt undir dóm hlutaðeigandi læknis.

Eins og sest á grg. þeirri, sem fylgdi frv. upphaflega, hafa kynsjúkdómar aukizt allmikið upp á síðkastið. Jafnvel sá, sem alvarlegastur er talinn, syfilis, hefir farið nokkuð ört vaxandi en árin. Sú breyt. hefir orðið hér á, að alloft eru nú farnar að eiga sér stað smitanir hérlendis, en áður fóru nálega allar slíkar smitanir fram erlendis. Þarf ekki að lýsa nauðsyn þess fyrir þjóðfélagið að hindra útbreiðslu þessara sjúkdóma. Hafa þeir orðið eitt hið þyngsta þjóðfélagsböl, þar sem þeir hafa gripið um sig. Sérfræðingar segja, að lækning sé því nær óframkvæmanleg, nema hægt sé að einangra sjúklingana. Á þetta sérstaklega við um kvenfólk, einkum þó þær, sem gera sér saurlifnað að atvinnugrein og smita svo og svo marga karlmenn, áður en lækning er fengin að fullu, og taka líka oft smitun aftur sjálfar. Sú lýsing, sem sérfræðingurinn gaf hér um, ætti að geta vakið menn til umhugsunar um það, að hér er bráð þörf á aðgerðum. Úr þessum ágalla ætlar frv. að bæta, þar sem í sjúkrahúsinu í Rvík eiga alltaf að vera 10 rúm til taks og önnur 10 í hinum kaupstöðum landsins. Hafnarfjörður er hér ekki talinn með, og liggur það í því, að Hafnarfjörður ætti að geta samið við Rvík um að taka sjúklinga, sem hann þarf að koma í sjúkrahús.

Um síðara atriðið er aftur það að segja, að það er haft til þess að hvetja sjúklinga til að leita læknis í þessum tilfellum. Reynslan hefir sýnt, að þessir sjúklingar eru heldur tregir til að leita læknis og vilja fara með sjúkdóminn sem leyndarmál og hlífast við því að gera uppskatt um hann. Vil ég segja, að það er í raun og veru ekki meiri hætta á því, að þetta ákvæði verði misbrúkað, þótt það verði lagt í hendur lækna að ákveða, hvort sjúklingurinn geti borgað. Jafnvel þótt einhver hætta væri í því efni, þá er hitt atriðið, að ekkert sé gert til þess að draga úr því, að sjúklingur leiti læknis, nægileg ástæða til að breyta um í þessu efni. Ég vil ekki neita því, að frv. getur haft í fór með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, en hann ætti ekki að vera mikill. Er gert ráð fyrir því, að leitað verði samninga við bæina um það, að þeir leggi til sjúkrarúmin, en ríkið kosti rekstur sjúkrahúsanna. Kostnaður er talsverður við þessar lækningar, en þótt einhver kostnaður bætist við, dugir ekki að bræðast það, ef menn eru sannfærðir um, að hann geti orðið til þess að draga úr þessum sjúkdómum.

Allshn. þessarar hv. d. hefir haft málið til meðferðar og lagt eindregið með því, að það verði samþ.