23.03.1932
Efri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

239. mál, sala á hluta heimalands Auðkúlu

Flm. (Guðmundur Ólafsson):

Grg., sem fylgir þessu frv. er stutt, en skýr, og ég vil aðeins bæta nokkrum orðum við það, sem í henni stendur, til að skýra málið nokkru betur.

Fyrst vil ég taka það fram, að þótt hér sé farið fram á að selja nokkuð stórt stykki af beitilandi Auðkúlu, þá er af svo miklu að taka, að nóg er eftir, því að jörðin hefir svo geysistórt beitiland, að hún hefir eftir allt það land, sem henni er frekast fært að nota, eins og búnaðarhættir manna eru nú orðnir. Land það, sem hér er farið fram á að selt verði, hefir ekki um tugi ára orðið ábúandanum á Auðkúlu til nokkurra nytja, vegna legu þess, nema hvað hann mun öðruhverju hafa fengið dálitla leigu fyrir sellandið, en aldrei neitt fyrir það stykki, sem liggur uppi á hálsinum, en það hefir þó allt af verið notað af bæjum þeim, sem næst liggja.

Núv. ábúandi á Auðkúlu, sóknarpresturinn, sem líka er prófastur, hefir mælt með sölu á landi þessu, en sökum óhappa hefi ég þau gögn ekki við hendina nú, en mun að sjálfsögðu útvega þau með símskeyti frá prófasti, svo að n. sú, sem málið fær til meðferðar, geti kynnt sér þau.

Það mun sennilega vera réttara að bera mál þetta undir biskup. Ég hefi þó ekki gert það. Vænti ég því, að n. fái till. hans, þó að ég telji ekki líklegt, að hann sjái ástæðu til þess að mæla á móti því, þar sem það virðist liggja beint við að selja landið, fá verðmæti fyrir það, sem gæfi prestakallinu árlegar tekjur í vöxtum, í stað þess að fá aðeins leigu fyrir nokkurn hluta þess við og við.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið, en legg til, að því verði að umr. lokinni vísað til landbn., því að ég sé ekki annað en að það sé landbúnaðarmál og eigi því eins vel eða fremur heima þar en í allshn.