20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

265. mál, sala á Reykjatanga

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Eftir að allshn. hefir rækilega athugað frv. þetta, vill hún mæla með því, að það verði samþ. Að vísu hefir einn hv. nm. ritað undir nál. með fyrirvara, en ég hygg, að fyrirvarinn hafi ekki þá þýðingu, að hann ætli beint að leggjast á móti frv., heldur vilji hann gera aths. við það í ræðu. En ég held, að hann sé ekki viðstaddur nú.

Þegar þjóðjörðin Reykir var seld árið 1914, var svo ákveðið af ríkisstj., að undanskilinn skyldi sölunni Reykjatangi. Á tanganum er heit laug, og mun tilætlunin hafa verið sú, að þar rísi síðar upp skóli eða önnur opinber bygging. Þessi hugsjón hefir nú rætzt, því fyrir tveimur árum var þar reistur héraðsskóli fyrir tvær sýslur, og hefir hann nú starfað í tvo vetur. Héraðsskólinn er ábúandi þessa lands, og er það ekki óeðlilegt, þó ábúandi vilji fá kaupréttinn.

Þetta landsvæði er alls um 20 hektarar, eða svo lítið, sem nýbýlisland til sveita má minnst vera. Landið er með öllu óræktað, þar eru ekki slægjur og ekki skógur. Eftir því, sem mér er tjáð, er þetta þýft móaland, sem mun vera allvel fallið til ræktunar að ofanverðu, eða í grennd við skólann, en er dregur til sjávar, verður það sendið og jarðvegur þunnur og mundi bezt fallið til leikvalla, þó með nokkurri sléttun. Eftir lýsingum eru ekki aðrir kostir við þetta land en laugin. Hún er 86° heit, en ekki veit ég, hvað hún er vatnsmikil, en a. m. k. nægir hún til að hita skólann.

Reykjatangi er austanvert við Hrútafjörðinn um 4 km. fyrir utan Borðeyri. Bæir eru engir nálægir, nema Reykir, um 1 km. frá skólanum.

Það kom til tals í n., hvort ekki væri rétt að bera fram brtt. við frv., þess efnis að skylda skólann til að láta af höndum heitt vatn, ef önnur opinber bygging skyldi rísa þarna upp og hann mætti missa það, sér að skaðlausu. Það varð þó ekki af því. Þótti nægilegt að taka þetta fram við framsögu málsins, og vil ég hér með f. h. n. skora á hv. flm. að lýsa því hér með opinberlega yfir, hvort skólinn sé fús til að láta endurgjaldslaust af höndum heitt vatn til opinberra bygginga, sem síðar kynnu að risa þarna, svo framarlega sem heita vatnið nægir til þess. Þar sem skólinn fær þetta heita vatn fyrir lítið, ef af sölunni verður, er réttmætt, að hann láti það af því af höndum aftur, sem hann má án vera, ef hið opinbera þarf á því að halda síðar.

Annað atriði, sem kom til tals í n., var það, að skólinn notaði ekki þá aðstöðu, er hann fær við kaupin, á þann hátt, að hann reikni heita vatnið sem framlag frá sjálfum sér móti ríkisstyrknum. Það taldi n. óhæfu og raunar með öllu ólöglegt. Ég hefi orðfært þetta við hv. flm., og vil ég óska opinberlegrar yfirlýsingar hans um þetta atriði. Því að hér er um töluvert mikilsvert mál að ræða.

En eins og ég hefi áður skýrt frá, þá er n. meðmælt sölunni. Það fer vel á, að landið sé í eigu skólans sem sjálfseignarstofnunar, er sýslubúar og ungmennafélagar hafa komið upp af miklum myndarskap. Með því móti má vona, að þessi staður verði ræktaður og prýddur.

Ég verð að játa, að ég er of ókunnugur staðháttum þarna nyrðra til að geta gefið ýtarlegar upplýsingar. En ég veit, að hv. flm. getur bætt það upp, ef þurfa þykir. Ég vil aðeins leyfa mér f. h. allshn. að óska þess, að málið verði samþ. til 3. umr.