20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

218. mál, varðskip landsins

Sveinn Ólafsson:

Það er sannast að segja, að ég gat ekki heyrt mál hv. þm. Seyðf. Mér skildist þó, að hann spyrði um, hvort sjútvn. hefði tekið til meðferðar frv. hans um sama efni og hér liggur fyrir, er legið hefir fyrir n., — eða var ekki svo? (HG: Ég spurði, hvort hún hefði athugað varðskipalögin yfirleitt). Það hefir n. ekki gert nema í sambandi við þetta frv. Hvað n. ætlar sér að gera við frv. hv. þm. Seyðf., er mér ókunnugt um, en fyrir sjálfan mig get ég sagt, að mér finnst afgreiðsla þess lítt þörf, ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ. Fleira hefi ég svo ekki að segja um það mál að sinni.