09.04.1932
Efri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

239. mál, sala á hluta heimalands Auðkúlu

Jón Baldvinsson:

Í umr. um þetta mál minnist ég ekki að hafa heyrt færðar fram neinar ástæður, sem geri það nauðsynlegt að selja land það, sem frv. ræðir um. Ég minnist ekki heldur að hafa heyrt getið um það, hver kaupandinn sé. Mér þykir ótrúlegt, að verði það samþ. að selja landið, sé það gert til þess, að ríkisstj. geti selt það hverjum sem hafa vill á eftir, mér þykir líklegt, að bak við frv. sé einhver ákveðin ósk frá tilteknum mönnum um að kaupa landið. En nú álít ég, að ekki beri að selja lönd frá ríkinu, nema það sé nauðsynlegt fyrir viðkomandi sveitarfélag að fá landið til ráðstöfunar. Öðruvísi er það ekki nauðsynlegt að selja slíkt land, heldur leigja það. Þó hefir þetta verið gert, og ég er því fylgjandi, að kaupstaðir geti fengið slík lönd keypt, þar sem þau geta komið að gagni fyrir marga menn. En mér skilst, að um slíkt sé ekki að ræða hér.

Það er eins og vant er þegar verið er að selja slík lönd, að þá eru þau kölluð lítils virði, og nú segir flm., að presturinn á Auðkúlu hafi lítil not af landinu. En það á að bæta honum missinn upp við söluna. Mér sýnist því eftir öllu, sem ég hefi heyrt og fram hefir komið í málinu, að engin nauðsyn reki til sölunnar. má vera, að hv. flm. hafi gert grein fyrir þessu í framsögu málsins, en það hefir þá alveg farið fram hjá mér. Væri hér um að ræða að selja land, sem virðist vera eingöngu beitiland, til hreppsins, en ekki einstakra manna, þá gæti vel verið, að þessi sala mætti fara fram. Annars skilst mér, að margir séu komnir á þá skoðun, að ríkinu beri ekki að farga löndum þeim, sem það ennþá á eftir. — ég get því ekki greitt atkv. með frv. Ég sé, að hæstv. forseti er fluttur í ræðustól til þess að gefa upplýsingar í málinu. Ef eitthvað hefir farið framhjá mér, sem áður hefir komið fram í málinu, þá fæ ég að heyra það nú.