09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

156. mál, barnavernd

Frsm. (Einar Arnórsson):

Frv. það, sem lá fyrir menntmn. Ed. og nú er hér komið, var upphaflega undirbúið af n., sem ég ætla, að hæstv. dómsmrh. hafi skipað 6 mönnum eða 7, og var frv. þeirrar n. borið fram í hv. Ed. og samþ. þar með nokkrum breyt.

Í gildandi lögum eru nokkur fyrirmæli, sem ákveða stjórnarvöldum heimild að hlutast til um meðferð barna. Skal ég þá fyrst benda á 1. nr. 39 frá 1907. Þar er heimilað, að afbrotabörn megi taka frá foreldrum sínum og senda í sveit, ef um kaupstaðarbarn er að ræða. En þann ákvörðunarrétt geta þó ekki aðrir tekið en dómsmrh. Í fátækral. (nr. 43 frá 1927) er fátækrastjórninni heimilt að taka börn frá foreldrum, sem þiggja af sveit, og koma þeim fyrir annarsstaðar. Ennfremur er í 37. gr. sömu 1. heimild fyrir fátækrastjórn, ef foreldrar, sem ekki þiggja af sveit, veita eigi börnum sínum sómasamlegt uppeldi eða fara illa með þau, að taka börnin og koma þeim á góð heimili. Er sóknarpresti ætlað að hafa eftirlit með því, að vel sé með börnin farið, og þyki presti meðferð á börnum, sem komið hefir verið fyrir hjá vandalausum, ekki viðunandi, og hann getur eigi með umvöndun sinni lagfært það, ber honum að kæra málið fyrir lög reglustjóra, er halda á fátækrastj. til að gera skyldu sína.

Loks er í l. nr. 46 frá 1921, 34. gr., heimild fyrir skólanefndir eða fræðslunefndir að taka óskilgetið barn frá móður eða heimili, þar sem því hefir verið komið fyrir, ef uppeldi barnsins fer ekki svo vel úr hendi sem skyldi.

Af þessu, sem nú var talið, er auðsætt, að allmörg fyrirmæli eru í lögum um meðferð barna og eftirlit með þeim, en lagafyrirmæli þessi eru ófullnægjandi og hefir þeirra sumra lítið gætt í framkvæmd, því að mestu ráða þar gerðir fátækrastjórnanna, enda ekki að búast við, að lögreglustjórarnir láti þetta eftirlit mikið til sín taka, sem flestir eru hlaðnir öðrum störfum meira og minna. Það má því ætla, að þörf sé á að setja önnur lög um þetta, eða m. o. o. að þörf sé á ríkara eftirliti og frekari framkvæmdum í þessum efnum en verið hefir hingað til. Að því leyti vænti ég, að það lagafrv., sem hér liggur fyrir, mundi ráða bót á þessu, ef það verður samþ. með líku efni og menntmn. þessarar hv. deildar hefir lagt til á þskj. 638. Hinsvegar hefir n. þótt ástæða til að koma með ýmsar brtt. við frv. eins og það var samþ. í hv. Ed., og mun ég þá í sem fæstum orðum gera grein fyrir heim.

Fyrsta brtt. er við 1. gr. f frv. eins og það kom hingað er svo fyrirskipað, að barnaverndarn. skuli vera í öllum kaupstöðum og kauptúnum, þar sem íbúar eru 300 eða fleiri. Ef brtt. n. við 1. gr. verður samþ., þá eiga kaupstaðirnir einir að kjósa sérstaka barnaverndarn., en utan allra kaupstaða annist skólanefndir þessi störf. N. eða meiri hl. hennar lítur svo á, að utan kaupstaða sé ekki þörf á sérstakri barnaverndarn., störfin verði ekki svo mikil, að skólanefndum sé ofætlun að annast þau. En í kaupstöðum hefir hún fallizt á að fela þetta eftirlit sérstakri n. Mismunur frv. hv. Ed. og þess, sem menntmn. leggur til, er því sá, að í kaupstöðum landsins skal vera starfandi barnaverndarn., en alstaðar annarsstaðar annist skólanefndir þessi störf.

Sem betur fer er ekki almennt svo mikið um illa meðferð barna, að skólanefndir geti ekki rækt starfið.

