23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

1. mál, fjárlög 1933

Jón Jónsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram nokkrar brtt. við fjárlagafrv. að þessu sinni og skal nú skýra þær með örfáum orðum. Eru þessar brtt. mínar á þskj. 795.

1. brtt. mín, II, er í tveim liðum, og fjallar fyrri liðurinn um það, að 5. liður 12. gr. frv. falli niður, en sá liður hefir að geyma 1000 kr. styrkveitingu til Lúðvígs Nordals læknis á Eyrarbakka, til að sinna læknisstórfum í Árnessýslu. Hefi ég satt að segja ekki orðið var við nein gild rök fyrir þessari fjárveitingu. Mér er ekki kunnugt um það, að Eyrarbakkahérað sé sérstaklega stórt eða erfitt, og sízt mun það fólksfleira en ýms önnur læknisheruð á landinu. Það er og vitanlegt, að á þessu láglendissvæði, Ölfusinu og Flóanum, eru samgöngur orðnar mjög greiðar, og jafnvel bílfært um mestallt þetta svæði. Ég sé því enga ástæðu til að fara að styrkja sérstakan lækni til lækninga í þessu héraði auk sjálfs héraðslæknisins, enda mundi það draga þann dilk á eftir sér, að aðrir praktiserandi læknar færu fram á það sama. Vil ég t. d. benda á það, að hér í d. á sæti einn praktiserandi læknir í fjölmennu héraði og mundi ekki vera ástæða til að synja honum um slíkan styrk, ef hann færi fram á það og inn á þessa braut væri farið á annað borð: ég tel því sjálfsagt, að þessi liður verði felldur niður, enda geri ég ráð fyrir, að hann hafi komizt inn í frv. í Nd. af fljótfærni.

Síðari liður þessarar till. minnar er þessum óskyldur, þess efnis, að felldur verði niður sá námsstyrkur, sem menntamálaráðinu er ætlað að úthluta. Þessi liður var settur inn í fjárl. 1929, að því er mig minnir, og átti hann að vera heildarupphæð til styrktar þeim einstaklingum, sem nám stunda erlendis yfir stuttan tíma, og var meiningin þannig að losa þingið við þann vanda að gera upp á milli þeirra mörgu, sem árlega sækja um styrk í þessu skyni, enda komið í ljós, að veiting þessara styrkja var meira komin undir því, að viðkomandi ætti öfluga fylgismenn í þinginu heldur en þetta fari eingöngu eftir verðleikum, eins og vera ætti. Þess er og heldur varla að vænta, að þingið hafi aðstöðu til að dæma um verðleika manna í þessum efnum, og því var þessi leið tekin, eins og ég áður sagði, að fela menntamálaráðinu úthlutun þessara styrkja, svo að þingið þannig mætti losna við allt kvabb út af þessu. En reynslan hefir þó hinsvegar orðið sú, að þinginu berast árlega fleiri eða færri slíkar umsóknir um námsstyrk erlendis, og alltaf fer svo, að fleiri eða færri einstakir persónustyrkir í þessu skyni komast inn í fjárl. auk aðalstyrksins. Fæ ég ekki séð, að við höfum ráð á því nú á þessum erfiðu tímum að veita hærri upphæð til utanfara en undanfarið, og þar sem allmargir utanfararstyrkir eru nú þegar komnir í fjárl. og búast má við, að eitthvað bætist hér við enn, eftir brtt. að dæma, legg ég til, að sá námsstyrkur, sem ætlaður hefir verið menntamálaráðinu til úthlutunar, verði felldur niður. Eins og ég áður sagði, hefir tilgangurinn með þessari ráðstöfun ekki náðst, sem ég verð að telja mjög illa farið, en hinsvegar sparast 8000 kr. með þessu móti og vil ég því eindregið skora á hv. d. að samþ. þessa brtt. mína.

