15.04.1932
Efri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

210. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Þetta frv. er komið frá Nd. Það var upphaflega borið fram á vetrarþinginu 1931, eftir ósk bæjarstj. Vestmannaeyja. Ég veit ekki til, að frv. þetta hafi mætt neinni mótspyrnu í Nd., hvorki nú né í fyrra. Ég veit ekki heldur til, að nein andmæli gegn því hafi borizt til Nd. eða hingað, hvorki á vetrarþinginu í fyrra né nú. Á sumarþinginu síðasta voru samþ. hér lög um hafnarbætur á Eyrarbakka. Samskonar ákvæði eru í þeim l. og eru í þessu frv. Gekk það þó orðalítið gegnum þingið. Vera má þó, að hv. 2. landsk. hafi haft eitthvað við það að athuga. En ég veit ekki heldur til, að andmæli hafi komið annarsstaðar frá.

En nú hafa sjútvn. borizt mótmæli gegn frv., eftir að það var afgr. úr n. Þau andmæli eru frá Landsbankanum og Útvegsbankanum. Ég tel rétt að lesa brefið upp. það hljoðar á þessa leið:

„Reykjavík 13. apríl 1932. Á Alþingi 1932 hefir verið borið fram frumvarp til laga um breytingu á 11. gr. hafnarlaga fyrir Vestmannaeyjar, nr. 60 frá 10. nóv. 1913, þar sem farið er fram á, að aftan við téða 11. gr. hafnarlaganna komi:

„og ganga festa-, lesta- og uppsátursgjöld af vélbátum og öðrum skipum í 2 ár eftir gjalddaga fyrir öllum veðkröfum í skipum og bátum, samhliða vita- og lestagjaldi til ríkissjóðs“.

Með því að með téðum ákvæðum er gengið á rétt veðhafa og rýrður veðréttur sá, er eigendur geta veitt lánardrottnum sínum, og það fyrir tveggja ára gjöldum, þá leyfum ver oss hér með að mótmæla því eindregið, að téð frumvarp verði talið ná samþykki Alþingis.

Bankarnir líta svo á, að það sé mjög varhugavert af þinginu að setja slík ákvæði í lög, og eigi síður þegar aðeins er um að ræða sérstaka heimild fyrir eitt ákveðið bæjarfélag.

Fyrst er á það að líta, að með þessu er gerð tilraun til þess að gera þessar eignir manna í Eyjum óveðhæfar fyrir banka og sparisjóði, en það eru aðalveð þau, er þessir menn hafa handa á milli til þess að veðsetja fyrir skuldum sínum, og er þeim því óleikur mikill ger með ákvæði þessu, sem aðeins virðist gert til þess að styðja að slælegri innheimtu téðra gjalda frá því opinbera, og það ekki aðeins fyrir eitt ár í senn, heldur tvö ár. Enda mun innheimta gjaldanna fyrir 2 ár venjulega mun erfiðari.

Bankarnir geta ekki, þegar þeir lána út á eignir þessar, vitað, hve mikið mun á þær falla af gjöldum þessum, enda má breyta þeim frá ári til árs án þess að sá, er veðrétt kann að hafa í eignunum, hafi neitt þar um að segja. Vér sjáum ekki betur en að bankarnir séu neyddir til þess að segja upp lánum þeim, er á bátum þessum og skipum hvíla, eða a. m. k. lækka þau að mun, og getur slíkt orðið til hins mesta óhagræðis fyrir viðkomendur, og það þá sérstaklega á þessum krepputímum.

Væntum vér, að háttvirt Alþingi láti frv. þetta ekki ná fram að ganga.

Virðingarfyllst

Landsbanki Íslands.

Magnús Sigurðsson. Georg Ólafsson.

Útvegsbanki Íslands h/f.

Helgi Guðmundsson. E. Kvaran“.

