23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

1. mál, fjárlög 1933

Jón Þorláksson:

ég á hér 4 smábrtt. á þskj. 788, sem ég vil leyfa mér að gera ofurlitla grein fyrir. Vona ég, að hv. d. líti velvildaraugum á þessar brtt. og samþ. þær, ef svo giftusamlega skyldi til takast, að frv. þetta verði einhverntíma gert að lögum. Fyrsta brtt. mín er sú, að Sigurði Sigurðssyni frá Húnstöðum verði veittar 2000 kr. til þess að ljúka framhaldsnámi í læknisfræði. Hér liggur nú fyrir umsögn um þennan mann. Hann lauk prófi við læknadeild háskólans hér sumarið 1929, með mjög hárri 1. eink. eða fjórðu hæstu eink., sem þá hafði verið tekin í læknisfræði við háskólann hér. Samsumars fór hann til útlanda og hefir stundað framhaldsnám við þrjá spítala í Danmörku. Hefir hann ágæt meðmæli frá þeim öllum, er honum hafa kennt, fyrir kunnáttu, áhuga og prýðilega framgöngu. Enda ber öllum saman um það, sem til hans þekkja, að hann muni ekki koma fram öðruvísi en landinu til sóma, hvar sem hann fer. Hann hefir ekki notið opinbers styrks annars en lítilsháttar úr sáttmálasjóði 1930. Þá fékk hann 2000 kr. — Nú sækir hann um 2000 kr. styrk til þingsins. Vil ég til meðmæla því, að honum verði af hálfu Íslands veittur þessi atbeini, geta þess, að hann stundar þá lækningagrein, sem beinist gegn þeim sjúkdómi, sem mestum usla hefir valdið hér á landi hin síðari ár, en það er berklaveikin. Sá sjúkdómur er svo alvarlegs eðlis og til varnar honum er veitt svo mikið fé, að það ætti öllum að vera ljóst, að nauðsynlegt er, að á hverjum tíma séu hér þeir menn, sem hafi sem fyllsta og nýjasta þekkingu í þeirri grein. Ég þykist vita, að um árlegar framfarir sé að ræða í meðferð lækna á þeim sjúkdómi og lækningu hans. Er því nauðsynlegt, að völ sé á vel hæfum mönnum, sem haft hafa tækifæri til að fylgjast vel með á öllum sviðum. En slík tækifæri veita spítalar hinna stærri þjóða, þar sem mannfjöldinn er nógur til þess, að fyrir komi öll þau viðfangsefni, sem þessum sjúkdómi eru samfara. hér er um að ræða sanngirniskröfu frá hans hálfu. Og ég held, að þessari upphæð væri vel varið honum til handa, frá sjónarmiði okkar lands og þarfa þess.

Þá er næst VI. brtt. á þskj. 788, en það er nýr liður til Ágústs Sigurðssonar, til tungumálanáms, 1200 kr. —

þessi maður er stúdent frá menntaskólanum hér, en stundar nú tungumálanám við háskólann í Kaupmannahöfn. Ætla ég, að það sé danska og sænska. er hann stundar sem vísindagrein. — Hann hefir góð meðmæli, en hefir einskis styrks notið hér heiman að. En nokkurs styrks hefir hann notið frá þeirri deild sáttmalasjóðs, sem úthlutað er styrkjum úr í Kaupmannahöfn. Nú er svo ástatt, að faðir þessa manns er nýlega látinn, en það var séra Sigurður Jónsson á Lundi. En við fráfall föður síns hefir hann misst há einu fjarhagsstoð, er hann hafði. En nú hér svo til, að Lundarprestakall er lagt niður og sameinað Hestþingum. Sparast því landinu greiðslu á einum prestslaunum við fráfall hans. Móðir Ágústs er fátæk eins og venja er um prestsekkjur. Mér finnst því sanngjarnt, að hann fái þennan styrk vegna aðstöðu sinnar og vegna þess, að honum hefir enginn styrkur verið veittur aður. Að því er þá fræðigrein snertir, er hann leggur fyrir sig, þá er hann víst sá eini íslenzki námsmaður, er leggur fyrir sig mál Norðurlanda sem vísindagrein. Og í því efni er hér áreiðanlega svigrúm fyrir framfarir frá því sem er og áður hefir verið. Hér ætti því að vera nóg verkefni fyrir kennara í þessari grein. Mér er kunnugt um, að hann hefir haft ofan af fyrir sér með kennslu og hefir fengið afburðagóðan vitnisburð hjá nemendum sínum. Hér ætti því að vera að ræða um álitlegan kennara, ef hann fær fjárhagslega aðstoð til að ljúka námi.

Þá er næsta till., er ég flyt, IIV. brtt. á sama þskj. Er hún í tveimur liðum. Sá fyrri leggur til, að veittar séu 5000 kr. til að ljúka við uppdrætti og áætlanir af mælingum heim, sem framkvæmdar hafa verið á vatnasvæði Þverár og Markarfljós, sem liggur alla leið ofan frá fjalli og niður að Landeyjasandi og nær yfir Landeyjarnar, stærsta láglendið, sem til er hér á landi, stærra en Flóinn, sem er hið næststærsta. Á síðari árum hefir miklu fé verið varið til þess að mæla þetta landsvæði upp. Er það gert í tvennskonar tilgangi. Annarsvegar til þess að fá ábyggilega undirstöðu um það, á hvern hátt hægt sé að hindra skemmdarrennsli þessara vatnsfalla og fullnægja samgönguþörfinni með brúargerðum yfir vötnin. Hinsvegar eiga þessar mælingar að leiða það í ljós, hvor leiðin sé tiltækilegri til ræktunar fyrir hvert svæði fyrir sig, sú að ræsa jörðina fram með túnrækt fyrir augum, eða að ræsa fram að nokkru leyti og veita á landið úr jökulám heim, er þarna falla. Og að því er þann hluta Landeyja snertir, þar sem byggðin er, þá er talið mjög vafasamt, hvor leiðin sé heppilegri. Að þessum mælingum hefir verið unnið í 3 ár og er framkvæmd þeirra svo langt komið, að ekki er eftir nema eins árs vinna til að ljúka við mælingar og uppdrætti þessa svæðis. Nú hefir burtfelling þessarar fjárveitingar orðið eitt af því marga, sem lent hefir í niðurskurði þeim, sem nauðsynlegur hefir þótt og þola verður vegna hins örðuga fjárhagsástands, sem nú ríkir. En mér finnst þó, þar sem hér er um ræktunarskilyrði að ræða á stærsta láglendi landsins, að þá megi ekki svo hart að ganga að láta slíka rannsókn niður falla, eða að henni sé frestað. Mér finnst því rétt, að þessari rannsókn sé lokið, svo réttar ákvarðanir sé hægt að taka, þegar um hægist, þó lítið verði máske hægt að gera um sinn, og hefi ég því borið þetta fram. — Síðari liðurinn er smávægileg upphæð, 300. kr., til Eggerts Magnússonar, til dýralækninga. — Þeir, sem kunnugir eru, vita það, að þessi maður hefir stundað dýralækningar með góðum árangri í Dalasýslu. Ég þarf ekki mörgum orðum að þessu að eyða. Aðeins mæla hið bezta með því, að þingið veiti þennan litla styrk til viðbótar eða uppfyllingar því, sem annars er ætlað til dýralækninga, en það eru 16575 kr. Verður þá upphæð sú, ef brtt. mín verður samþ., 16875 kr.