Við 2. og 3. gr. hefir n. gert þá brtt., að báðum þeim gr. skuli steypt saman í eina gr. Leiðir það sumpart af brtt. við 1. gr., en sumpart helgast það af öðrum ástæðum. Menntmn. þykir ekki ástæða til, að neinir einstakir menn skuli sjálfkjörnir í barnaverndarn., eins og frv. hv. Ed. ætlast til um barnaskólastjóra og presta utan Reykjavíkur, séu þeir heimilisfastir á staðnum. Menntmn. lítur svo á, að ef þessir menn hafa traust framar öðrum mönnum, þá verði þeir settir í barnaverndarn. og þess vegna þurfi ekkert sérstakt ákvæði til að tryggja það. Það er lagt til í frv. eins og hv. Ed. skilaði því, að 3 konur skuli eiga sæti í barnaverndarn. Reykjavíkur, en 2 konur í barnaverndarn., sem kosnar eru annarsstaðar á landinu. Nú er það langt frá, að menntmn. þessarar hv. deildar sé á móti því, að konur starfi í slíkum n., heldur þvert á móti. En sumir líta svo á, að það sé vantraust á kvenþjóðinni að taka það fram í lög unum, að konur skuli eiga sæti í nefndunum. Ég fyrir mitt leyti hefði viljað hafa þetta óbundið, því að ég efast ekki um, að margar konur í kaupstöðum landsins njóta þess trausts samanborið við karlmenn, að þær verða kosnar í barnaverndarn. hvort sem ákvæði um það stendur í l. eða ekki. En af því að ýmsar konur leggja talsvert upp úr, að þetta verði lögfest, hefir n. ekki lagt til, að það yrði fellt, heldur orðað það á þá leið, að 2–3 konur skuli að jafnaði vera kosnar í hverja barnaverndarnefnd.

Þá hefir menntmn. flutt brtt. við 4. gr., þess efnis, að kjörtími barnaverndarn. skuli vera sami og bæjarstjórna. Menntmn. þykir fara vel á, að kjörtímabil beggja falli saman, að barnaverndarn., sem fær umboð sitt frá bæjarstj., starfi á sama tíma. Aðeins vill þó n. taka fram, að þær barnaverndarn., sem fyrst verða kosnar eftir 1. þessum, starfi ekki lengur en þar til bæjarstjórnarkosningar fara næst fram. Og er þetta aðeins í samræmi við hugsun n. með brtt.

Við 5. gr. hefir n. gert örlitla brtt., sem er þó aðallega orðabreyt. Það virðist ekki nein ástæða til að taka það sérstaklega fram í l., að bæjarstjórn eigi að sjá barnaverndarn. fyrir fundarstað. það er ýmislegt fleira, sem bæjarstj. þarf að sjá n. fyrir, svo sem bækur o. fl., til þess að n. geti komið að gagni. Þess vegna þykir réttara að standi í 1., að kostnaður af nefndarstörfunum greiðist úr bæjarsjóði.

Við 7. gr. hefir menntmn. flutt nokkrar brtt. Er sú fyrsta við 1. lið og fer fram á, að rýmkað verði valdsvið barnaverndarn., svo að hún geti einnig skipt sér af meðferð og uppeldi unglinga, sem komnir eru yfir 16 ára aldur, ef þeir eru vanþroska eða veikir. Það hefir komið fyrir í þessum bæ og viðar, að unglingar 16–18 ára hafa verið meðhöndlaðir á þann hátt, að ekki er viðhlítandi, en ekkert vald er til að hlutast um það efni. Menntmn. þótti því rétt að gefa barnaverndarn. rétt til íhlutunar, er svo ber undir.

Brtt. við 2. tölul. 7. gr. er aðeins orðabreyt. Sama er og að segja um brtt. við 3. tölul. og fyrri brtt. við 9. tölulið.

Síðari brtt. við 9. tölul. 7. gr. fer fram á, að síðari málsl. falli niður, þar sem ákveðið er, að lög regluvaldinu sé skylt að veita barnaverndarn. alla þá aðstoð, er hún beiðist. En í 2. brtt. menntmn. á þskj. 638 er ákvæði um, að starfsmönnum ríkis og kaupstaða sé skylt að veita n. þessa sömu aðstoð. Verði því brtt. menntmn. við 2. og 3. gr. samþ., þá er ákvæði síðara málsl. 9. tölul. 7. gr. óþarft og ekkert annað en endurtekning.

Við 8. gr. hefir n. flutt þá breyt., að ein setning úr miðri gr. falli niður. Þar stendur sem sé þetta:

„Þegar nefndin æskir þess, ber hlutaðeigandi valdsmanni að láta fara fram réttarrannsókn á slæmri meðferð á barni; yfirheyrir hann þá þau vitni, sem hún og forráðamenn barnsins tilnefna“. Þessi setning um yfirheyrslu vitnanna leggur n. til, að falli niður, því að það er villandi að taka þetta sérstaklega fram. Valdsmaðurinn verður ekki aðeins að yfirheyra vitni, heldur verður hann að afla sér margskonar annara gagna og skjala, svo sem læknisvottorðs o. fl.