Út af þessu erindi vil ég segja það, að það hefir ekki haft tilætluð áhrif á afstöðu sjúvn. þessarar d., og leggur hún til eftir sem áður, að frv. verði samþ. En það er svo um þessa vélbátaútgerðarmenn, sem hér um ræðir, að allt það fé, sem þeir fá, gengur í gegnum bankana, og því er þessum mönnum ómögulegt að greiða sin gjöld nema bankarnir greiði fyrir þeim. Þessa aðstöðu vilja bankarnir nota til þess að láta þessi gjöld falla niður. Sjútvn. sér ekki ástæðu til að vernda þetta, því að það liggur í hlutarins eðli, að þessir atvinnurekendur verða að borga þau gjöld, sem hér um ræðir. Það er óhjákvæmilegt, að útgerðarmennirnir verða að inna af hendi nauðsynleg gjöld til hafnarinnar, sem byggð hefir verið til þess að mögulegt sé að reka þennan atvinnuveg. Verði þessi gjöld ekki greidd í hafnarsjóð, þá verður það til þess, að sjóðurinn getur ekki innt af hendi umsamda vexti og afborganir, og lendir það þá vitanlega á ríkissjóði, sem hefir veitt lán til hafnarinnar, eins og allir vita.

N. álítur, að það sé engan veginn rétt, sem haldið er fram í mótmælaskjali bankanna, að hér sé gengið á rétt þeirra, því að af slíkri lagasetningu, sem hér er um að ræða, leiddi að sjálfsögðu það, að bankarnir yrðu að fylgjast með í því, hvort þessi gjöld væru greidd af bátunum fyrir umliðið ár eða ekki, og til þess eftirlits hafa bankarnir vitanlega ágæta aðstöðu. Þetta er allt, sem þarf til þess að komast hjá þeim skráveifum, sem ætlazt er til, að lesið verði út úr þessu mótmælaskjali, að bankarnir verði fyrir, ef lög slík sem þessi verða samþ.

það er engan veginn rétt, að af þessu leiði það, að bankarnir verði að lækka lánveitingar til á þessar eignir. Með því að hafa eftirlit með, að gjöldin séu greidd á hverju ári, geta bankarnir fullkomlega tryggt sín veð hvað þetta snertir.

Annars má benda á það í þessu sambandi, að þessar eignir, vélbátarnir, eru eins og önnur skip sannarlega háðir annmörkum, sem eru miklu óvarlegri fyrir bankana heldur en slík lög veð, sem hér um ræðir. Þar verða það hin almennt sjóveð, sem gera öll slík skip meira og minna óveðhæf. Lánveitendur verða að fylgjast með í því, að þessi gjöld séu greidd árlega, og verður það ekki talinn teljandi annmarki á því að taka veð í slíkum eignum, samanborið við það, sem sjóveð hafa að þýða í þessu sambandi.

Ég vil leggja áherzlu á það, að þegar hafnir koma upp fyrir lénsfé, eins og á sér stað í Vestmannaeyjum, þá verður að tryggja það, að hægt sé að ná inn þeim tekjum, sem eiga að standa straum af vaxtagreiðslum og afborgunum, en það verður ekki gert með öðru móti en þessu, sem hér er farið fram á, a. m. k. ekki í erfiðu árferði eins og nú er, og er það vegna þess, hvernig aðstaðan er gagnvart bönkunum með afrakstur þessa atvinnuvegar. Fiskurinn er fyrst veðsettur áður en búið er að draga hann á land, og síðan eftir að hann hefir verið saltaður og honum komið í hús, og veð bankanna í honum ganga fyrir öllum gjöldum til þessara hafna, sem ekki eru verndaðar sérstaklega, eins og hér er farið fram á. Mér er kunnugt um, að opinber gjöld nást erfiðlega inn hjá mörgum atvinnurekendum, þegar kreppir að, og bankarnir nota sér mjög óvægilega sína aðstöðu til að neita að greiða höfninni gjöld fyrir þessa atvinnuvegi, þegar erfitt er í ári.

Ég held, að ég þurfi þá ekki að segja fleira að svo stöddu, en ég endurtek það, að þetta er ekki fyrsta löggjöfin, sem gefin er út af þessu tægi, því að á sumarþinginu í fyrra voru sett samskonar lög um aðra höfn. (MT: Það hefir verið gert ennþá fyrr). Já, það mun vera rétt, að það hafi verið sett samskonar löggjöf ennþá fyrr.