07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

218. mál, varðskip landsins

Frsm. (Ingvar Pálmason):

F. h. sjútvn. hefi ég ekki margt að segja, því að eins og nál. ber með sér, leggur n. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. En eftir að n. hafði skilað áliti sínu, hafa komið fram brtt. á þskj. 605. N. hefir athugað brtt. þessar, og má ég skila því frá henni, að hún sé á móti 1. og 2. till., enda er þar algerlega um stefnubreyt. að ræða í þessum málum. Um 3. brtt. má að vísu segja, að í henni felist viðleitni til að bæta síðustu gr. frv. En það má segja, að þeirri viðleitni fylgi þó vandkvæði. Það er gert ráð fyrir í till., að nokkur hluti af björgunarlaunum, sem skipshöfninni ber samkv. frv., skiptist á milli þeirra, sem leggja sig í hættu við björgunina eða hafa verið í mestri hættu. Þetta er að vissu leyti ekki ósanngjarnt, en hætt við, að af þessu gæti leitt misklíð, því að álitamál getur orðið um, hverjir hafi verið í mestri hættu, en slíkt hlýtur alltaf að falla undir úrskurð skipstjóra, og væri þá hægt að hugsa sér, að þetta gæti leitt til óánægju milli skipshafnar og skipstjóra. En í frv. eins og það er nú eru ákvæðin skýr, og þó að segja megi, að ekki sé nema réttmætt, að þeir beri hærra úr býtum, sem í mestri hættu eru við björgun, eru þeir gallar á að framkvæma það, að n. sér ekki fært að mæla með till. Annars er mér óhætt að lýsa yfir því fyrir n. hönd, að henni er ekkert kappsmál, hvernig fer um þessa brtt. En það er hvorttveggja, að hún álítur hana gallaða, og svo hitt, að samþykkt hennar mundi tefja framgang málsins. Og eins og áliðið er þings, álitur n. ekki rétt að hefta framgang málsins. Aftur á móti er ekki útilokað við nánari athugun að koma ákvæði inn í lögin síðar, er stefndi að þessu takmarki, sem 3. brtt. fer fram á. En svona seint á þingi álítur n. varhugavert að samþ. brtt.

N. leggur því á móti brtt. á þskj. 605 og ræður hv. d. til að samþ. frv. eins og það liggur fyrir.