20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

265. mál, sala á Reykjatanga

Hannes Jónsson:

Ég vil þakka hv. allshn. góðar undirtektir, og út af orðum hv. frsm. skal ég taka þetta fram:

F. h. skólanefndar lýsi ég yfir því, að skólinn mun ekki nota verðmæti heita vatnsins til að reikna á móti ríkissjóðsframlaginu. Ekki mun skólinn heldur leggja stein í gotu þess, að hver sú opinber bygging, er þarna kynni að verða reist, fengi afnot heita vatnsins að því leyti, sem skólinn sjálfur þarf ekki að nota það.

Að þetta land er ennþá í eigu ríkisins, mun aðallega stafa af því, að árið 1893 var löggilt höfn á þessum stað. Þegar beðið var um sölu á jörðinni árið 1912 og sýslunefnd mælti með sölunni, synjaði stj. hennar og taldi sig ekki mega selja hana, vegna hinnar löggiltu hafnar. Það var eina mótbáran gegn sölunni, og það var því löggilding hafnarinnar, sem bjargaði því, að landið er ennþá í eigu hins opinbera.

Þessi löggilding er annars einkennilega til orðin. Þegar verzlun hófst á Hvammstanga, óttuðust kaupmenn á Borðeyri samkeppnina þaðan og datt þá í hug að koma upp útibúum á Reykjatanga. Varð þó ekki úr því, að sá tilgangur næðist, og verzlunin við Hvammstanga jókst og 1895 var löggilt höfn þar. Síðan hefir ekki komið til mála, að verzlun legðist niður þar.

Möguleikarnir fyrir því, að Reykjatangi verði miðstöð héraðsins, eru ekki miklir. Læknirinn situr á Hvammstanga. Þar er búið að reisa bæði spítala og læknisbústað, og eru engar líkur til þess, að læknissetrið verði fært. Hvammstangi liggur líka nær miðju héraðsins, og er hægari sókn þangað. Aftur á móti er eðlilegt, að Reykjatangi verði miðstöð héraðeins í skólamálum; og það getur ekki orðið héraðsskólanum nema styrkur, að aðrar skólastofnanir, t. d. húsmæðraskóli, rísi þar upp. Það mundi gleðja mig og alla Húnvetninga, og skólanefnd héraðsskólans mun vissulega ekki bregða fæti fyrir það.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, málið er einfalt og þær upplýsingar fram komnar, sem unnt er að gefa.