3. brtt. mín fjallar um það, að Jóni Ófeigssyni yfirkennara verði veittar 2500 kr. (til vara 2000 kr.), til útgáfu þýzkíslenzkrar orðabókar. Ætlast ég til, að þetta sé fyrri greiðsla af tveim. Stóðst ég ekki freistinguna til að flytja þessa till. Hefi ég svo að segja í 30 ár, síðan ég fyrst byrjaði á þýzkunámi, haft mikla löngun til að leggja því lið, að slík bók sein þessi kæmist út. Þýzkar bókmenntir eru mjög auðugar, bæði af frumsömdum verkum og þýðingum á helztu verkum heimsbókmenntanna, og auk þessa hafa þeir, sem þýzku kunna, aðgang að þessum verkum í ódýrum útgáfum. Þýzkunám hefir og farið hér mjög í vöxt í seinni tíð, sem ég tel mjög vel farið, og er okkur það í senn metnaðar- og nauðsynjamál að eignast vandaða þýzka orðabók. Vill og líka svo vel til, að við eigum mann, sem sérstaklega hefir lagt stund á þýzka tungu og þýzk fræði, þar sem er Jón Ófeigsson yfirkennari. Hefir hann kennt þýzku við menntaskólann hér um langan aldur og jafnframt unnið að samningu slíkrar orðabókar, eftir því, sem honum hefir unnizt tími til. Ætla ég, að það hafi verið fyrir 20 árum, að Jóni Ófeigssyni fyrst var veittur styrkur til að vinna að þessu verki, en hann tafðist frá því vegna starfs síns við aðra orðabók, sem komin er út fyrir nokkrum árum. Var það hin mikla orðabók Sigfúsar Blöndals, sem er eitt með mestu bókmenntaafrekum íslenzkum, en Jón Ófeigsson var einn af aðalhjálparmönnum Sigfúsar Blöndals við samningu þessarar orðabókar, og hefir e. t. v. ekki lagt hvað minnstan skerf til hennar. Við þetta starf sitt við hina miklu íslenzk-dönsku orðabók hefir Jón Ófeigsson fengið sérstaka æfingu og þekkingu á orðabókargerð, e. t. v. meiri en nokkur annar núlifandi maður, íslenzkur, og hefir hann því hin beztu skilyrði til að leysa þetta verk vel af hendi, og teldi ég því illa farið, ef þessir miklu kraftar færu forgörðum. Jón Ófeigsson sótti um styrk til þingsins í þessu skyni fyrir nokkrum árum. Taldi hann sig þá þurfa allmikið fé til að koma þessu verki áleiðis, en nú hefir svo um skipazt, jafnvel á þessum síðustu dögum, að bókaverzlun ein hér í bænum hefir dregizt á að kosta útgáfuna, ef lítilsháttar styrkur fengist til hennar eða sem svarar 5000 kr. Gerir Jón Ófeigsson ráð fyrir því, að hann muni geta haft handritið til að sumri, og væri þá hægt að byrja á prentun bókarinnar, og þar sem ekki þarf að efast um, að þetta verður merkilegt rit, þegar það kemur út, vona ég, að hv. d. sjái sér fært að samþ. þessa brtt. mína.

Loks flyt ég till. um það, að stj. verði heimilað að endurgreiða Boga Brynjólfssyni sýslumanni úr lífeyrissjóði embættismanna það fé, sem hann hefir greitt í sjóðinn, ef hann lætur af embætti og afsalar sér rétti til eftirlauna. Það stendur svo á um þennan mann, að hann hefir gegnt sýslumannsstörfum í 20 ár með mestu prýði, en er nú orðinn svo heilsulítill, að læknar telja honum nauðsynlegt að láta af embætti, a. m. k. um nokkurn tíma, og hefir hann því sótt um lausn frá embætti með eftirlaunum, en stj. hefir þó ekki séð sér fært að taka ákvörðun í þessu efni enn, meðan ekki er útséð um, að hann fái heilsu aftur og geti gegnt starfi sínu áfram. Mun hann því að líkindum segja af sér, hvort sem hann fær eftirlaun eða ekki, en hinsvegar er ekki ósanngjarnt, að hann fái endurgreitt það, sem hann hefir greitt í lífeyrissjóð embættismanna, auðvitað þó án vaxta, ef hann afsalar sér eftirlaununum, og því hefi Ég borið þessa till. fram. Eru nokkur fordæmi fyrir þessu, og tel ég vel sloppið fyrir ríkissjóð, ef þetta er gert, enda býst ég við, að þessi sýslumaður eigi ekki síður rétt til eftirlauna en aðrir. Ég vona því, að d. taki þessari till. vel.