14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

156. mál, barnavernd

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég verð að segja eins og hv. 3. landsk. sagði, að ég bjóst ekki við svona víðtækum brtt. á síðustu stundu, þegar að því er komið, að frv. verði afgr. héðan úr deildinni. Ég vil benda á, að það er ekki ónauðsynlegt, að barnaverndarn. styðji hver aðra. Þetta starf byggist einmitt á kunnugleika um land allt. Og það eru einmitt slíkar nefndir, sem eiga að sækja afl sitt í lögboðna samhjálp. Ég veit, að oft verða mikil mistök vegna ókunnugleika, þegar börnum er ráðstafað. Þeir, sem það gera, eru oft bæði ókunnugir barninu og heimilinu, og því geta mistök orðið, enda þótt ekki skorti góðan vilja. Uppistaðan í þessu starfi er sá kunnugleiki, sem kemur í hendur nefndanna þegar þær vinna saman.

Til þess að sýna, hver þörf er á þessu, skal ég minna á dæmi úr veruleikanum, þótt nokkuð sé nú liðið síðan sá atburður gerðist. Þar er um sorglegt dæmi þess að ræða, hverju vanþekking á lyndiseinkunn barns og vanþekking á heimili, sem þó var álitið gott, getur valdið:

Fyrir nokkrum tíma síðan var stúlkubarni 3 ára að aldri ráðstafað þannig, að því var komið fyrir á afskekktu og rólegu sveitaheimili. Á heimilinu var aðeins roskið fólk, ekkert barn. Þetta umrædda barn var tekið af fátæku, en glaðværu barnaheimili. Viðbrigðin voru því mikil fyrir litlu stúlkuna. Vitanlega átti ekki að gera henni neitt illt með þessu. En þarna vantaði kunnugleika á eðli barnsins og kunnugleika á því, sem hið afskekkta, fámenna, barnlausa heimili hafði að bjóða barni, sem vant var við leik og glaðværið systkina sinna. Litla stúlkan kunni því svo illa við sig, að hún lagði þrisvar til stroks. Þrisvar sinnum var hún elt, þrisvar sinnum náðist hún og þrisvar sinnum var hún bundin við rúmstólpann og barin. Þarna fékk hún nóg að borða og nóg föt. En bilið var of mikið milli æsku og elli. Og lyndiseinkunn hennar þoldi ekki þetta afskekkta og æskuvana heimili. Nú er hún brjálaður aumingi á sextugsaldri — og bókstaflega bundin við rúmstólpann æfilangt.

Ef vel á að fara, þá þarf náin kynni af sálarlífi barna og náin kynni af því fólki, sem þeim er komið fyrir hjá. Í 18. gr. er það tekið fram, að n. vinni hver með annari. Og undirbúningsn., sem að þessu frv. vann, tekur það skýrt fram, að barnaverndarn. vinni saman. Ég veit, að það, sem fyrir henni hefir vakað, er að koma sem mestu og beztu fram í þessu máli. Menn ættu því að hugsa sig vel um áður en þeir fara að raska þeim grundvelli fyrir barnavernd, sem lagður er með frv. þessu.

Það, sem síðast er talað um hjá undirbúningsn., brotamál barna, hefi ég mikið hugsað um og athugað. Ef barnaverndarn. fer rétt að ráði sínu og starfar eftir settum reglum, þá hygg ég, að á því sviði muni geta leitt hvað mest og bezt af starfi hennar. Í Kaupmannahöfn er ávallt, þegar barn er kallað fyrir rétt fyrir einhverjar sakir, einhver úr barnaverndarfélaginu kallaður til aðstoðar. Og ef um stúlkubarn er að ræða, þá er kona úr barnaverndarn. fengin til að líta eftir því. Það þarf að fara afar gætnum og mjúkum höndum um slík mál, því að barnið er viðkvæmt og það má ekki beita það skilningsleysi. Það er lagður mikill vandi á herðar þessara nefnda, og vel má vera, að fyrirmæli þessa frv. verði ekki í framkvæmdinni þrædd út í yztu æsar, en ég vona þó, að að því verði mikil bot.

Með frv. er skylda lögð á herðar fólks um að kæra illa meðferð á barni. Það er algengt, að fólk tali og slúðri sín á milli um slíkt, en ætli maður að ganga hreint að verki og fá sannanir, þá vill enginn segja neitt. Ég hefi oft komizt í hann krappan út úr slíku. Ég skal nefna eitt dæmi, gripið beint út úr hversdagslífinu. Það var eitt sinn kvartað um illa meðferð á gamalmenni. Ég gerði ítrekaðar tilraunir til að fá það upplýst, hvernig farið væri með það, en ég gat þá ekki fengið neinn til að segja mér sannleikann. En það á að vera skylda manna að þegja ekki þegar litlu barni er misboðið, heldur kæra slíkt athæfi tafarlaust. Frv. er með þessu að kalla á hið góða í þjóðfélaginu, sem vill hjálpa og leiðbeina, en ekki kasta steinum. Og nú vil ég vitna í það, sem brezkur sálarfræðingur, sem hefir veitt sálarlífi svokallaðra óknyttabarna sérstaka athygli, segir: Sálfræðingurinn lætur sér ekki nægja réttarrannsóknina, hann lætur sér ekki nægja minna en það að kynnast sálarlífi barnsins frá rótum. Glæpahneigðin er sjúkdómur, sem ekki verður upprættur nema orsökin finnist; en þá verður að kynnast manninum meðan hann er lítið barn og ná tökum á honum, meðhöndla hann ekki sem glæpamann, heldur sem lærisvein, sem þarf að læra, eða sjúkling, sem þarf að lækna.

Í heild sinni má líta á frv. sem tilraun til að koma slíku til leiðar. Aðaláherzlan liggur í því, að barnaverndarnefndirnar kynnist og byggi starf sitt á viðkynningu og undirstaðan undir starfi þeirra sé grundvölluð á samtíð, skilningi og kærleika.

Mér þætti miður, ef frv. yrði breytt svo, að það yrði gert að heimildarlögum. Ég get vel hugsað mér, að sumar bæjar- og sveitarstjórnir mundu fyrst líta á fyrirhöfnina, sem af þessu stafar, og því næst horfa í kostnaðinn og mundu síðan draga það á langinn að notfæra sér slík lög

Ég get svo látið máli mínu lokið. Ég vil aðeins geta þess, að brtt. um viðauka við 3. gr. kann ég vel og mun því greiða henni atkv. En að öðru leyti held ég, að brtt. séu sízt til bóta.