05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1933

Guðrún Lárusdóttir:

Hæstv. dómsmrh. hefir borið fram till. á þskj. 637, sem ég geri tilkall til að geta komið fram með brtt. við. Hæstv. ráðh. lýsti því, hvernig málum væri komið í Saurbæjarsókn, og kvað nauðsyn að ráða þar bót á. Veit ég að það er satt, að full þörf er á því að ráða bót á þessu erfiða máli. Söfnuður Saurbæjarsóknar er meðmæltur till. á þessu þskj., m. ö. o. því, að söfnuðinum sé tryggt, að prestakallið haldist óbreytt. Hann býr að prestakalli, sem tengt er við hróður um bezta andlega ljóðagerð hér á landi. Er það skiljanlegt, að hann vilji halda prestakallinu óbreyttu. Held ég því, að það væri í fullu samræmi við vilja safnaðarins, ef þessi brtt. næði samþykki.

Þá vil ég bæta fáum orðum við það, sem hér hefir verið sagt um risnufé ráðh. Hæstv. fjmrh. virtist halda, að till. mín um lækkun á risnufénu væri borin fram af pólitískum ástæðum. Get ég ekki kannast við, að svo sé, en hinsvegar er mér kunnugt um, að þessi styrkur hefir verið gerður að umtalsefni hér á þingi fyrr en nú, og varð ekkert lítill úlfaþytur út af því, þegar Jón heit. Magnússon forsrh. hækkaði hann úr 2000 kr. í 4000 kr. Það þótti andstæðingum þáv. stj. óhæfa hin mesta, enda þótt þá væri mikil dýrtíð í landinu, meiri en nú er, þótt dýrt þyki að lifa á þessum tímum.

Annars gat mér ekki skilizt það á ræðu hæstv. ráðh., að hann teldi till. mína óréttmæta, þó að hann álíti laun forsrh. of lág til að lækkaður verði þessi veizlustyrkur, sem honum er ætlaður. Um það vil ég ekki deila, má vera, að svo sé, en ég held því einungis fram, að tímarnir leyfi alls ekki, að fé ríkissjóðs sé varið til veizluhalda eða annars óþarfa.

Út af skáldunum okkar langar mig til að leggja orð í belg. Ég kann illa við að nefna þá í sama orðinu, Þorstein Erlingsson og Halldór Laxness. Ég tel mig ekki lasta Halldór neitt, þótt ég segi, að Þorsteini Erlingssyni er lítill sómi sýndur með því að bera hann saman við Laxness. Það æðra og meira skáld tel ég Þorstein, manninn, sem manna mest vandaði til málsins, sem aldrei misbauð móðurmálinu með ljótu orðalagi, en það hefir Laxness gert sig talsvert sekan um.

Mér finnst hv. fjvn. hafa gert einkennilega mikið upp á milli þeirra kollega, Halldórs og Þórbergs Þórðarsonar. Þessir tveir menn sýnist mér að ættu öllu fremur að standa eða falla hvor við annars hlið. Það hefir verið fundið Þórbergi til foráttu, að svo lítið liggi eftir hann af ritverkum; sumt af því, sem hann hefir látið á þrykk út ganga, er reyndar þannig úr garði gert, að lítil eftirsjá er að, þótt ekki sé við það bætt. Öðru máli er að gegna um Halldór Laxness. Það getur víst enginn borið honum það á brýn, að lítið liggi eftir hann. Annað mál er hitt, hvernig það er að innihaldi.

Það er annars leiðinlegt, að ég skuli ekki hafa hér við hendina ljóðmæli þessa skálds, svo ég geti eins og hv. 2. landsk. haft hér yfir ljóð. Því miður er ég ekki svo vel að mér í ljóðagerð Laxness, að ég kunni svo mikið í þeim utanbókar, að ég geti skemmt hv. þdm. með sýnishorni af kveðskap hans, en ég efast ekki um, að hv þdm. hafi kynnt sér kvæði hans og viti sjálfir, hve ágæt þau eru.

Mér heyrðist á hv. 2. landsk., að honum þætti hafa verið farið illa með Halldór Laxness, og að hann hafi orðið fyrir ómaklegum árásum. Ég álít þvert á móti, að það hafi verið farið sérstaklega vel með þennan unga rithöf., e. t. v. of vel; of mikið dálæti og hól er engum holt, allra sízt ungum rithöf. Þessum unga manni hefir verið hossað mikið sem stórskáldi, og hann hefir líklega ekki þolað það. Rithöf. hafa gott af réttmætri kritik. Kritik hefir þessi ungi maður auðvitað fengið, ekki einungis hjá „íhaldsblöðum“, heldur jafnvel hjá sjálfu stjórnarblaðinu og stuðningsblaði þess. Það væri nógu gaman að rifja upp ummæli Tímans um rithátt þessa manns, en þau hefði tæpast orðið harðari, þótt þau hefðu staðið í einhverju „íhaldsblaðinu“. Og mig minnir ekki betur en að stuðningsblað Tímans, Alþýðublaðið, hafi líka haft ýmislegt að athuga við rit hans. Annars finnst mér mjög vel farið með þennan rithöf. Hann hefir ár eftir ár verið í fjárl., og þjóðin hefir beðið eftir því árum saman, að hann „slípaðist“ eitthvað og færi að vanda sig ofurlítið, því það var vitað, að hann hefir hæfileika til ritstarfa. Ekki virðist mér það heldur ill meðferð á ungum rith. óþroskuðum, að Menningarsjóður gefur út hverja bókina eftir hann af annari og að ríkisútvarpið útvarpar hverjum bókarkaflanum eftir annan, áður en bækurnar komast á prent. Það er ekki hægt að kalla slíkt illa meðferð, þó að hann hafi orðið, eins og allir, sem rita bækur, að þola kritik. Enda mætti það undarlegt heita, ef fólkið í landinu, sem lítur öðruvísi á málin en þessir ungu ritandi menn, mættu ekki andmæla skoðunum þeirra. Mér þykir harla óréttmætt að vera dæmdur þröngsýnn og ofstækisfullur fyrir þá sök eina.

Ég held því fram, að þjóðin eigi fulla heimtingu á, að rithöfundarnir vandi sig og láti ekkert af hendi, sem spillt getur eða skemmt lesendurna. Þjóðin á að gera þær kröfur til rithöfunda, að þeir misþyrmi ekki móðurmáli voru, hvorki með orðskrípum né ljótu efni, og þjóðin á ekki að þola neinum rithöfundi það, að hann fylli eyru landsmanna með ósæmilegu hjali eða orðagjálfri. Því miður gæta ekki allir ritandi menn sín svo sem vera bæri í þessu efni, ekki heldur rithöf. þeir, sem hér hefir verið minnzt á.

Rithöf. ber mikla ábyrgð með penna sínum. Skrifað orð fer lengra en talað orð og lifir lengur. Því er það aldrei of brýnt fyrir þeim, sem á penna heldur, að gæta sín að vanda sig, að muna sífellt eftir því, hvílíkur ábyrgðarhluti það er að senda frá sér óvandað lesmál, sem e. t. v. smeygir fyrsta eitrinu inn í einhverja barnssálina.