09.04.1932
Efri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

239. mál, sala á hluta heimalands Auðkúlu

Jón Baldvinsson:

Ég get ekki sagt, að ég hafi sannfærzt við ræðu hæstv. forseta um nauðsynina á að selja rétta land. Hann gerði nánari grein fyrir því, hvers vegna frv. væri fram komið, og það er vegna þess, að nágrannabóndinn nytjar rétta land, en vill fá yfirráð yfir því. Mér finnst, að þetta megi þá vera svo sem nú er. Það er kunnugt, að í svona árferði er óhentugt að selja eignir. Ég geri ekki ráð fyrir, þó að landið verði selt, að það verði neinir peningar fyrir ríkissjóð. Þetta er dálítið svipað og þegar verið var að selja lönd undan Mosfellsprestakalli, heiðalöndin. Ég mun greiða atkv. móti frv., því að ég sé ekki neina nauðsyn bera til sölunnar. Ef landið kemur að svona miklum notum fyrir bóndann, sem vill kaupa það, þá getur það einnig komið að notum fyrir Auðkúluprestinn, ef hann kostar til þess að girða landið, eins og gert er ráð fyrir, að hinn nýi kaupandi muni gera. Viðvíkjandi verðinu, þá skildi ég ekki alveg, hvað það átti að vera hátt, en ég gat tekið það svo, að presturinn gæti ekki fengið meira en það, sem leigunni nemur. En ég geri ráð fyrir, að hv. flm. hafi meint það þannig, að leigan yrði lögð til grundvallar fyrir söluverðinu og presturinn ætti að fá nokkurn hluta þess. En það er ekki talað um neitt ákveðið verð fyrir landið. Það fer auðvitað eftir mati, en við höfum enga hugmynd um, hvernig verðið gæti orðið.