07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

218. mál, varðskip landsins

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það eru aðeins örfá orð til að leiðrétta misskilning, sem mér virtist koma fram hjá hv. 2. landsk. Hann taldi, að ég hefði aðallega haft það á móti 3. brtt. hans, að það væri orðið svo áliðið þingtímans, að ef brtt. yrðu samþ., þá gæti það orðið til þess, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Þetta er misskilningur, ef ekki annað lakara, því að eins og allir heyrðu, taldi ég þetta aðeins aukaástæðu. Ég sagði, að með 3. brtt. væri gert ráð fyrir réttlátari skiptingu björgunarlauna, en þessi skipting væri samt svo gölluð, að vafasamt væri, hvort rétt væri að samþ. brtt. Höfuðgallinn væri sá, að hætt væri við, að þetta gæti valdið misklíð, ef ekki misrétti, því að hér er það skipstjórinn, sem verður að meta það í hvert skipti, hverjir hafa lagt sig í hættu.

Svo eru fleiri gallar á brtt. hún gerir sem sé ráð fyrir, að skiptin skuli alltaf fara svona fram. Nú getur það oft komið fyrir, að skipið framkvæmi björgun án þess að neinn af skipshöfninni leggi sig neitt sérstaklega í hættu. Það er e. t. v. sjaldgæfara, en getur þó vel komið fyrir. Hvernig á þá að skipta? Í brtt. segir svo, að þeir skuli ávallt fá mestan hluta björgunarlaunanna, sem hafa lagt sig í mesta hættu. þetta geri ég ráð fyrir, að geti valdið misklíð.

Ég geng þess ekki dulinn, að þótt hér sé um réttlátari skiptingu að ræða, þá verður að finna betra form fyrir hana en hér er gert, en það tel ég óvíst, að takist á þessu þingi. Þess vegna vil ég ekki setja þetta ákvæði í frv. heldur láta reynsluna skera úr, hvort horft er á að tilgreina frekar en gert er í frv., hvernig björgunarlaununum skuli skipta. Því verður ekki neitað, að það er óheppilegt að gefa skipstjóra allt valdið í þessum efnum, og því væri ekki ótrúlegt, ef þessi brtt. væri samþ. nú, að þá yrði undir eins á næsta þingi að breyta henni aftur, vegna ónógs undirbúnings, — og hvaða gagn er þá að því að fara að samþ. hana nú?