05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög 1933

Guðrún Lárusdóttir:

Hv. 2. landsk. skildi orð mín svo, sem ég væri að tala um H. K. L. persónulega. Ég talaði fyrst og fremst um rithöfunda yfirleitt. Þótt það sé leiðinlegt að tala um mann, sem ekki er viðstaddur, gaf hv. 2. landsk. mér ástæðu til að segja, að mjög mikið af því, sem H. K. L. hefir skrifað, er gersamlega fjarri því að geta heitið vandað eða gott lesmál.

Það er auðvitað fallega sagt, að ekki megi hefta frelsi skáldanna. En ég held, að hinn frjálsborni andi stórskáldsins svífi ofar öllu grómi, og að það sé því engin hætta á, að hann verði heftur. Það eru einungis þeir, sem vaða í sorpinu, sem hætt er við að verði heftir, en þeir eru heldur ekki stórskáld; við skulum líta á ljóð Matthíasar Jochumssonar, svo ég taki dæmi af verulegu skáldi. Hvar verður bent á lúalegan eða ljótan kveðskap í ljóðum hans? Er ekki skáldandi hans hafinn yfir allt slíkt? Verður þessháttar andi heftur? Nei, hann fer sinna ferða í svimháu flugi í fegurð og tign. Eða Jónas Hallgrímsson? Ætli það verði auðfundin lýti á ljóðum hans? Er ekki málið gullhreint? Er ekki efnið fagurt? Mat hann ekki móðurmálið of mikils til þess að nota það illa? Misbauð hann nokkru sinni íslenzkri tungu eða hinni tíginbornu skáldgyðju? Og hvað verður svo sagt t. d. um Halldór Laxness í þessu sambandi? Hvað finnst mönnum? Mundu foreldrar gjarnan velja skáldrit hans, Vefarann mikla, Þú vínviður hreini, Alþýðubókina o. s. frv. börnum sínum til andlegrar uppbyggingar, eða sem dæmi upp á fegurð íslenzkrar tungu og göfuga hugsun? Mér er nær að halda, að þeir yrðu færri, heimilisfeður, sem veldu yfirhöfuð bækur hans til upplestrar að heimilisfólki sínu áheyrandi. Þar fyrir kemur mér ekki til hugar, að segja allt einskisvirði, sem hann hefir ritað, en ég teldi betur farið, að hann hefði valið sér önnur yrkisefni en sumstaðar eru í ritum hans, því tæplega getur það heitið vinningur fyrir þjóðina þótt sýnt sé það ljótasta í fari manna.