07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

218. mál, varðskip landsins

Jón Baldvinsson:

Þessar 3 brtt., sem ég hefi borið fram við þetta frv., eru til þess að færa frv. í betra horf, að því er ég álít. Mér finnst það ólíkt heppilegra og einfaldara, að því sé svo fyrir komið, eins og gert er ráð fyrir í brtt. minni, að dómsmrh. eða sá, er hefir á hendi útgerðarstjórn varðskipanna, skuli gera starfssamning við skipstjóra og vélstjóra, heldur en að hafa fyrirkomulagið eins og nú er ákveðið í 1. gr. þessa frv.

Það er líka óeðlilegt að fara að blanda sjútvn. beggja deilda inn í þetta mál, eins og nú er ætlazt til í frv. Ég skal ekki segja, hvort það skiptir miklu máli, hvort þessi till. er samþ. eða ekki, en sú leið er þó alltaf opin, að láta það ganga til dómstólanna, ef samningarnir eru brotnir.

2. brtt. er sama eðlis og sú 1., að vélstjórar skuli ráða sína starfsmenn, kyndarana, en skipstjóri aðra starfsmenn skipsins, og að það sé í samræmi við ráðningakjör sjómanna á þeim skipum, sem einstakir menn eiga. Ég álít, að þessi till. yrði miklu eðlilegri í framkvæmd heldur en ákvæði þessara l., að reynt sé að gera alla þessa menn að embættismönnum, þó að þeir starfi hjá því opinbera.

Þá kemur 3. brtt., og álít ég miklu máli skipta, að hún verði samþ. Hún er um skiptingu björgunarlauna, og er þar farið fram á aðra skiptingu á þessum launum heldur en lagt er til í frv. sjútvn. Nd. hér er það lagt til, að þeir, sem virkilega leggja sig í hættu við björgunina, fái nokkru meiri hl. af björgunarlaununum. Þetta álít ég rétt á allan hátt, enda mun þetta vera svo annarsstaðar. Hv. frsm. viðurkenndi líka, að þetta fyrirkomulag væri í raun og veru gott, en vildi þó ekki, að till. yrði samþ., af því að ástæður þingsins leyfðu það ekki. Ég veit ekki, til hvers þm. eru hingað komnir, ef ekki til að semja lög og vinna að því, að þau fái sem bezta afgreiðslu, bæði hvað efni og form snertir. Ég sé ekki annað en að nægur tími sé til að ganga frá þessu máli, þó að þessi brtt. verði samþ. nú, því að það þarf ekki annað en láta frv. ganga gegnum þessar umr. hér í Ed. og svo eina umr. í Nd.

Hv. frsm. heldur, að það vinnist ekki tími til að afgr. frv., ef nú eru gerðar breyt. á því. Ég veit ekkert, hvað langt er liðið á þingtímann, þingið getur staðið í mánuð enn, og það getur verið, að allir verði sendir heim á mánudaginn. Ég býst við, að þingið verði ekki rofið í dag og vona, að ekki verði tekið upp á að brjóta sunnudagshelgina með því að rjúfa það á morgun. Það eru full líkindi til, að þingið standi svo lengi, að tími verði til að afgr. málið, þó að þessar brtt. væru samþ., því að um þær ætti ekki að þurfa að vera neinn ágreiningur, a. m. k. ekki 3. brtt.

Ég skil það vel, að stj. vilji gjarnan fá samþ. slík lög sem hér á að setja, þar sem ákveðið er, að hluti af björgunarlaununum skuli ganga til skipsins. Það er ekki nema rétt, að nokkur hluti björgunarlaunanna gangi til skipsins, þegar lagt er í sérstakan kostnað til að gera skipið fært um að bjarga, en ég sé enga ástæðu til að hafa þann hluta eins stóran, ef skipið er ekki útbúið með björgunartækjum. þá finnst mér rétt, að skipið fái ekki neitt, þó að hér eigi samt ekki að ganga svo langt. Hin skiptingin er fullkomlega réttmæt, að þeir menn, sem fara í björgunarbátunum frá varðskipunum og hætta lífi sínu til að bjarga öðrum mönnum eða skipum, eigi rétt til meiri björgunarlauna en þeir, sem aldrei leggja sig í slíka hættu, eins og t. d. matsveinarnir, sem eru alltaf kyrrir um borð í þessum góðu skipum og eru því ekki í nærri því eins mikilli hættu og þeir, sem beinlínis starfa að björguninni. Þetta viðurkenndi hv. frsm. líka, en vildi láta það bíða þangað til á næsta þingi að lagfæra þetta: En mér virðist það skynsamlegt að nota tækifærið nú, þegar þetta mál er hér til umr., og það þarf að því er virðist ekkert að tefjast við þá breyt.

Hv. þm. gaf í skyn, að þessi till. væri gölluð, og mundi það koma í ljós í framkvæmdinni við skiptingu björgunarlaunanna. Ég get nú ekki annað séð en að yfirleitt verði auðvelt að ákveða, hvernig slík skipti fara fram. Það á að vera hægt að fá umsögn yfirmanns skipsins, hverjir þeir séu, sem sérstaklega hafa lagt sig í hættu til að framkvæma einhverja björgun. Ef svo er sem mig grunar, að hv. frsm. telji þetta einu gallana á þessu fyrirkomulagi, þá verð ég að segja, að það er ekki stórvægilegt, sem hann hefir út á till. mína að setja. Þetta hlýtur að verða auðvelt í framkvæmdinni, en er á hinn bóginn miklu réttlátara en þau ákvæði, sem nú eru í 4. gr. frv.