27.04.1932
Efri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

34. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Bjarni Snæbjörnsson:

þegar frv. þetta kom fram í hv. Nd., tók ég eftir því, að það var ekki getið um í því, að Hafnfirðingar og ýmsir aðrir landsmenn gætu notið þeirra hlunninda, sem farið er fram á í frv., og talaði um það við landlækni, og tók hann því líklega að breyta því, en það hefir ekki verið gert. Hafði ég ekki athugað það fyrr en í dag. Það má vel vera, að það sé rétt athugað hjá hv. frsm., þegar hann talaði um, að n. hefði haldið, að Hafnfirðingar fengju pláss í sjúkrahúsi í Rvík, og það er sennilega það skynsamlegasta og bezta fyrir þá sjúklinga, því að hér í Rvík er auðvitað völ á þeirri beztu læknishjálp, sem hægt er að fá í þessari grein. En mér skilst samt, að þurfi að koma fram í frv. eitthvað þessleiðis, að Hafnfirðingar megi fái eitt rúm, annaðhvort af þessum 10 eða til viðbótar, eftir samkomulagi við Rvíkurbæ. Ég fyrir mitt leyti álít, að 10 rúm fyrir Rvík sé ekki of mikið og að hún hafi fulla þörf á þeim rúmum. En þá skilst mér, að eftir frv. sé ekki hægt að koma sjúklingum í sjúkrahús með sömu kjörum frá Hafnarfirði, eða annarsstaðar af landinu, ef ekki er pláss fyrir þá í þeim rúmum, sem Rvík eru ætluð. Ég hefi ekki borið fram brtt. um þetta við þessa umr., því að ég er ekki vel kunnugur því, hvernig landlæknir hefir hugsað sér þetta mál, en mun geyma mér það til 3. umr. að koma með brtt.