02.05.1932
Efri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

34. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að mér fyndist það ekki nógu skyrt orðið í 2. gr., hverjir ættu að njóta þeirra ókeypis sjúkrarúma, sem þar eru nefnd. Ég hefi nú átt tal um þetta við landlækni, hv. þm. Ísaf., og þessar brtt. á þskj. 553 eru fram bornar í samráði við hann.

Í 1. brtt. er það tekið fram, að allir þessir sjúklingar eigi jafnt tilkall til þessara sjúkrarúma án tillits til þess, hvar þeir eiga heima á landinu. Þá hafa kaupstaðirnir engin forréttindi fram yfir aðra landshluta, en allir geta fengið aðgang að þessum tímum, þ. e. a. s. þegar roðin kemur að þeim.

2. brtt. er aftur til að fyrirbyggja það, að þetta pláss fyllist af öðrum sjúklingum en þeim, sem smithætta stafar af. Þannig er það ekki tilætlunin, að þeir, sem hafa einhverja fylgikvilla eftir lekanda eða syfilis, fái þarna pláss, svo framarlega sem sjúkdómar þeirra eru ekki á smitunarstigi. Það hefir borið við stundum áður, að menn hefir greint á um það, hvort ríkissjóði bæri að greiða sjúkrakostnað þeirra sjúklinga, sem hafa fylgikvilla eftir þessa sjúkdóma. hér er tekið fram, að svo sé ekki, enda mundu þessi fáu sjúkrarúm, sem hér um ræðir, óðara fyllast af þesskonar sjúklingum, ef þetta væri ekki skýrt tekið fram.

3. brtt. er aðeins afleiðing af 2. brtt., og 4. brtt. er aðeins til að taka fram, hvaða gr. er átt við í því upphaflega frv., til þess að þegar l. verða gefin út í heild, sé hægt að hafa sem bezt samræmi við þær breyt., sem þetta frv. fer fram á.