23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1933

Jakob Möller [óyfirl.]:

ég á hér 4 brtt. á þskj. 788. Hefi ég ekki mikið um þær að segja nú, því 3 þeirra voru bornar fram við 2. umr. og voru þá í líku formi og þær eru nú. Ég vildi með því að bera þær fram gefa hv. d. betra tækifæri til að átta sig á þessum tillögum. Fyrst er VII. brtt., um námsstyrk til Jóns Gizurarsonar. Ég vil aðeins minna hv. þd. á, að síðasta ring veitti þessum manni nokkurn styrk. Hljóta allir að sjá, að ófært er með öllu að þingið kippi alveg að sér hendinni eftir Í ár og geri þar með námið ónýtt fyrir þessum manni. Er mér með öllu óskiljanlegt, hvers vegna þessi till. mín var ekki samþ. við 2. umr., og vona ég, að bætt verði úr því nú.

Næst er XII. brtt., útgáfa kennslubókar í ítölsku. Ég færði rök fyrir því við 2. umr., hvers vegna rétt væri að veita þennan styrk. Ég hefi nú breytt þessari till. svo, að styrkurinn greiðist á tveim árum, 1000 kr. hvort árið. Ég þarf ekki að lýsa þeirri nauðsyn, sem á því er, að mönnum hér sé gert sem hægast að nema Suðurlandamál. Og því er ekki hægt að neita, að þægilegra og auðveldara er að nota til þess náms kennslubaekur á sínu eigin móðurmáli.

Þá er 3. brtt. mín, sem ég flutti einnig við 2. umr., en tók þá aftur af ástæðum, er ég lok fram þá. Það er XVII. brtt. og er um, að elliheimilinu Grund séu veittar kr. 5000. Nú hafa verið samþ. hér 1000 kr. fjárv. til hvors elliheimilanna á Seyðisfirði og Ísafirði. Og þar sem hv. fjvn. lét þá skoðun sína í ljós við 2. umr., að ef það yrði gert, þá væri einnig sjálfsagt að láta elliheimilið Grund fá tilsvarandi fjárv., þá vona ég, að ekki standi neitt á því, að þessi brtt. verði samþ. Þess hér að gæta, að elliheimilið hér er fyrir allt landið, en hin munu frekar vera takmörkuð við bæjarfélögin þar sem þau eru. Og þegar þess er líka gætt, að elliheimilið hér er miklu stærra en hin, þá er ekki of frekt farið í sakirnar, þó beðið sé um fimmfalt hærri styrk en veittur er til smáhælanna. — Vænti ég, að hv. fjvn. mæli með því, að þessi brtt. verði samþ.

Þá á ég eftir eina brtt. undir rómv. XIX, um að hækka eftirlaun Böðvars Jónssonar pósts úr 300 kr. upp í 400 kr. Maður sá, sem hér er um að ræða, er farlama gamalmenni, en þessi 100 kr. hækkun á eftirlaunum hans hefir þá þýðingu, að þá er von um, að hann geti komizt af án hjálpar annarra, en annars ekki. Þegar því þannig stendur á er það samvizkuspursmál fyrir þingið að neita þessu aldurhnigna gamalmenni um þessa litlu fjárhæð, þegar líka þess er ennfremur gætt, að maður þessi hefir slitið kröftum sínum út í þjónustu landsins. Sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta, enda fátt manna viðstatt til þess að hlýða á mál mitt.