Við 1. málsl. 10. gr. er örlítil breyt. gerð, sem helgast af breyt., sem áður er gerð, og má því skoðast sem orðabreyt. Sama er og að segja um 9. brtt., við 11. gr., og

10. brtt., við 14. gr.; þar er orðalagið aðeins fært til betra máls. Þar er talað um sérfræðiathuganir á sálarlífi barna. N. lítur svo á, að fleira sé að athuga, og leggur því til, að orðið „sálarlífi“ falli niður.

Næst kem ég að 11. brtt., sem er umorðun á 15. gr. Eftir 15. gr. frv. því hvílir ótakmörkuð skylda á foreldrum eða framfærslumönnum að gefa með börnum sínum þangað, sem n. ráðstafar þeim. Sömuleiðis því úr ótakmörkuð skylda á sveitar- og bæjarfélögum til að greiða, þegar foreldra eða framfærslumenn þrýtur. Menntmn. þótti varhugavert að leggja þessa skyldu á ótakmarkað, því að vel getur verið, að barnaverndarn. komi börnum fyrir með svo háu meðlagi, að ókleift eða illkleift sé viðkomanda að greiða það. Með þessu getur stafað óþarfa kostnaður af því að koma börnunum fyrir, því að gera má ráð fyrir, að n., sem kemur barninu fyrir, líti á það starf einhliða með hag barnsins fyrir augum og án tillits til þess kostnaðar, sem viðkomanda er gert að skyldu að greiða. Þess vegna varð að ráði í menntmn. að gera þá breyt. á þessu ákvæði 15. gr., að viðkomandi foreldrum eða framfærslumönnum væri jafnan skylt að greiða meðalmeðlag með börnum sínum þangað, sem n. ráðstafar þeim. En ef barnaverndarn. semur um hærra meðlag, þá þarf samþykki viðkomandi fátækrastjórnar til þess að bæjar- eða sveitarfélagi verði skylt að greiða hærra meðlag en sem því nemur. Með þessu er ekki sagt, að aldrei eigi að greiða hærra en meðalmeðgjöf, heldur er hér um samkomulagsatriði að ræða á milli þess, sem barnið tekur, og fátækrastjórnar.

Þá hefir n. gert lítilsháttar breyt. við 16. gr., þar sem lagt er til, að síðari málsl. hennar verði felldur niður, en hann hljóðar um það, að sé þagað um glæpsamlegt athæfi gagnvart barni, getur það varðað fangelsi. Þetta ákvæði er óþarft, þegar refsiákvæðum við brotum gegn einstökum gr. frv. er safnað saman í 19. gr. Við hátt refsiákvæði hefir menntmn. bætt tveimur brotum. Er hið fyrra um brot gegn 10. tölul. 7. gr. og á við það, að ef kvikmyndahús vanrækja að láta barnaverndarn. í té upplýsingar um þær myndir, er þau sýna, þá liggi refsing við því. Hitt ákvæðið er um brot gegn 12. gr.

Þá er lagt til, að efnisbreyt. verði gerð á 20. gr. frv. Eins og hv. Ed. skilaði frv. frá sér, þá felst í þessari gr. aðeins heimild fyrir kennslumálaráðh. að skipa barnaverndarráð, er hafi heimili í Reykjavík. Menntmn. er kunnugt um, að n. sú, er skipuð var til að undirbúa þetta frv., er mótfallin þessu og leggur ríka áherzlu á, að barnaverndarráð fyrir allt land skuli skipað. N. telur málinu betur komið með því skipulagi, að ráðuneytið fari með þessi mál. Þar eru menn eigi fullkunnugir þeim, og mundu hvorki hafa nægan tíma né nægan áhuga á þeim til nægilegrar rannsóknar, þegar máli væri þangað skotið. Hinsvegar þótti menntmn. þessarar d. rétt að hallast að því, sem Ed. hafði samþ., að hafa 3 menn í þessum nefndum og skipaða með þeim hætti, sem segir í 20. gr. þessa frv.

Þá taldi n. sjálfsagt, að svo sé ákveðið í 23. gr., að kostnaður af barnaverndarráðinu greiðist allur úr ríkissjóði.

Þá leggur n. til, að 24. gr. verði breytt. Í henni eru talin upp nokkur lagafyrirmæli, sem er sagt, að falli úr gildi, þegar þessi l. koma til framkvæmda. Það getur verið vafasamt um ýmislegt í þessum l., bæði frá 1907, 1921, 1926 og 1927, hvað geti staðizt og hvað ekki. N. þótti því réttast að orða það svo, að öll þau lagaákvæði, sem brytu í bág við fyrirmæli þessa frv., skyldu úr gildi falla. Má þetta fremur kallast formsatriði en efnisatriði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að rekja þetta mál lengur. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. muni hafa athugað þessar brtt. og vona, að þeir taki þeim yfirleitt vel.