12.04.1932
Efri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

156. mál, barnavernd

Jón Baldvinsson:

Við 1. umr. þessa frv. gerði ég við það nokkrar smávegis aths., og hefi litlu við það að bæta, enda hefir hv. n. tekið sumt af því til athugunar, t. d. það, sem ég benti á um óþjált orðalag. Ég minntist þá m. a. á, að ég teldi ekki rétt að binda kosningu manna í barnaverndarnefndir við tiltekna menn, en hv. n. hefir ekkert tillit tekið til þess, nema hvað snertir Reykjavík. N. í Rvík á að vera skipuð 7 mönnum, sem bæjarstj. kýs með hlutfallskosningum. Ég vil skjóta því til hv. frsm. n., hvort þetta fyrirkomulag mætti ekki gilda líka í öðrum kaupstoðum. Ekki þyrfti nema að bæta orðunum „Utan kaupstaða“, framan við 2. málsgr. 2. gr. frv., svo að hún byrjaði á þessa leið: „Utan kaupstaða eru barnaskólastjóri og prestur sjálfkjörnir“ o. s. frv. — Það er hreint ekki sagt, að barnaskólastjóri og prestur séu alltaf heppilegustu mennirnir í slíka nefnd. Í kaupstöðum getur oft verið að ræða ummenn, sem hafa sérstaka kunnáttu og áhuga fyrir þessum málum, og þarf þá að vera frjálst um að kjósa þá í nefndina. Starf þeirra held ég, að verði yfirleitt mikið, og því sérstök þörf á að vanda mannavalið sem bezt. Þó að bæði prestur og skólastjóri geti verið allra beztu menn, tel ég samt ekki rétt að einskorða kosningu í barnaverndarnefnd við þá. Aftur á móti álít ég vel raðið, að ákveðin skuli vera viss tala kvenna, sem skuli verða í nefndunum. Góðar konur eru áreiðanlega bezt fallnar til slíkra starfa og hafa oftast nær meiri áhuga fyrir þeim en karlmenn.

Og þó að ákveðið sé í lög unum, að n. skuli eftir einhverjum vissum hlutföllum skipaðar konum, er það ekki líkt því eins þröngt og að binda það, að sérstakir embættismenn séu sjálfkjörnir í þær.

Ég skýt þessum aths. til hv. n. og legg fram skriflega brtt. um þetta efni. Að öðru leyti mun ég eindregið fylgja þessu frv., þó að ég hefði kosið, að einstöku smáatriðum væri öðruvísi fyrir komið en þar er gert.