18.04.1932
Efri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

351. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Það væri e.t.v. rétt, eins og hv. 2. þm. Eyf. stakk upp á, að taka málið út af dagskrá að þessu sinni. E. t. v. væri það líka rétt vegna till. hv. 1. þm. Reykv. Ekki af því, að það sé ekki, eins og hann sagði, nægilega sannað, að óhugsandi sé að neita manni um borgararétt, sem hefir verið hér góður borgari í rúm 40 ár, heldur af því, að réttara mun að ganga frá ýmsum formsatriðum áður en málið fer úr d. En ég vildi skýra hv. d. frá því, eftir ósk skrifstofustjórans í 1. skrifstofu í stjórnarráðinu, um það orðalag sem hér um ræðir og tíðkast hefir á seinni árum, að ríkisborgararétturinn sé bundinn því skilyrði, „að þeir áður en ár er liðið frá því að lög þessi öðlast gildi, samþ fyrir dómsmrh., að þeir eigi ekki ríkisborgararétt. þar, sem þeir eru fæddir“, að — skrifstofustjóri segir, að þetta sé í raun og veru óframkvæmanlegt. Menn geti ekki sannað þetta. Er það mjög líklegt, að erfitt yrði fyrir mann þann, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á, að sanna nokkuð um ríkisborgararétt sinn, þar sem svo langt er síðan hann yfirgaf ættland sitt. Skrifstofustjórinn, Guðm. Sveinbjörnsson, álítur, að slík ákvæði ættu ekki að gilda gagnvart neinum öðrum en þjóðverjum, því að þeirra löggjöf sé þannig háttað, að nauðsynlegt sé að skera úr þessu atriði sökum herskyldu ungra manna þar í landi. En Guðm. Sveinbjörnsson álítur, að í mögrum tilfellum sé ómögulegt fyrir stjórnarráðið að framkvæma þetta, vegna þess, að ónóg gögn séu fyrir hendi til endanlegs úrskurðar.

Ég vildi aðeins skýra d. frá þessu, ef henni þætti ástæða til að gera þetta rýmra. Annars getur vel farið svo, að dómsmálaráðuneytið geti ekki fullnægt kröfum Alþ., ef hlutaðeigendur geta ekki fært þessar sannanir fram.